05.05.1936
Sameinað þing: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

1. mál, fjárlög 1937

*Gísli Sveinsson:

Hera forseti! Ég á brtt. á þskj. 519 undir XXIX, sem hv. fjvn. hefir tekið til meðferðar, en ekki séð sér fært að taka upp í sínar till. Þessi till. fjallar um styrk upp í kostnað við ferðir dýralækna í fjarlægar sveitir eftir ráðstöfun ráðherra. Ég hefi stungið upp á því, að 2300 kr. verði veittar, eða 500 kr. á hvern af föstum dýralæknum, en til vara 300 kr. á dýralækni, eða alls 1300 kr. Ég vænti þess, að þessari till. verði vel tekið af hv. þm. og að önnurhvor upphæðin verði samþ., því að þetta er í þágu alls landsins, en ekki einstakra staða. Þetta er ekki fram borið af mér í neinu hagsmunaskyni frekar fyrir mitt hérað eða neina menn, sem ég ber fyrir brjósti sérstaklega, og er það meira en sumir hv. þm. og væntanlega ýmsir hv. fjárveitinganefndarmenn geta sagt, því að það er kunnugt, að sumt af þeim till., sem n. hefir tekið til greina, bæði til ýmsra persóna og til ýmsa staða, eru mjög miðaðar við það, sem nefna mætti kjördæmahagsmuni. Skal ég ekki fara, lengra út í það, því að það er öllum ljóst.

Þá skal ég geta þess, að fyrir liggja frá 2. umr. till. um aukningu á vegatillagi í Skaftafellssýslu frá mér, sem ekki hafa verið endurprentaðar, og þar sem ég hefi gert grein fyrir þeim áður, mun ég ekki tala fyrir þeim við þessa umr., en ein till. er á leiðinni frá mér, sem ég hefi borið fram í samráði við hv. form. fjvn. og með samþykki — þegar þar að kemur — hans og annara nefndarmanna, enda vænti ég þess, að hv. þm. ljái henni yfirleitt fylgi sitt; þetta verður brtt. nr. 69 á þskj. 502. Er hér um að ræða styrk til Lofts Ólafssonar pósts: fyrir hv. fjvn. hafa legið full gögn um þetta mál, send of póstmálastjóra, en svo er mál með vexti, að þessi póstur er elzti póstur landsins; hann er 80 ára gamall og hefir verið póstur í 40 ár á því svæði landsins, sem fram til síðustu tíma hefir verið hættumesta svæði landsins, að undanskildu norðvesturlandi, og er hvort með sinu móti. Fyrir norðan er yfir fjöll og hálsa að sækja, en fyrir austan sandeyðimerkur, óralangar, og beljandi vatnsföll, sem í þá daga voru öll óbrúuð. Fyrir þetta starf hefir Loftur Ólafsson fórnað kröftum sínum og heilsu, og hefir póstmálastjóri lagt til, fyrst við hæstv. ráðh. og síðan við hv. n., að þessum manni yrði veittur ríflegur styrkur; og telur hann, að það komi ekki til mála að skipa þessum manni á bekk með póstum, sem hafa ekki starfað í þágu póstmálanna nema nokkur ár; telur póstmálastjóri, að styrkurinn geti ekki verið minni en 800–1200 kr., ef hann á að vera viðunanlegur. Ég hefi því lagt til, að í stað 300 kr. komi 800 kr., en 600 til vara.

Þá vil ég leyfa mér að geru athugasemd, sem ég vil biðja hv. form. fjvn. að hlýða á; það er viðvíkjandi eftirlaunastyrk ljósmæðra; í þeirri gr., sem um hann fjallar, stendur, að styrkurinn skuli því aðeins greiðast, að ljósmæðurnar geti sannað, að þær njóti eftirlauna að einum þriðja hjá hlutaðeigundi sýslufélagi. (BB: Þetta hefir verið tekið aftur). Þá þarf ekki um það að ræða.

Þá vil ég að lokum gera þá fyrirspurn til hv. fjvn., hvernig stendur á síðustu till. á þskj. 502, sem mælir svo fyrir, að stj. sé heimilt að verja úr prestlaunasjóði sem svarar prestlaunum í einu af hinum óveittu Prestaköllum, til þess að láta endurskoða sálmabók íslenzku þjóðkirkjunnar og undirbúa handrit að nýrri sálmabók, ekki aðeins frá trúarlegu, heldur einnig frá fegurðarinnar og listarinnar sjónarmiði, og má ætla, að eitthvað sé með þessu meint. Ég hefi spurt suma hv. fjvnm. að því. hvaðan þessi hugmynd sé komin, en þeir haf, ekki getað svarað því, en það væri fróðlegt fyrir mig og aðra, sem ekki eru mótfallnir slíkri till., ef hún er fram borin af réttum aðilja, að vita, hverjir eigi að undirbúa sálmabókina fyrir þjóðkirkjuna, því að við vitum það að þetta er ekki svo auðunnið verk, að það nægi að setja þetta inn í eina málsgr. á fjárlögum. (SE: Er hv. þm. á móti áhuga leiknabba fyrir andlegum málum?). Nei, en ég vil ekki, að till. um slík efni komi úr heiðskíru lofti, greinargerðarlausar. Mér þykir hugmyndin alls ekki ill, en mér er óskiljanlegt, hvers vegna þetta á að vera hnitmiðað við það, að þetta skuli vera gert fyrir laun úr einu af hinum óveittu prestaköllum. Þótt þessi till. verði samþ., þá vil ég samt vænta þess, að þetta mál komi í hendur þeim aðiljum, sem bæði geta og eiga að sjálfsögðu að fjalla um þessi mál.

Ef hæstv. forsrh. væri hér viðstaddur, þá ætlaði ég að beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort það sé tilfellið, að danski vísindamaðurinn og landkönnuðurinn Lauge Koch fái nokkurn styrk úr ríkissjóði til rannsókna sinna hér á landi, beint úr ríkissjóði eða af fé því, sem skipulagsnefnd atvinnumála hefir haft til umráða.