18.03.1936
Neðri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Pétur Ottesen:

Það er alveg rétt hjá hv. frsm., hv. 2. þm. N.-M., er hann sagði, að samkomulag hefði verið inan n. um brtt. á þskj. l51, enda er það svo um brtt. okkar hv. þm. Mýr. á þskj. 173 og þær brtt., sem ég ber fram á þskj. 176, að þær brjóta að engu leyti í bága við samkomulag n. og hinar sameiginlegu brtt. á þskj. 151.

Fyrsti liður í brtt. okkar hv. þm. Mýr., við 4. gr. frv., það er að segja eins og hún er orðuð í brtt. n., er stíluð við þá brtt., eins og við gerðum ágreining um í landbn., sem sé um það, hvernig ætti að fá meiri hluta í hreppunum fyrir því, að slík sýslusamþykkt sé gerð. Frv. er byggt þannig upp, að fyrst er gerð samþykkt af sýslunefnd, sem síðan er borin undir hreppana, og eftir till. meiri hl. landbn. telst samþykktin gerð, ef meiri hluti hreppanna samþykkir. Við hv. þm. Mýr. leggjum til, að meiri hl. sé fenginn á þann hátt, eða talinn fenginn, ef samþykktin nær meiri hl. þátttakenda í atkvgr. Getur í ýmsum tilfellum oltið á, hvernig gengið er frá þessu atriði. Við hv. þm. Mýr. byggjum þessa till. á venjum, hvernig slíkar samþykktir eru gerðar, sem sé að meiri hl. atkv. skuli vera með. Sú regla, sem hv. meiri hl. landbn. vill taka upp, brýtur í bága við ófrávíkjanlega reglu um héraðasamþykktir, en við viljum fylgja almennri reglu og löggjöf um þessar samþykktir. — Það er ekki fleira í þessari gr., sem ber á milli meiri og minni hl. n. Þá höfum við tekið greinina alla upp til þess að gera hægara fyrir um atkvgr., og aðeins breytt orðalagi, þar sem við nýja athugun virtist geta betur farið en í brtt. n., til dæmis er dregið saman í eitt ákvæði um kaupstaðina; þó það mundi ekki valda misskilningi, þá teljum við að betur muni fara á því. Fleiri smáorðabreytingar höfum við gert, sem ég ætla, að séu til bóta.

Þá var í endi 3. gr. frv., sem verður 4. gr. samkv. brtt. n., kveðið svo á, að samþykkt gilti fyrir alla sýslubúa, en í 4. gr., sem verður 5. gr., er þó undantekning. Við hv. þm. Mýr. lítum svo á við nánari athugun, að heppilegra væri að setja ákvæði, er lytu að þessu, í framhaldi af 4. gr. frv., og álítum við heppilegra, að oddviti kveði á um það, fyrir hvaða hreppa skuli gilda, og tekur það þá af allan vafa í þessu efni.

Ætla ég, að um þetta geti ekki orðið neinn ágreiningur milli okkar og hv. meiri hl., en þeir geti fallizt á, að heppilegra sé að breyta þessu þannig.

3. brtt. okkar er við 12. grein; teljum við nægja að taka þar fram um, að ráðh. skuli semja fyrirmynd að samþykktum, þar sem áður hefir verið tekið fram í 2. gr. frv. um hlutverk sýslunefndanna í þessu efni.

Ég sé nú, að á eftir orðinu sýslunefndir ætti að koma: „og bæjarstjórnir“ —, hefir bæði meiri og minni hl. landbn. sézt yfir þetta, og vonast ég til, að þetta geti talizt lagfæring, án þess að brtt. sé flutt.

4. brtt. er ekki flutt af því, að ágreiningur sé um það efni, heldur af því að við töldum eftir nánari athugun heppilegra að hafa hér nýja gr. sérstaka, þar sem ekkert tengir efnið saman, og það er mjög óskylt atriði brtt. og 12. gr. frv. Þessi brtt. okkar er líka stíluð við brtt. meiri hl. n., en ég þykist vita, að hv. meiri hl. geti fallizt á hana, þar sem hún brýtur að engu leyti í bága við skoðun n., nema að því leyti, sem hv. frsm. meiri hl. hefir lýst um ágreining við atkvgr. í n. Sá ágreiningur varð mestur um brtt. hv. 7. landsk., sem ganga út á að skipta frv. í 2 kafla, þannig að í öðrum kaflanum séu ákvæði um fóðurtryggingarsjóði, en í hinum um matforðasjóði. Ég lét í ljós þá skoðun mína innan n., að ég gæti aðhyllzt till. hv. 7. landsk., og það af þeirri ástæðu, sem hann hefir dregið fram og ég fellst á, að rétt sé að gera ráðstafanir til að afstýra þeirri hættu, sem steðjar eða getur steðjað að Norður- og Austurlandinu, þar sem reynslan hefir sýnt, að hafísinn getur algerlega lokað siglingum. — Ég get fallizt á þessa hugmynd, og tel þá hreinlegast gengið til verks, ef hvert um sig hefði sín ákvæði að styðjast við, og að opin leið væri fyrir sýslu- og bæjarfélög í þessum hluta landsins að stofna hvern sjóðinn, sem frekar þætti þörf, eða þá hvorntveggja.

Hinsvegar virðist eðlilegt og rétt, að mismunandi grundvallarreglur séu fyrir sjóðum þessum, og sett séu ákvæði um skiptingu þess fjár, er ríkissjóður leggur fram, virðist búféð vera eðlileg eining til að skipta framlaginu eftir hvað snertir fóðurtryggingarsjóðina, og er sá grundvöllur lagður í frv., en þetta hlutfali raskast algerlega, þegar kaupstaðirnir eru komnir inn í, þar sem búféð er í öfugu hlutfalli við fólkstölu, vegna þess að íbúar kaupstaðanna byggja afkomu sína á allt öðru en búpeningseign. Það leiðir því af sjálfu sér, að hér þarf önnur skipting að koma til greina.

Ég hefi því lagt til, að brtt. hv. í landsk. á þskj. 112 sé breytt þannig, að upphæðinni sé skipt í 2 staði, 60 þús. kr. til fóðurtryggingarsjóða og 15 þús. kr. til matforðasjóða, og að bæjar- og sýslufélögin leggi helming á móti í matvælasjóðina, en hinsvegar er sett hámark, hversu mikið má ganga til hvers sýslu- eða bæjarfélags, sem yrði þá 1000 kr. á ári, sem virðist ekki vera óeðlilegt, því eins og hv. 2. þm. N.-M. sagði, þá geta það orðið allt að 15 sýslu- og bæjarfélög, sem geta komið undir II. kafla eftir till. hv. 7. landsk. Auk þess hefi ég gert brtt. við 1. lið í brtt. 7. landsk.; er það orðalagsbreyting, er mér þótti betur fara á.

Er svo ekki fleira um þetta að segja, en við hv. þm. Mýr. viljum leggja þann ágreining, sem orðið hefir í n., fyrir hv. d., en við viljum byggja þetta frv. upp á viðurkenndum reglum, sem allar sýslusamþykktir eru byggðar á, og get ég ekki séð, að með því sé neinn raskað um tilgang frv.