03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Bjarni Ásgeirsson:

Við það, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði viðvíkjandi till. hv. þm. Hafnf., vil ég bæta einu, sem mér finnst skera úr um það, hver höfuðmunur er að mörgu leyti á atvinnuleysissjóðunum og fóðurtryggingarsjóðunum. Og það er það, að samkv. l. um atvinnuleysistryggingarnar er ætlazt til, að þeir tryggðu, sem gjalda til atvinnuleysissjóðanna, geti á sínum tíma fengið fé úr sjóðunum sem beinan og óafturkræfan styrk til sinna einkaþarfa. En tilgangur þess frv., sem hér liggur fyrir, er aftur sá, að stofnað sé til sjóða, sem hægt sé að grípa til að veita lán úr í harðindum, sem viðkomandi bændur verða í flestum tilfellum að endurgreiða. Þeir, sem greiða til fóðurtrygginganna, geta því ekki vænzt þess, nema undir alveg sérstökum kringumstæðum, að fá sinn hluta greiddan aftur til einkaþarfa. Sjóðirnir eiga að halda áfram að vaxa óskertir til nota þeirra, sem í sveitunum búa eftir þá, og því finnst mér rétt að gera ekki sömu kröfur til þeirra um framlög eins og hinna, sem greiða til atvinnuleysissjóðanna og geta komið til með að fá útborgað úr þeim aftur sem óafturkræfa eign til sinna þarfa. Held ég því fast við þá breytingartillögu, sem meiri hluti nefndarinnar gerir um þetta atriði.