27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Frsm. meiri hl. (Páll Hermannsson):

Mér fannst hv. þm. grípa í hálmstrá. Ég hefi sagt, og ég held því fram og stend við það, að það er langt frá því, að ásetningur í þessu landi sé eins og hann þarf að vera. Ég hefi líka sagt það, að ég sæi ekki önnur ráð en þau félagslegu til þess að bæta úr þessu ástandi. Þó að ég líti svo á að víða hagi svo til, að fóðurbirgðafélög og fóðurtryggingarsjóðir fyrir heilar sýslur séu þung í vögum þá álít ég, að þau geti orðið til bóta. Nú ræð ég því ekki einn í hvaða formi frv. verður samþ. Mér er það ljóst ef verður farið að hefja orustu um það, þá verður það til þess eins að gera frv. að engu. Þegar þarf að sameina vilja margra manna, þurfa ýmsir að sveigja til hliðar, og ég lít sem sé svo á eins og hv. 2. þm. Rang., að það sé heppilegast, að einstaklingurinn sjái fyrir sér sjálfur, og ég lít líka svo á, að jafnan muni félagsskapur verða heppilegri og léttari í vögum því minni sem hann er. En ég býst ekki við að eiga kost á að setja lög um, að hrepparnir stofni fóðurtryggingarsjóði, né heldur að ræða því, að hrepparnir noti þau. (PM: Skylda þá til þess).

En ef það reyndist meðal annars einn kosturinn á þessu frv., að það yrði til þess að hvetja hreppana til þess að stofna til fóðurtryggingarsjóða, þá bæti ég því við þau rök, sem ég hefi flutt fyrir þessu frv.

Hv. þm. var að tala um, að það væri álitamál, hvort hrepparnir gætu stofnað sín sérstöku fóðurbirgðafélög eftir að fóðurbirgðafélög sýslnanna væru tekin til starfa. Þetta er lögfræðilegt atriði, sem ég skal ekki leggja dóm á. En það má búast við, að það verði nokkur aðdragandi að því, að slíkir fóðurtryggingarsjóðir verði stofnaðir, og þá vinnst tími til hjá einstökum hreppum að gera upp við sig, hvort þeir vilja heldur hafa sitt félag út af fyrir sig eða vera í fóðurbirgðafélagi sýslunnar. Að því leyti hefir þetta ekki svo mikið að segja. Þessi löggjöf hlýtur að koma því róti á fóðurtryggingarmálin, að menn geri það ljóst fyrir sér, hverja leið menn vilja fara í þessu efni.