03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Pétur Halldórsson:

Ég hefi hlustað hér á umr. um þetta mál, og er nú nokkuð fróðari um það en áður, en þó langar mig að gera aths. við nokkur atriði, til þess að fá þau betur skýrð.

Fyrst og fremst vil ég benda á það, sem sett er fram í grg. frv. sem aðalmeðmæli með frv. og sönnun fyrir nauðsyn þess, að í þeim hreppum, þar sem fóðurbirgðafélög hafa starfað lengst, þar sé þessum málum nú komið í gott horf, nefnilega ásetningu bænda á hey sín á haustin. Ég hefi ekki heyrt meira um þetta, hvorki við 1. umr. eða þessa, en mér þætti fróðlegt að heyra um það sem grundvöll undir þessari löggjöf, að það væri virkilega komin reynsla fyrir því, að slíkar ráðstafanir sem hér er um að ræða nái í raun og veru tilgangi sínum. Ef svo er, þá er hér um gott mál að ræða og gagnlegt. Það er því nauðsynlegra að gefa þessu grundvallaratriði einhvern gaum, þar sem í grg. segir, að áður en nú hafi verið gerðar margvíslegar ráðstafanir til þess að reyna að ná þessu sama marki með ásetninguna, nefnilega með forðagæzlulögunum, l. um samþykktir heyforðabúra og kornforðabúra og svo IV. kafla búfjárræktarlaganna um fóðurbirgðafélög. Nú virðist þó þetta frv. bera vott um, að allar þessar ráðstafanir, sem áður hafa verið gerðar, hafi komið að litlum notum, en að þetta sé talið síðasta og bezta úrræðið til þess að ná takmarkinu, sem svo er tæpt á í grg., að muni að líkindum nást, þar sem beztur árangur hafi náðst þar, sem fóðurbirgðafélög hafa starfað að undanförnu. Mér finnst það á vanta, að þessi fullyrðing sé rökstudd nokkuð frekar, og beinlínis sannað með dæmum og frásögnum, að það sé í raun og veru rétt, að í þeim hreppum, þar sem fóðurbirgðafélög hafa starfað lengst, sé málinu komið í gott horf. Ef þetta væri sannað mætti draga af því þá ályktun, að rétt sé að halda lengra á þessari braut með aðstoð löggjafarvaldsins, og þá ætti þetta mál vafalaust mjög greiðan gang gegnum þingið. En það finnst mér ekki hafa verið gert, enda hefir komið fram í ræðum hv. þm. vafi á því, að svona tilgangur mundi nást. Ég man ekki betur en að hv. þm. Borgf. léti orð falla í þá átt, og bendir það á, að hann sé ekki alveg sannfærður um, að fullyrðingin í grg., er ég minntist á, hafi við full rök að styðjast. Ég er sammála þeim, sem vilja koma á slíkri löggjöf, sem hér er um að ræða, ef það er rétt, eins og segir í grg., að það sé nokkurnveginn fyrirfram tryggt, að hún nái tilgangi sínum.

Þá hefi ég annað út á þetta frv. að setja, og það er það, að það byrjar á því að veita framlög úr ríkissjóði. Ég hefði talið miklu betur á því fara, að það kæmi í endalok laganna, eins og til stuðnings við sjálfsbjargarviðleitni og samtök manna um sameiginleg bjargráð, fyrirheit um ríkisframlag til þeirra héraða, sem hafa sýnt með sínum framlögum, að þau vilja eitthvað á sig leggja fyrir þetta góða málefni. Hér finnst mér þessu snúið öfugt; byrjað á því í 1. gr. frv. að ákveða út í bláinn, að leggja skuli fram fé úr ríkissjóði, áður en minnzt er á tilgang frv. Því hefði ég kosið, að hv. landbn. athugaði, hvort hún vill ekki breyta þessu, þannig að 1. gr. verði síðasta gr. frv. Ég teldi fyrir mitt leyti að það færi miklu betur á því.

Mér finnst líka frv. að öðru lyti heldur losaralegt, og sé ég ekki, að till. n. bæti neitt úr því. T. d. ákvæðið um það, hvernig leggja skuli á gjöldin til þessara sjóða; virðist það eiga að vera á valdi sýslunefndanna. Í 2. gr. segir: „og má ákveða að jafna því að nokkru eða öllu leyti niður á búfjáreigendur eftir sama mælikvarða og framlagi ríkissjóðs.“ Nú vil ég fyrst og fremst benda á að það á ekki að segja eftir sama mælikvarða og framlagi ríkissjóðs, því framlagi ríkissjóðs er ekki jafnað niður, þegar það er tekið af landsmönnum í ríkissjóðinn. En hér er ákveðið, að því, sem héruðin leggja fram til þessara fóðurtryggingarsjóða, megi að einhverju eða öllu leyti jafna niður á bændur eftir búfjáreign þeirra. Ég vil spyrjast fyrir um, hvað fyrir hv. nm. vakir, er þeir gefa þannig í skyn, að ekki þurfi að jafna öllu framlagi héraðanna niður eftir búfjármagni bænda.

Þá vil ég benda hv. n. á, að það er ekki rétt að segja í 1. gr. frv., að ríkissjóðsframlaginu skuli skipt í réttu hlutfalli við það búfé, sem fram er talið í hverri sýslu, því það er ekki gert ráð fyrir, að allir hreppar sýslunnar þurfi endilega að taka þátt í sjóðunum. Verður að miða framlag ríkisins til hverrar sýslu við búfjáreign þeirra hreppa hennar, sem frítt taka í fóðurbirgðasjóðunum. Mér þykir líklegt, að þetta sé meiningin, en þá er orðalag 1. gr. heldur ekki nógu skýrt. Þá er athugandi, að eftir að sýslunefnd hefir gert samþykkt um stofnun fóðurtryggingarsjóðs „skal bera hana undir atkvæði þeirra, er gjaldskyldir eru til sjóðsins samkv. samþykkt sýslunefndar.“ Ef nú einhverjum hluta af framlagi sýslunnar er ekki jafnað niður eftir búfjáreign, heldur tekinn á einhvern annan hátt, t. d. af útsvarstekjum hreppanna, hverjir eru þá gjaldskyldir taldir til sjóðanna? Væntanlega allir hreppsbúar. Og er þá meiningin, að þeir taki allir þátt í atkvgr. um samþykktina. Þetta finnst mér ekki nægilega ljóst.

Óviðkunnanlegt orðalag finnst mér í 3. gr., þar sem segir, að hreppum, þar sem eru starfandi fóðurbirgðafélög, sé heimili „að vera utan þátttöku í stofnun fóðurtryggingarsjóðs.“ Mér finnst, að það þyrfti að leiðrétta þetta orðalag. Það er ekki íslenzka að segja, að menn séu „utan þátttöku“ í einhverju.

Þá eru síðar í frv. fyrirmæli um, hvaða skilyrði þarf, að vera fyrir hendi til þess, að stjórn fóðurtryggingarsjóðs megi hefja ráðstafanir og verja fé úr sjóðnum til fóðurbætiskaupa. Og í 8. gr. segir, „að sé nokkur ástæða til að ætla, að einhverja búfjáreigendur innan umdæmisins skorti fóður handa búfé sínu á komandi vetri, skal sjóðstjórnin verja sjóðnum til kaupa fóðurbætis“ — bara öllum — „og geyma hann á þeim stöðum í sýslunni, sem hagkvæmast er fyrir búfjáreigendur.“ Ég veit ekki, hvort þetta er virkilega meiningin, að ekki þurfi nema einn eða tveir bændur að setja óvarlega á, þá verði að kaupa fóðurbæti fyrir allan sjóðinn, og þá líklega geyma hann sem næst þessum tveimur bændum, til þess þeir þurfi sem skemmst að fara, þegar þeir þurfa á hjálp að halda. Þetta er a. m. k. óheppilegt orðalag, sem getur jafnvel gefið tilefni til misskilnings, því til þessara varasjóða almennings þætti mér eðlilegast, að ekki væri gripið nema í ýtrustu nauðsyn, virðist mér þörf á nánari ákvæðum um notkun sjóðanna heldur en þarna eru. Í 10. gr. segir, að verði almennur fóðurskortur vegna óviðráðanlegra orsaka, sé sjóðstjórninni heimilt að verja nokkru af sjóðnum til styrktar þeim, sem verst eru staddir. Þó má aldrei verja meira en helming af höfuðstól sjóðsins til styrktar samkvæmt þessari gr. Mér finnst nú, að tilgangurinn ætti einmitt að vera sá, að geyma þessa sjóði, þangað til menn þurfa virkilega á þeim að halda, þangað til menn þurfa á öllum þeim krafti að halda, sem sameiginleg átök geta veitt, til þess að verjast vandræðunum; en þá ætti líka að mega nota þá alla. Það getur ekki verið meiningin, að ef ýtrustu vandræði steðja að, eigi að geyma helming sjóðanna. Þangað til hvenær? Það gæti e. t. v. orðið til þess, ef geyma ætti helming sjóðanna til seinni tíma, þegar svo stendur á, að þeir komi ekki að því gagni sem þeim er ætlað og þeir þurfa að koma í mestu neyð.

Þetta eru nú þær hugleiðingar, sem mér hafa komið í hug við lestur þessa frv. og undir umr. um það hér í d. Og ég verð að segja, eins og annar hv. þm. sagði hér áðan, að ég tel rétt að fara mjög gætilega í allar þessar ráðstafanir, sem eiga að heita til tryggingar landslýðnum gegn öllum erfiðleikum. Tryggingar, sem að fullu haldi koma, verða ekki fyrst og fremst skapaðar með löggjöf. Hitt er rétt og satt, að með löggjöf má benda á hinar réttu leiðir í þessu efni og aðstoða menn við að fara þær. Það hefir áður verið reynt með ýmsum ráðstöfunum eins og bent er á í grg. Og ég er ekki sannfærður um, að hægt sé að tryggja menn svo, að allri hættu sé afstýrt, sérstaklega vegna þess, að samhliða tryggingarráðstöfunum sem þessum vill gjarnan vaxa ógætni þeirra, sem tryggja á.

Ég vil nú biðja hv. landbn. að athuga þau atriði frv., sem ég hefi bent á, hvort þar mætti ekki eitthvað öðruvísi betur fara.