27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Frsm. meiri hl. (Páll Hermannsson):

Hv. frsm. minni hl. sagði að hann vildi ekki, að í þessari löggjöf væri miðað við undantekningarárferði. Það má vera, að þetta sé rétt, en ég álít, að þetta frv. miði fyrst og fremst að því, að menn verði betur en ella, búnir undir óvenjulegt árferði, hvort sem er um hörkur eða grasbrest að ræðu. Það eru fyrningarnar, sem venjulega hafa orðið drýgstar til að fleyta mönnum yfir harðærin, og með því að leggja í tryggingarsjóðina safna menn einmitt forða eða fyrningum, því að nú orðið mæta menn verstu árunum aðallega með kjarnfóðri. En þessum sjóðum ætti á hverjum tíma að vera tiltölulega auðvelt að breyta í kjarnfóður.

Ég held, að það sé misskilningur hjá hv. 2. þm. Rang., að yfirleitt sé ásetningur svo góður, að ekki sé bætta á fóðurskorti. Ég held, að það sé ekki af þeim ástæðum, að menn hafa ekki notað sér heimild 4. kafla búfjárræktarlaganna, heldur miklu fremur af tómlæti og ófélagslyndi, og jafnframt vegna þeirra útgjalda, er slíkt hefði í för með sér.

Ég held, að hv. 2. þm. Rang. gleymi því, þegar hann er að tala um að menn muni setja á sjóðina, að ætlazt er til, að forðagæzla og fóðurskoðun haldist á sama hátt og áður, og þá væntanlega með sama árangri og nú.

Hv. þm. benti á það, að möguleiki og heimild til að stofna heyforðabúr væri fyrir hendi. En lögin um heyforðabúr hafa þó einhvern veginn reynzt svo þung í vöfunum, að ég held að heyforðabúr séu hreint og beint hvergi til.

Ég játa með minni hl., að töluverðir agnúar geta verið á rekstri svo stórs félagsskapar sem hér er ætlaður. En ég álít ástandið alveg óviðunandi eins og það er, og því vegi kostir frv. upp galla þess.

Ég geri ráð fyrir því, að tasvert verði notað sú heimild í lögunum, að stofnuð verði fóðurtrygingarfélög innan einstakra hreppa. Hreppar, sem hafa þörf á slíku eru margir, og myndu sumir þeirra vafalaust taka þann kostinn heldur en vera knúðir út í fóðurtryggingar heillar sýslu.

Hv. 2. þm. Rang. kvaðst telja það óeðlilegt og afturför frá því, sem nú væri, að ríkissjóður legði fram fé, til að tryggja búpeningi manna fóður í venjulegu árferði. Hitt væri eðlilegra og heppilegra, að hið opinbera hjálpi í hörðum árum með sérstökum ráðstöfunum. En ég tel heppilegra að leggja fyrir í góðu árunum og óheppilegt að láta allan kostnað í hörðu árunum lenda á þeim sjálfum.

Ég verð að segja það um harðærið á norðausturlandi í vetur, að á því hefir ríkissjóður tekið svo myndarlegum tökum, til þess að komizt yrði hjá felli, að eins dæmi mun vera hér á landi. Hv. 2. þm. Rang. vildi telja, að ég gerði of mikið úr fóðurskortinum fyrir austan og norðan í vetur. Ég held ekki. Ég held, að í Norður- Þingeyjar-, Norður-Múla- og hluta af Suður-Múlasýslu hafi hann verið meiri en menn muna eftir áður.

Hv. 4. landsk. sagði að frv. byði mönnum upp á óeðlilegan ásetning. En varúðarráðstafanir eru hinar sömu og áður, þar sem er forðagæzlan.

Ég mun ekki ræða hér um þá brtt. hv. 4. landsk., að færa framlag ríkissjóðs niður úr í 1/3. Ég get þó ekki fallizt á þá brtt. fyrir mitt leyti. Ég býst við því, að mönnum veitist fullerfitt að greiða það, sem frv. ætlast til. Þó getur þetta verið álitamál, en að öðru ósönnuðu mun ég halda mér við frv.