03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Út af ræðu hv. þm. Borgf. vil ég aðeins segja það, að ráðið til þess, að ekki komi fram misskilningur í n., er það, að þær brtt., sem nm. hafa að gera, komi fram í n., svo hún geti rætt þær; þá bræða þeir sig saman, eða klofna ella. En svo hefir ekki verið í þessu tilfelli, hér koma till., sem aldrei hafa verið sýndar n. og ekki reynt að ná samkomulagi um. Hv. þm. Hafnf. segir, að bæjarfélögin leggi fram ¼ af fénu, sem renna á í atvinnuleysissjóðina, og séu framlög hinna tryggðu í hlutfalli við styrkinn því ekki sambærileg við það, sem bændum er samkv. frv. ætlað að greiða til fóðurtryggingarsjóðanna. En sá stóri munur er á bæjarsjóðunum og sveitarsjóðunum í þessu tilfelli, að skepnueigendurnir í sýslunum eru þeir menn, sem greiða svo að segja einir til hreppssjóðanna, og þeir geta allir komið til með að njóta fóðurtrygginganna, en í bæjunum getur fjöldi þeirra, sem greiða gjöld í bæjarsjóð, og oft þeir, sem þangað greiða mest, aldrei komið til með að njóta atvinnuleysistrygginganna. Það er ekki nema svolítill partur bæjarbúa, sem nokkurntíma getur notið atvinnuleysistrygginga, en allir greiða til bæjarsjóðs, og þeir yfirleitt mest, sem aldrei geta komið til með að njóta atvinnuleysisstyrks. Því sagði ég, að það væri nokkuð sambærilegt við það, sem ætti að gilda um atvinnuleysistryggingarnar, að bændur væru látnir greiða helming kostnaðar við fóðurtryggingarnar. Í báðum tilfellum má þá segja, að í aðalatriðum greiði þeir, sem styrksins eiga að njóta, helminginn sjálfir; ég viðurkenni að vísu, að eitthvert brot af framlagi bæjarsjóðanna til atvinnuleysistrygginganna getur verið komið frá styrkþegunum sjálfum, en það getur ekki verið nema örlítið, og því fannst mér nokkurt samræmi vera þarna á milli.