18.03.1936
Neðri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Landbn. hefir haft þetta mál til athugunar, og ég veit ekki annað en n. sé sammála um þær till., sem eru á þskj. 151. Að vísu var hv. þm. Hafnf. ekki við, þegar endanlega var gengið frá þeim, en hann hafði áður tjáð sig samþykkan efni þeirra í öllum aðalatriðum, og ég hygg, að hann felli sig við þær eins og þær eru orðaðar. Það lítur út fyrir í fljótu bragði, að það séu miklar breyt., sem n. hefir gert á frv. frá 2. umr. En þegar þetta er nánar athugað, þá eru þær mjög litlar efnislega, þó miklar séu að fyrirferð. En þær leiðir af því, að n. hefir fallizt á það, sem hv. þm. Ísaf. og fleiri stungu upp á við 2. umr., en það var, að þessir sjóðir væru líka látnir ná til bæjarfélaganna, og í sambandi við það hefir víða verið bætt inn orðinu „bæjarstjórn“, og það þótti hentara að orða gr. um heldur en að hafa marga stafliði breytta við hverja gr. Það er aðalbreyt., sem á frv. hefir verið gerð, að nú er lagt til, að heimilað sé að láta þetta líka ná til bæjarfélaga, svo að þau geti komið upp fóðurtryggingarsjóðum. Það má deila um þetta. Í rauninni er það svo í mörgum bæjarfélögum, og reynslan er líka sú í kauptúnunum, að þar er sett á upp á það að fá hey smám saman keypt, og það er þess vegna vafasamt, hvort rétt er að láta þetta ná til bæjarfélaga eða ekki. En við nánari athugun komst n. að þeirri niðurstöðu, að það væri rétt að láta bæjarfélögin hafa hinn sama rétt og sýslufélögin, og hún féllst því á, að bæjarfélögin væru tekin inn í frv. Af þeim breyt. leiddi, að það þurfti að taka upp sérákvæði um stjórn sjóða í bæjum, og þau ákvæði um sýslurnar, að þar skyldi samþykkt um stofnun fóðurtryggingarsjóðs borin upp í hreppunum að sýslufundi afloknum, gátu ekki óbreytt náð til bæjanna, því þar á að bera samþykktina upp á almennum fundi í bæjarfélaginu. Hvað snertir aðrar breyt., þá má fyrst benda á það, að n. hefir orðið við óskum hv. 5. þm. Reykv. um það að láta frv. byrja á nokkuð annan hátt en það gerði áður. Áður byrjaði það eins og hv. þm. muna og sjá á ákvæði um það, að ríkissjóður leggi fram 75 þús. kr. árlega. Þetta þótti hv. 5. þm. Reykv. óviðkunnanlegt og taldi, að það ætti að byrja á byrjuninni, eða því, að tilgreina tilveru sjóðanna, og n. hefir fallizt á þetta og tekið upp nýja gr., sem verður l. gr., en í henni er að nokkru leyti efni 5. gr., sem áður var. Þetta er ekki efnisbreyt., heldur breyt. á orðalagi og tilfærsla í frv. Þá hefir n. skerpt það, að ekki væri sett á sjóðina, með því að taka fram í brtt., að í samþykkt skuli tekið upp ákvæði um, að í hverjum hreppi skuli vera ákveðinn fóðurforði til að haustinu. Þetta er að vísu allt til í forðageymslulögunum, og þeim á að vera hlýtt. En til frekara öryggis er þetta tekið upp þarna, því að meiningin er ekki, að menn setji á þessa sjóði. Þegar brtt. hv. þm. Borgf. við 2. gr. var samþ. við 2. umr., féll niður brtt. n., stafl. b. Þetta er nú tekið upp aftur og þar með ákveðið, að hverjum innheimtumenn eigi aðgang um tillögin til sjóðanna. Aðrar efnisbreyt. er ekki um að ræða, en þær breyt., sem hér eru gerðar, leiðir af því, að bæjarfélögin eru tekin upp samhliða sýslufélögunum.

Um till. frá hv. 7. landsk., sem lágu fyrir n., er það að segja, að um þær urðu nm. ekki sammála, og hafa þeir um þær óbundnar hendur og áskilja sér rétt til að koma með brtt. Þær ganga, eins og menn sjá og þekkja, út á það, að það geti verið jöfnum höndum, að menn myndi fóðurtryggingarsjóði og matforðasjóði. Ég hefi þar sérstöðu og kem með brtt. á þskj. 169. Án þess að ganga nánar inn á brtt. hv. 7. landsk., skal ég nú strax gera grein fyrir brtt. minni. Ég viðurkenni fyllilega, að það sé þörf á því, að eitthvað sé gert af hálfu þess opinbera til þess að tryggja það, að á þeim höfnum hér á landi, sem ís getur lokað meiri eða minni hluta vetrar eða árs, sé til forði, sem hægt er að nota til manneldis. Það er orðið svo á þessum höfnum, og viðskiptin eru orðin svo yfirleitt kringum landið, að allar verzlanir eru farnar að draga að sér smátt og smátt, og einstaklingarnir eru farnir að gera það líka. Sú gamla venja, að draga að sér á haustin til vetrarins og á vorin til sumarsins, er nú næstum því horfin. Það eru teljandi þau heimili, sem halda þeim sið í verzlunarháttum sínum. Og með þeirri öru umsetningu og þeim hraða, sem nú er, þá er von, að verzlanir skirrist við að liggja með miklar birgðir. Þær gera það til þess að verða fyrir sem minnstu vaxtatapi, og hafa því yfirleitt ekki forða handa fólkinu á þessum íshöfnum nema til skamms tíma. Við síðustu áramót var það t. d. svo á höfnum á þessum svæðum, og ég ætla, að það muni vera 13–15 lögsagnarumdæmi, sem svo er ástatt um, að hægt sé að fullyrða, að ekki hafi verið til meiri forði en það, að hefði komið ís og lokað fyrir siglingar til þessara hafna um áramótin, áður en janúarskip kom, þá hefði áreiðanlega ekki verið til matarforði handa fólkinu í þessum sýslum, nema til skamms tíma, líklega dálítið misjafnt á hinum ýmsu stöðum, en hvergi nema dálítið fram á vetur. Vegna þessa vil ég veita heimild til þess, að það sé leyft í sambandi við fóðurtryggingarsjóðina að ákveða, að einhver hluti af þeim forða, sem þar er geymdur, sé í þeim fóðurbætistegundum, sem jafnframt má nota til manneldis, og ef henta þyki, þá megi í stað þess að liggja með forðann, semja við verzlun á staðnum að liggja með hann og taka þátt í vaxtatapi, sem hún verður fyrir við það. Ég tel líka, að það sé í alla staði heppilegra, að nokkur hluti af varaskepnufóðurforðanum sé í þeim fóðurbætistegundum, að nota megi þær til manneldis, því þá má nota hann til manneldis, þurfi hann ekki til skepnufóðurs. Þetta er nokkurskonar miðlunartill, sem ég kem þarna með, og geri ég það af því, að ég vil ekki taka burtu það hlutverk, sem fóðurtryggingarsjóðunum er fyrst og fremst ætlað, en það er að tryggja það, að til sé varafóðurforði, og tel ég brýna nauðsyn á því, að það sé gert. Ég tel hana brýna af því, að það ber oftar að höndum, að það þurfi að nota þann varaforða heldur en hinn. En þar sem áhugi er fyrir því að koma upp slíkum varaforða til þess að grípa til, ef skortur er á fæði til manneldis, þá vil ég, að til þessa sé heimild í lögunum, því ef þessir sjóðir eiga framtíð fyrir sér, þá ættu ekki að líða nema tiltölulega fá ár, þangað til þeir geta annað báðum hlutverkunum. Þá vaxa þeir á tiltölulega fáum árum, eða geta a. m. k. vaxið, þegar árin líða, ef þetta fyrirkomulag helzt, við skulum segja eftir 10–15 ár, svo þeir verði nokkurn veginn þess umkomnir að sinna báðum þessum hlutverkum.

Þess vegna vil ég hafa möguleikann til, ef viðkomandi sýslu- eða bæjarfélög æskja þess, og hefi því komið með brtt. á þskj. 169 við brtt. n. á þskj. 151, þar sem nm. hafa óbundið atkv. um þetta atriði. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta frekar núna, en geri ráð fyrir að þurfa að taka til máls, þegar hinir hafa talað sem eiga hér brtt.