03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Út af ósk hv. þm. Ísaf. um, að þessi heimild yrði líka látin ná til bæjarfélaga vil ég taka það fram, að n. hefir borizt ósk um það frá einu bæjarfélagi á Norðurlandi, og mun hún taka það til athugunar. Ég verð að segja eins og hv. þm. Hafnf., að ég sé ekkert á móti því, en álít, að þess sé minni þörf fyrir bæjarfélögin heldur en sveitarfélögin, og af þeirri ástæðu hefir heimildin ekki verið látin ná til þeirra; en úr því að áhugi er fyrir því, þá sé ég ekkert á móti því að athuga það, og ýmislegt, sem mælir með því, að heimildin sé líka látin ná til bæjarfélaganna. — Það, sem hv. þm. Borgf. sagði, hefi ég ekki mikið um að segja, en það vildi ég, að kæmi fram, að hann kom ekki fram með þær brtt. sínar í n., sem hann nú kemur með, heldur kom hann þar með aðrar till., sem n. varð ekki sammála um, en þær till. koma ekki fram hér, heldur kemur hann nú með nýjar till., sem n. hefði getað fallizt á. Þetta vil ég, að komi fram. Þegar n. starfar, þá eiga nm. ekki að gera ágreining og koma svo á eftir með allt aðrar till. en lagðar eru fyrir n. og ágreiningur hefir orðið um. Ég tel það ekki rétt starfað í n., að hún klofni á till., sem aldrei hafa komið fram.

Hv. þm. Hafnf. vitnaði í það sinni till. til stuðnings, að tillag ríkissjóð til atvinnuleysissjóða væri ¼ af tillagi þátttakenda. Þetta er rétt, en þeir fá líka ¼ frá bæjarsjóðum, og til samans verður það helmingur af tekjum sjóðanna. Hann sagði, að sá ¼, sem bæjarfélögin legðu fram, kæmi frá þeim, sem ættu að njóta styrksins; en þetta er ekki alveg rétt. Ég held, að ríkissjóður komi hér bæði í staðinn fyrir ríkissjóð og bæjarsjóði, þegar miðað er við atvinnuleysissjóði. Ég held, að það sé fullt samræmi í því, að ríkið leggi fram helming til fóðurtryggingarsjóðanna og að ríki og bæjarfélög leggi til samans helming til atvinnuleysissjóðanna. Ég held, að það sé óhætt að slá því föstu, að í flestum stöðum verði mjög lítill hluti þess, sem bæjarfélögin leggja fram, frá þeim, sem styrksins eiga að njóta, svo að ég segi ekki meira.

En ég vil benda á það, að ef till. hv. þm. Hafnf. verður samþ., þá getur hún orðið mikil bremsa á, að sjóðirnar verði stofnaðir, og þótt það sé ekki meira en 6–7 kr., sem þarf að borga af meðalbúi, þá verður það meira, sem bóndinn þarf að borga alls, því hann þarf líka að borga fyrir fénað, sem aðrir eiga á heimilinu, og ekki er vert að spenna bogann svo hátt, að hann bresti. Það er ekki rétt að gera gjöldin svo há, að það komi í veg fyrir, að sjóðirnir verði stofnaðir, því þörfin fyrir þá er mikil. Hitt er rétt að það er að sjálfsögðu þörf að búa svo um hnútana, að menn fari ekki að setja verr á vegna sjóðanna, og það hefir verið reynt að gera á ýmsa vegu, t. d. með ákvæðum 9. gr. og með skilyrðum, sem sett eru í 10. gr., og ennfremur með því, að þeir, sem ekki njóti styrks úr sjóðnum, fái endurgreitt af tillögum sínum á 5 ára fresti. Allt er þetta gert með það fyrir augum, að menn fari ekki að nota sjóðina til þess að setja illa á, og ef einhverjir finna fleiri skynsamleg ráð til að tryggja það, þá er ég fús til að vera með þeim. Fóðurtryggingarsjóðirnir eru ætlaðir til þess að vera varasjóðir í óvenjulegum harðindum, en ekki til þess að vera bakhjarl fyrir illri ásetningu, og ég vil gera allt, sem unnt er, til þess að tryggja það, að þeir verði notaðir á réttan hátt.

Ég vil að lokum benda hæstv. forseta á brtt. 1,b. Hann minntist á það áðan, að hún gæti komizt að, þótt brtt. hv. þm. Borgf. væri samþ., en hún ætti þá að koma á eftir 2. málsgr. á þskj. 87. þar getur hún komizt að, en verður annars út í loftið, ef till. hv. þm. Borgf. verður samþ. — Ég vil aðeins benda á þetta, hvort sem hún verður tekin fyrir nú, eða þá látin bíða til 3. umr.