18.03.1936
Neðri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég endurtek það, sem ég sagði hér í hv. d. nú fyrir nokkrum dögum; að því, sem beint er til mín persónulega við umr., svara ég aldrei. Hv. þm. Borgf. má gera það fyrir mér, eins oft og hann vill, að leiða umr. frá málefnum og yfir á persónur, því að ég tek aldrei þátt í því. Það sæmir ekki að ræða mál þannig, og það gera engir nema þeir sem ekki treysta sínum málefnaflutningi, eða þeir sem enga manna- og fundasiði kunna.

Það sem ég vítti hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr. fyrir, var ekki það, að þeir lagfærðu misfellur á framsetningu þessa máls, heldur hitt, að þegar einhver nm. í einhverri n. — sama hvaða n. það er — vill koma með brtt. við frv., þá á hann eða þeir nm., sem það vilja, að koma með þær brtt. við frv. í n. En hitt er í hæsta lagi óviðkunnanlegt og vítavert, þegar n. hefir orðið ásátt um álit og brtt., að einn eða fleiri nm. fari þá undir umr. að koma með sínar eigin brtt., sem þeir hafa ekki komið fram með í n. Þar með gera þá þessir menn sig seka um alveg óhafandi vinnubrögð hér á hæstv. Alþingi. Þegar n. var orðin ásátt um 4. og 12. gr. brtt. á þskj. 151, og þessir tveir hv. þm. þóttust sjá ástæðu eftir nokkra daga til að breyta orðalagi og öðru í brtt., þá áttu þeir að tala um það við hina nm., eða m. ö. o. í n. En í stað þess að reyna á þann hátt að ná samkomulagi um frekari brtt., sem getur verið að hefði náðst, þá koma þessir tveir hv. þm. með brtt. við sínar eigin brtt. Það voru þessi vinnubrögð, sem ég vítti. Þau eiga ekki að eiga sér stað á hæstv. Alþingi. Þau tefja fyrir gangi mála og gera ekkert annað.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Borgf. sagði um mína brtt. á þskj. 169, er rétt að athuga það — af því að þar talaði hv. þm. um málefnið — sem hann sagði, að væri afarskringilegt í brtt., að kveða svo á, að sýslunefnd megi ákveða í samþykkt, að ákveðinn hluti af fóðurforðanum skuli geymast í fóðurbætistegundum, sem nota megi til manneldis. Hv. þm. sagði, að þarna eigi að rugla saman öllum mögulegum fóðurefnistegundum og geyma í einum graut. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. fer að skilja brtt. svo. Ég hygg að enginn maður geti fengið þetta út úr brtt. annar en hann, og að allir, nema hann, skilji brtt.

Hv. 7. landsk. var að tala um matforðasjóðina, og talaði um, að hann væri hræddur um, að eftir mínum till. yrðu ákvæðin um þá samkrull. En ég geri ráð fyrir, að hvað sem minni brtt. líður, þá reynist það nauðsynlegt að hafa nokkurn hluta af þeim fóðurforða, sem ákveðinn er að haustinu til vara, í þeim fóðurtegundum, sem nota megi til manneldis ef ekki þarf á honum öllum að halda til skepnufóðurs. Þess vegna verður um sama samkrull að ræða í því efni, hvort sem ákvæði um það verður samþ. eða ekki.

Þannig verður þetta í framkvæmdinni, hvernig svo sem lögin verða orðuð. Ég er viss um, að það verða fáar eða engar stjórnir fyrir sýslufélög sem láta sér detta í hug að hafa þær fóðurbætistegundir, sem eingöngu eru ætlaðar til skepnufóðurs. Það verður að reikna með því að vetur eru ekki alltaf svo harðir, að líkindi séu til, að þær tegundir gangi upp, og þess vegna ekki skynsamlegt að liggja uppi með þær tegundur einar sem til skepnufóðurs eru ætlaðar. Þótt hv. þm. Borgf. skilji þetta ekki, þann mun, sem er á því, þá skilja það væntanlega flestir eða allir aðrir.

Sama er að segja um vaxtatap. Ég get náttúrlega ekki hugsað mér í neinni sýslu menn, sem vilja hafa í stjórnir fóðursjóðanna einhverja sem láta sér detta í hug að greiða allt vaxtatap verzlana af sjóðunum, og ég skil ekki, jafnvel þótt hv. þm. Borgf. yrði kosinn í slíka stjórn, að hann léti sér detta í hug að gera það. Þess vegna held ég að það sé alveg óhætt að samþ. till. með því orðalagi sem á henni er. Það kunna ef til vill að vera einhverjir á öllu landinu, sem misskildu hana, en þeir eru sjálfsagt mjög fáir.

Annað hefi ég svo ekki ástæðu til að segja. — En það, sem ég sem sagt legg áherzlu á, er, að þegar n. hefir komið sér saman um till., þá séu ekki sumir nm. að koma með aðrar till. sem aldrei hafa verið bornar undir n., og bera fram brtt. við sínar eigin till. — Það tel ég ekki viðeigandi.