18.03.1936
Neðri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Jón Sigurðsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 112, en það vill nú svo til, að hv. síðasti ræðumaður hefir talað fyrir þeim, þó hann vilji útfæra þetta nokkuð á annan veg. Samkv. mínum brtt. er lagt til, að þessum 75 þús. kr., sem ríkinu er ætlað að leggja fram, verði varið á tvennan hátt, bæði til fóðurtryggingarsjóða fyrir búpening og til þess, að kauptún þau, sem liggja í þeim hluta landsins, er nefna mætti ísasvæði, geti komið sér upp sjóði, ef þau æskja þess, með því sérstaka markmiði að tryggja sig gegn matvælaskorti í harðindum.

Ég lít svo á, að ekki sé minni ástæða til að tryggja fólkið, sem býr í þessum héruðum, gegn bjargarskorti heldur en búpeninginn. Hv. síðasti ræðumaður lýsti greinilega, hvernig væri ástatt hjá þeim, sem hafísinn getur hæglega lokað siglingaleiðum til allt að 6 mán. ársins. Hann gat þess, að um áramót hver væri nú sama sem enginn kornforði til á þessum stöðum.

Er það öllum mönnum ljóst, að hér er stórhætta á ferðum, og það kemur að því fyrr eða síðar, að tjón hlýzt af, ef ekki eru gerðar ráðstafanir til varnar. Er það augljóst, að meiri hætta er á ferðum þar, sem fólkið þyrpist meira saman, eins og í kauptúnum og bæjum, og mun fólk þar verða fyrr bjargarlaust og líða harðræði en í sveitunum. Er nú þegar orðið svo, að ef skipakomu seinkar, eða vöruflutningar tefjast af einhverjum ástæðum um nokkurn tíma, þá verður fljóti þurrð fyrir dyrum, svo að til vandræða horfir og hvað mun þá, ef ís lokaði fyrir allar hafnir á Norður- og Austurlandi? Þess vegna er full ástæða til að taka þetta atriði til íhugunar, engu síður en tryggingar búfjárins, og ráða bót á.

Í till. mínum hefi ég valið þá leið að koma upp tveimur sjóðum sjálfstæðum, og er það gert með það fyrir augum, að sýslu- eða bæjarfélögin geti valið um. Mundu þá sum kjósa fóðurtryggingarsjóði, en önnur mundu láta það sig minna skipta, t. d. þar sem fóðurbirgðafélög væru næstum í hverjum hreppi, en hin mundu velja þá leið að koma upp matvælabirgðasjóði, og ef til vill sum báðum þessum sjóðum. Það hefir verið sú stefna í þessum málum að selja sýslufélögunum sjálfdæmi um að velja, og fyrir mér vakir það, að gefa þeim frjálsar hendur um, hvað þau meti sem aðalatriði, og veita þeim stuðning eftir því.

Þetta hefir hv. 2. þm. N.-M. gengið að vissu leyti inn á, en hann vill ekki, að þetta séu sjálfstæðir sjóðir, heldur hafa allt í einu „samkrulli“, eða að fóðurtryggingarsjóðirnir taki að einhverju leyti að sér þetta hlutverk. Það er hægt að hugsa sér þetta, en ég býst við, að það yrði hvorki fugl eða fiskur, a. m. k. í mörgum tilfellum, og yrðu þá aðallega fóðurtryggingar fyrir búpening, enda svo fyrir mælt, að grundvöllur eða gjaldstofn sjóðanna yrði búfjáreignin, sem líka er eðlilegt og sjálfsagt hvað snertir þesssar tryggingar, en ekki ef um er að ræða matvælabirgðasjóði.

Það, sem því hér um ræðir og um er deilt, er þess vegna, hvort sýna eigi það frjálslyndi að heimila sýslu- og bæjarfélögum að velja um, hvort sjóðirnir skuli vera einn eða tveir, eða einskorða sig við það, sem mér skilst, að meiri hluti n. geri, að komið verði upp fóðurtryggingarsjóðum. Um brtt. mínar að öðru leyti er ekki ástæða til að fjölyrða, þar sem þær skýra sig sjálfar; aðeins skal ég að lokum geta þess, að ég er samþykkur brtt. á þskj. 176, sem hv. þm. Borgf. flytur, og mun ég greiða þeim atkv.