27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon):

Ég hefi nú skrifað um þetta mál allýtarlegt nál. á þskj. 408, og ég get að mestu leyti látið nægja að vísa til þess, sem þar er sagt. Í einstökum atriðum vildi ég þó gera nokkru frekari grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, sérstaklega að því leyti, sem ræða hv. frsm. meiri hl. gaf tilefni til.

Það, sem landbn. í heild sinni virðist öll sammála um, er það, að það beri að styðja að því á allan mögulegan hátt, að búfjáreigendur sjálfir geri það, sem í þeirra valdi stendur, til þess að tryggja sér nægar fóðurbirgðir. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þetta væri vitanlega sú rétta og eðlilegasta lausn á þessu vandamáli landbúnaðarins. En hann sagði, að reynslan hefði sýnt, að ekki væri nægilegt að treysta á einstaklingana í þessu sambandi. Og hann gat um þann fóðurskort, sem yfir hefir vofað á norðausturlandi sem sönnun þess, að ekki tjái að varpa allri áhyggju upp á einstaklingana í þessu efni. Ég fyrir mitt leyti vil ekki miða löggjöf í þessu efni við undantekningartilfelli, eins og hafa verið á norðausturlandi tvö síðustu árin. Þar hafa komið tvö sumur hvert á eftir öðru óvenjulega óþurrkasöm, og heyafli þar hefir orðið með lakasta móti þau sumur, sérstaklega 1934. Og ofan á þessa erfiðleika undanfarinna sumra bætist svo einhver hagminnsti vetur, sem menn muna. Það er á engan hátt óeðlilegt, þó að í svona árferði komi það fyrir æðimarga menn að lenda í fóðurskorti. En löggjöfin, sem hér er um að ræða, miðast við fleira en þetta undantekningarástand, sem þarna er um að ræða. Hún miðast við venjulegt árferði. Ríkissjóði er ætlað að leggja fram allmiklar fjárfúlgur til þess að tryggja það, að fóðurskortur verði ekki hjá bændum og búfjáreigendum, án tillits til árferðis. Og spurningin, sem mér virðist aðallega þurfa að leysa úr, þegar um þetta er að ræða, er sú, hvort sú aðferð, sem hér er ætlazt til að höfð verði til þess að fyrirbyggja fóðurskort, sé líklegri til þess að koma í veg fyrir, að einstakir búfjáreigendur verði uppiskroppa með fóður, heldur en þær leiðir, sem farnar hafa verið fram að þessu, — hvort þessi löggjöf er líkleg til að hvetja bændur til þess að tryggja sér fóður eftir föngum, eða hvort hún hinsvegar er e. t. v. líkleg til að draga úr ábyrgðartilfinningu bænda, sem allur þorri þeirra, sem betur fer, hefir sýnt í því efni undanfarin ár, að setja ekki á meiri fénað en þeir hafa álitið sig hafa fóður fyrir a. m. k. í öllu venjulegu árferði.

Það má sjálfsagt deila um það, hver þörf yfirleitt sé á svona löggjöf, eins og nú til hagar. Það er kunnugt, að fóðurbirgðafélög, sem búfjárræktarl. gera ráð fyrir fjárgreiðslu til úr ríkissjóði, hafa mjög fá verið stofnuð. Ég get því miður ekki upplýst, hve mörg þau eru. En þau eru mjög fá. Af hverju stafar þetta að þau eru ekki stofnuð þrátt fyrir það, þótt fé sé boðið fram þeim til styrktar úr ríkisjóði? Ég ætla, að ástæðan sé sú að í allflestum sveitum sé málum þannig komið í þessu tilliti, að mönnum þyki nokkurn veginn öruggt, að almennt heyleysi verði ekki, jafnvel þó að harðir vetur komi. Ef menn óttuðust almennan fóðurskort, ef ásetning hefði verið svo að undanförnu, að menn gætu búizt við fóðurskorti, ef eitthvað bæri út af, þá er varla efi á því að víðar hefði verið hafizt handa um stofnun slíks félagsskapar, þó ekki væri til annars en þess að njóta fríðindanna, sem boðið er upp á með ríkissjóðsframlaginu til fóðurbirgðafélaga. Ég ætla og, að sannleikurinn sé sá að fram að þessum vetri hafi yfirleitt fóðurskortur ekki gert vart við sig síðan harðindaveturinn 1920. Það er vitanlega, að á hverjum vetri eru einhverjir, sem verða heylausir. En það nær engri átt að ætla sér að miða löggjöfina við þá menn sem sýna það gáleysi að setja svo á að þeir í beztu vetrum komast í þrot með fóður. Það er öll landbn. sammála um, að þennan hugsunarhátt beri að uppræta með öllu móti og stuðla að því, að menn sýni enn almennar en nú ábyrgðartilfinningu í ásetningu búfjár á fóður. Ég ætla því, að eins og högum er háttað nú hér á landi, þá sé yfirleitt ekki mikil hætta á almennum fóðurskorti, nema um óvenjuleg harðæri sé að ræða.

Nú vil ég alls ekki mótmæla því, að þegar slíka erfiðleika ber að höndum sem í vetur á Norður- og Austurlandi, þá sé fullkomlega réttmætt, að ríkissjóður hlaupi undir baggann með þeim héruðum, sem erfiðast eiga. En til þess eru vitanlega nægar leiðir án þess að stofnað sé til slíkrar almennrar löggjafar sem þessarar. Ég ætla, að yfirleitt sé ekki mjög mikil hætta á því, að svo fari að nægilegt fóður verði ekki til í landinu. Náttúrlega verður maður að játa það hvað Norðurland snertir, og kannske Vesturland, að alltaf getur borið þá hættu að höndum, að siglingar teppist. Og ef svo fer, þá er augljóst, að miklir erfiðleikar gætu orðið á því að koma fóðri til þeirra, sem á því þyrftu að halda að fá það ef ætti t. d. að flytja fóður héðan norður yfir heiðar. En þó að þessi löggjöf verði sett, þá hygg ég, að engin trygging yrði með því fengin fyrir því, að fóðurskort af þessum ástæðum gæti ekki að borið eftir sem áður. Það er engin trygging fyrir því, að svo stórum kornforðabúrum yrði komið upp í Norðurlandi, að nægði í hörðum vetrum.

Hv. frsm. meiri hl. landbn. sagði, að þeim fóðurskorti, sem nú hefir átt sér stað á Norður- og Austurlandi — sem hv. þm. hefir kannske gert fullmikið úr — mætti alltaf eiga von á, og kvað svo að orði, að úr því ástandi yrði ekki bætt með því að halda að sér höndum. En ríkisvaldið hefir nú alls ekki haldið að sér höndum hin síðari árin í þessu efni. Það hafa verið sett mörg l., sem ætlað hefir verið að koma í veg fyrir fóðurskort. Vil ég í því sambandi nefna aðeins tvenn lög. l. um forðagæzlu og búfjárræktarl. kafla þeirra um þetta efni. L. um heyforðabúr og kornforðabúr hafa orðið aðeins pappírsgagn. Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að með þessum tvennum 1., 1. um forðagæzlu og kafla búfjárræktarl. um fóðurbirgðafélög, sé nokkurn veginn vel séð fyrir þessum málum af hálfu hins opinbera. Fóðurgæzlul. eiga að tryggja að menn setji það varlega á, að þeir í venjulegu árferði séu nokkurn veginn tryggir með fóður handa sínum búpeningi. L. um fóðurbirgðafélög veita mönnum nokkurn rétt til fjárframlaga úr ríkissjóði, ef hlutaðeigandi hreppar vilja leggja fram fé á móti í þeim tilgangi að koma á sameiginlegum tryggingum gegn fóðurskortinum.

Sú spurning, sem fyrst og fremst vakir fyrir mér, eins og ég hefi sagt, er í þessu efni sú, hvort þessi leið, sem nú er lagt til, að farin verði í þessum efnum, sé yfirleitt ekki líklegri til þess að draga úr ábyrgðartilfinningu einstaklinganna í þessu efni heldur en að örva hana. Ég fyrir mitt leyti held, að þessi löggjöf verði til þess að draga úr ábyrgðartilfinningunni. Fóður birgðafélögin, samkvæmt núgildandi 1., eru bundin við hreppa, þ. e. a. s. hver hreppur á að vera fóðurbirgðafélag út af fyrir sig. Ef þeim félögum er ekki ætlað að ná yfir stærra svæði en hrepp, þá er auðveldara fyrir forráðamenn fóðurbirgðafélaganna að fylgjast með því, hvort ógætilega er sett á eða ekki. Í því liggur talsvert aðhald fyrir einstaklingana. Og svo bætist hitt við, sem er í mínum augum sízt minna vert, að ef hrepparnir eru fóðurbirgðafélög út af fyrir sig, þá lenda líka skakkaföllin, sem verða, vegna fóðurskorts, á miklu minni hóp manna heldur en ef heil sýslu- og bæjarfélög eiga að vera í fóðurbirgðafélögum. Reynslan hefir sýnt mönnum það í svo ákaflega mörgum efnum, að ábyrgðartilfinning manna minnkar eftir því, sem áhættan dreifist, þ. e. a. s. skakkaföllin lenda á stærri hóp manna. Þetta er svo alþekkt í svo mörgum efnum, að það þarf ekki annað en að minna t. d. á það hve mönnum er ósárt um ábyrgðarfélög. Má líka í þessu sambandi minna á, að mönnum er ekki ákaflega sárt um ríkissjóðinn og jafnvel bankana. Það má einnig benda á að menn hafa yfirleitt ekki þorað að gera landið allt að einu framfærsluumdæmi, sem þó frá ýmsum sjónarmiðum væri ákjósanlegast. Þetta stafar of sömu ástæðu, að menn hafa verið hræddir um, að þegar áhættunni í því tilfelli yrði dreift svo, þá yrði mönnum ósárara um það, þótt framfærslustyrkir færu úr hófi fram.

Ég er þess vegna ákaflega hræddur um það, að þeim mönnum mundi fjölga, sem létu skeika að sköpuðu um það, hvort þeir hefðu á hverju ári nægilegt fóður að haustinu handa sínum búpeningi yfir veturinn, ef þeir vissu, að skakkaföllin, sem orsökuðust af fóðurskorti hjá mönnum, lentu á heilu sýslufélagi, auk þess sem talsvert mikill hluti af því tjóni lenti á ríkissjóðnum sjálfum. Ég er ákaflega hræddur um þetta. Þetta er aðalástæðan fyrir því, að ég er á móti þessu frv. Ég tel miklu eðlilegra, að hrepparnir, hver út af fyrir sig, hafi alveg sjálfsforræði í þessu efni. Enda er það svo, að skakkaföllin, sem af fóðurskorti stafa, lenda oft og iðulega beint á hreppunum á tvennan hátt, sumpart þannig að nágrannarnir í sameiningu hlaupa undir baggann og taka af sínum eigin fóðurbirgðum til þess að bjarga búpeningi þeirra, sem fóðurlausir verða, og sumpart þannig, að ef fellir verður hjá mönnum, þá má búast við, að hrepparnir verði að taka á sig framfærslu þeirra manna eða skylduliðs þeirra, sem ekki geta haldið lífinu í búpeningi sínum vegna fóðurskorts. Af þessum tveimur ástæðum sé ég fyrir mitt leyti ekki, að aðrar takmarkanir séu í þessu efni heppilegri en þær, að láta hvert hreppsfélag hafa forráð þessara mála fyrir sig.

Þau hreppsfélög eru ekki fá hér á landi, sem hafa komið sér þannig fyrir, að þau þurfa ekki að óttast fóðurskort, hverju sem viðrar, að kalla má. Ég er sannfærður um, að þeir hreppar eru ekki fáir hér á landi, þar sem menn geta yfirleitt gefið inni frá veturnóttum til fardaga. Og það er alveg óþarft að neyða slíka hreppa til þess að leggja fram töluverðar fjárfúlgur vegna þess að innan sama sýslufélags eru kannske önnur hreppsfélög, sem ekki hafa sýnt þess, fyrirhyggju, heldur reynt að hafa þann hagnað, sem að vissu leyti má segja, að sé af því að setja svo á að allt slampist í meðalvetri eða lítið eitt lakari. Því að með því að setja þannig á er hægt að hafa fleiri skepnur, ef ekkert sérstakt hallæri ber að höndum.

Hér í þessu frv. er að vísu gert ráð fyrir, að fóðurskoðun fari fram á hverju ári og að forðagæzlumenn sendi stjórnum fóðurtryggingarsjóða skýrslur um athuganir sínar í því efni hver í sínu umdæmi. En úr því að kvartað hefir verið yfir því, að illa gengi að fá glöggar upplýsingar innan sveitar, þá má nærri geta, hvílíkt handahóf yrði á þessu í heilu sýslufélagi. Ég álít því, að bæði hvað eftirlit snertir og aðhald fyrir einstaklingana sé um beina afturför að ræða frá því, sem nú er.

Hvað ríkissjóðinn snertir þarf ég litlu við að bæta það, sem ég hefi þegar sagt og í nál. mínu stendur. Ég benti á það í nál., að ég teldi mjög óeðlilegt, að ríkissjóður legði fram í almennu árferði stórar fjárfúlgur til þess að komat í veg fyrir fóðurskort. Ég álít það ranglátt gagnvart öðrum gjaldendum og óheppilegt fyrir búþegnana sjálfa, að ríkissjóður sjái peningi þeirra fyrir fóðri í almennu árferði. Hinsvegar má í óvenjulegu árferði ávallt stofna til opinberrar hjálpar með sérstökum ráðstöfunum.

Ég þarf ekki að segja fleira, um málið að sinni, en vísa til skoðunar minnar í nál. um það, að málið eigi ekki fram að ganga.