02.05.1936
Efri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Frsm. meiri hl. (Páll Hermannsson):

Þessi brtt. á þskj. 476 gerir ráð fyrir því, að samþykktir fyrir sýslurnar um stofnun fóðurtryggingarsjóða þurfi ekki að taka til annara hreppa en þeirra, þar sem meiri hl. samþykkir að taka þátt í samþykktunum. Þá er einnig gert ráð fyrir, að þeir hreppar sem með meiri hl. atkv. ákveða að taka þátt í félagsstofnun, megi vera undanþegnir samþykktunum. Mér þykir því líklegt að þeir hreppar, sem snúast á móti noti þá heimild, ef að l. verður. Er því sjáanlegt að svo getur farið allvíða, ef brtt. verður samþ., að samþykktir um fóðurtryggingarsjóðina gildi ekki fyrir sýslurnar sem heild, heldur nokkra hreppa. Ég verð því að segja, að ég tel það lakara, fyrst frv. var hugsað fyrir sýsluheildina. En þó brtt. verði samþ., tel ég bót að frv., og vil þess vegna ekki stuðla að því að brtt. falli, ef það skyldi verða frv. að falli.

En það gerðist annað, sem mér þótti lakara við 2. umr., þegar 9. gr. var felld. Sýndist mér hún geyma ákvæði, sem ekki mætti falla niður, um að leita upplýsinga um fóðurbirgðaástand, og sé það slæmt að búa sig undir að geta orðið að liði.

Ég hygg, að ekki hafi verið rétt að fella gr. niður, því menn finna, að eitthvað vantar í frv.

Í 8. gr. frv. er talað um, hvernig eigi að afla peninganna, en í næstu gr., sem nú er, segir, að þegar fóðurskortur verður, eigi sjóðsstjórnin að úthluta fóðurbæti til þeirra hreppa, sem verst eru staddir, en það er hvergi sagt, að fóðurbætir þurfi að vera fyrir hendi. Hér finna menn, að eitthvað vantar. Það er að vísu ágætt að eiga peninga í sjóði, en þurfi á fóðurbæti að halda getur verið of seint að grípa til þeirra. Ég álít, að þurft hefði að búa til nýja gr. í frv. í stað þeirrar, sem var felld burtu, sem feli í sér ákvæði, sem þurfa að komast inn í frv. Ég vil þó ekki beinlínis biðja um frest, en ég ætla, að samn. mínir séu mér sammála um, að eitthvað vanti í frv. í stað gr., sem felld var burtu úr því á sínum tíma. Ég vil því skjóta því til hv. meiri hl. n. hvort honum finnst ekki rétt, að við tökum saman höndum og búum eitthvað til í staðin fyrir 91. gr., sem áður var.