27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

e*Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon):

Hv. þm. sagði í niðurlagi ræðu sinnar, að hann vildi ekki vefengja, að heppilegra væri, að hver hreppur stofnaði fóðurbirgðafélag út af fyrir sig heldur en sýslu- og bæjarfélög. En ef hv. þm. álítur í raun og veru, að það sé heppilegra fyrirkomulag, þá verð ég að segja það, að mér er hans afstaða til þessa máls óskiljanleg. Ef hann ætlar að nota fóðurtryggingarsjóðina eins og grýlu á hreppsfélögin, til þess að þau hlaupi til að stofn, fóðurbirgðafélög innan hreppsins, þá verð ég að telja það ákaflega einkennilega aðferð. Hitt virðist eðlilegra, að hefja „agitation“ fyrir því í ræðu og riti, að í hreppunum væri ástæða til að koma upp slíkum félagsskap, heldur en að hræða þá með heildarlöggjöf að koma á fóðurbirgðafélögum innan hreppanna, til þess að koma í veg fyrir annað óheppilegra fyrirkomulag, sem lögin mæla fyrir um.

Mér finnst þess vegna ef hv. þm. er þeirrar skoðunar, að heppilegra sé að hafa félögin smærri, þá ætti hann að hugsa sig vel um nú á tólftu stundu, áður en hann styður að því, að þetta frv. verði að lögum.