18.03.1936
Neðri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Jón Pálmason:

Það hefir komið greinilega í ljós, að nokkur ágreiningur er í landbn. um einstök atriði þessa máls. Og vegna þess, hvernig á stendur, finn ég ástæðu til að víkja örlítið að þeim ágreiningi. Skal ég fyrst fara fáeinum orðum um ágreining þann, sem í n. kom fram út af till. hv. 7. landsk. á þskj. 112.

Ég lít svo á, að svo mikil þörf sé fyrir hendi á að tryggja búfé manna gegn fóðurskorti, og einnig að tryggja, að menn lendi ekki í matvælaskorti, ef ís lokar höfnum, að það sé réttmætt í alla staði að setja inn í frv. heimild til þess að stofna einnig matforðasjóði með tilstuðlan ríkisins. Þess vegna er ég samþykkur þeirri hugmynd, sem kemur fram í brtt. á þskj. 112. Hinsvegar fór það svo, að meiri hl. n. gat ekki aðhyllizt þessar brtt. Að því er snertir aðra þeirra, var ég henni ekki sammála í þeirri mynd, sem hún kemur fram. Nú hafa komið fram brtt.þskj. 176) við brtt. hv. 7. landsk. á þskj. 112 og þær bæta mjög úr hvað þetta snertir. Þó að ég hefði kosið að hafa þetta á þann veg, að héraðsstjórnir gætu valið um það, hvort þær hefðu matforðasjóði og fóðurtryggingarsjóði, þá get ég gengið inn á það fyrirkomulag, sem lagt er til í brtt. á þskj. 176. En vitanlega skera atkvæði úr um það, hvort nokkru af því fé, sem lagt er fram af ríkisins hálfu, megi verja til að styrkja matforðasjóði á þeim svæðum, þar sem ís getur lokað samgöngum á sjó.

Landbn. stóð öll fyllilega saman um þær brtt., sem hún í heild sinni flytur á þskj. 151. Verð ég að segja það, að mér þykir allóviðfelldið, þegar tveir hv. nm., og annar þeirra formaður n., koma svo með brtt. við brtt. á þskj. 151, eða m. ö. o. koma með brtt. við það, sem þeir eru búnir sjálfir að ganga inn á á nefndarfundi, og það án þess að bera það nokkuð undir hina nm.

Það eina, sem hér er um að ræða sem ágreiningsefni, er það, hvort það eigi að vera hreppatalan eða tala atkv. í hreppunum öllum samanlagt, án tillits til hreppaskiptingar, sem ráða eiga gildi þeirra samþykkta, sem sýslun. hafa gert. Í því efni fylgi ég hiklaust, eins og meiri hl. n., því, að hreppatalan skuli ráða, nefnilega atkv. hreppanna sem heilda, en ekki atkvæðatala samanlögð innan alls sýslufélagsins án tillits til hreppatakmarka. Byggi ég það á því, að það er í áframhaldi af þeirri byrjun, sem hér er gert ráð fyrir, að samþykkt skuli fyrst vera gerð á sýslufundi. Á sýslufundi eru, eins og menn vita, fulltrúar úr hverjum hreppi sýslunnar án tillits til fólksfjölda hvers hrepps. Meiri hl. þeirra fulltrúa á að ráða um það, hvort þessi samþykkt er sett eða ekki. Ég tel, að það eigi að vera gegnumgangandi áfram, að meiri hl. þeirra hreppa, sem samþykktin tekur til, eigi að ráða úrslitum hér um án tillits til þess, hve margir menn mæta á fundum í hinum einstöku hreppum til þess að greiða atkv. að þetta raski nokkuð þeim grundvallarreglum sem viðurkenndum um slíkar samþykktir, eins og hv. síðasti ræðumaður vildi vera láta, get ég ekki viðurkennt. Það er enda svo um sýsluvegasamþykktir, að ef þær á annað borð eru bornar undir atkv. í héruðum, þá ræður hreppatalan úrslitaniðurstöðu, en ekki atkvæðatala í hreppunum samanlögð, án tillits til hreppatakmarka. Ef þeirri reglu væri fylgt, sem hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr. vilja láta fylgja í þessu efni, þá getur svo farið, að tveir hreppar í héraði, þar sem eru 7–9 hreppar, geti ráðið úrslitum um samþykkt, og það aðeins fyrir það, að fundir eru betur sóttir í fólksfleiri hreppunum heldur en í hinum. Þar væri þá gengið inn á braut, sem ekki hefir enn verið ymprað á, að tala sýslunefndarmanna eigi að fara eftir því, hve hreppar séu fjölmennir. Samkvæmt kenningum hv. flm. brtt. á þskj. 173 ætti þó svo að vera, ef grundvöllur þeirra kenninga ætti að gilda um sýslunefndarkosningar.

Hér er um tvö meginágreiningsatriði að ræða á milli hinna einstöku nm.: Það, hvort leyft skuli, að nokkru af þessu fé, sem hið opinbera leggur fram, megi verja til matforðasjóða, og hitt hvort skuli ráða úrslitum við atkvgr. um samþykkt um fóðurtryggingarsjóð í sýslufélagi hreppar eða atkvæðatala alls yfir í hreppunum án tillits til stærðar og takmarka hreppa. Þessi atriði eru svo ljós, að ég geri ráð fyrir, að umr. ættu ekki að þurfa að lengjast mikið úr þessu.