18.03.1936
Neðri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Bjarni Ásgeirsson:

Ég verð að segja, að ég skil ekki almennilega þann hvalablástur, sem orðið hefir hjá tveimur úr landbn., þeim hv. 2. þm. N.-M. og hv. þm. A-Húnv., út af því, að við tveir meðnm. skyldum leyfa okkur að bera fram brtt. í þessu máli, þar sem það er yfirlýst, að einmitt um þetta atriði kom fram í n. brtt., sem n. var ekki sammála um. Það fór þá fram atkvgr. um þetta í n., og eftir það lýstum við hv. þm. Borgf. því yfir, að við mundum bera fram brtt. (PZ: Það er enginn að tala um þá brtt.). Það er sú eina efnisbreyt., sem við berum fram í málinu. Hitt er annað mál, að vegna þess að hér er um töluverðan efnismun að ræða í frv., þá grípur sú breyt. einnig inn í aðrar gr., sem um þetta fjalla, þannig að ekki varð framhjá því komizt að breyta þeim líka til samræmis við þessa efnisbreyt., sem er í till. okkar.

Hinu skal ekki neita, að í sambandi við þessar breyt. okkar koma fram ýmsar smávægilegar formsbreyt. sem ekki að nokkru leyti raska efni frv.; sé ég ekki annað en geti legið á milli hluta, hvor þær verða samþ. eða ekki. Ég sé enga ástæðu til að gera veður út af þeim formsbreyt., og geri það heldur ekki. Ég álít það ekki sæmandi fyrir landbúnaðarnefndarmenn að rífast um þær hér í hv. d., en hitt er annað mál, að efnisbrtt. okkar er borin fram með vitund landbn. á sama hátt og brtt. hv. 2. þm. N.-M. Þær voru báðar lagðar fyrir n., báðar ræddar í n., og eru báðar komnar fram, og þarf hvorugur annan að ásaka.

Það, sem hv. þm. hafa aðallega borið fram sem andmæli gegn því, að það fyrirkomulag yrði haft um atkvgr. í hreppunum, að láta atkvæðamagn í sýslunum ráða í staðinn fyrir atkvæðamagn í hverjum hreppi út af fyrir sig, er aðallega það, að hér sé verið að brjóta í bága við venju, sem almennt gildi um kosningar til sýslunefnda og meðferð mála í sýslunefndum. Mér finnst þetta mikill misskilningur. Það er gert ráð fyrir tvennskonar samþykktum í þessum lögum er gegnum sýslunefnd og þar er vitanlega farið eftir lögum og venjum, sem gilda um sýslunefndir, og atkv. hvers nm. gildir þar jafnt út af fyrir sig hvort sem sá maður er frá stórum eða litlum hreppi. En samþykkt verður einnig að öðlast annarskonar meirihl. samþykki, og það er í hreppunum, og sú samþykkt er miklu hliðstæðari almennri atkvgr. Þar eru það einstaklingar innan sýslufélaganna, sem greiða atkv., og mér finnst miklu eðlilegra, að hreinn meiri hl. atkvæðisbærra manna ráði heldur en meiri hl. hreppa, sem geta verið mjög fámennir. Ég sé ekki, að það raski nokkuð eða brjóti í bága við þær reglur, sem gilda um sýslusamþykktir; þeim er fylgt á þeim vettvangi, sem gildir venjulega í sýslunefndum, þegar málið er til meðferðar í sýslunefnd, en um hitt atriðið má fylgja venju um almenna atkvgr. Þetta er aðalágreiningsatriðið á milli nm., og það þarf engum að koma á óvart, þótt það komi fram. (PZ: Það hefir engum komið á óvart). Hvað eiga þá þessar ávítur að þýða? (PZ: Eru brtt. ekki fleiri?). Jú, en eingöngu þær, sem leiðir af þessari, og svo smávægilegar formsbreyt., sem engu skipta. Hitt meginatriðið, sem n. klofnaði um, er þær brtt., sem bornar eru fram um að gera megi fóðurtryggingarsjóði að nokkru leyti tryggingarsjóði fyrir mannfólk. Mér dettur ekki í hug að neita því, að þetta er út af fyrir sig merkileg hugmynd, sem á það skilið, að henni sé gaumur gefinn, en ég hefi bara enga trú á því, ef á að blanda þessum tveimur atriðum saman, að það komi að notum; ég held, að það verði bara til þess, að báðar hugmyndirnar verði eyðilagðar og þetta verði kák. En hinsvegar er full ástæða til að taka til athugunar og taka upp sérstaklega á nýjum grundvelli einmitt að tryggja forða handa fólki í harðæri. Sú upphæð sem ætluð er til þessara ráðstafana, er ekki svo stór, að hún sé til tvískiptanna, og ég vil halda henni óskiptri til þess, sem hún upphaflega er ætluð, en hinsvegar er ég því mjög hlynntur, að gerðar verði einhverjar ráðstafanir um hitt atriðið, sem sumir hv. þm. vilja blanda saman við þetta. Ég skal svo ekki hafa þessa umr. lengri, en skal taka það fram, að ég tek ekki á móti ásökunum fyrir að hafa komið fram með þessar brtt., og af þeim ástæðum, sem ég hefi lýst tel ég það ekki ásökunarefni.