02.05.1936
Efri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Jón Baldvinsson:

Það er leiðinlegt, ef þeir menn fara að deila, sem í rauninni eru sammála í aðalatriðunum. Við hv. 1. þm. N.-M. viljum báðir af fullri einlægni styðja þetta mál. Ég ætla aðeins að benda honum á það, sem hann lagði mjög ríka áherzlu á við 2. umr. málsins, en það var sú gr., sem nú er 10 gr., að stj. fóðurtryggingarsjóða hefur heimild til að semja við verzlanir um, að þær birgðu sig upp af fóðurbæti. Hann lagði talsvert upp úr þessu ákvæði og taldi líklegt, að margir mundu nota að. Hv. þm. sagði, að það væri ekki hægt að reiða sig eingöngu á peningana, heldur yrðu verzlanirnar líku að hafa vörurnar fyrirliggjandi, og því væri heppilegt, að fóðurbirgðafélögin hefðu heimild til að semja um það við verzlanirnar þegar á haustnóttum, að þær hefðu fóðurvörur fyrirliggjandi. Ég sé því ekki annað en að út frá núverandi 10. gr. megi draga þá ályktun, að stj. fóðurbirgðafélaganna geti tryggt sig, ekki eingöngu með því að láta verzlanirnar birgja sig upp, heldur geti félögin sjálf birgt sig upp, ef ástæða er til.

Ég segi aðeins fyrir sjálfan mig, að ég óska ekki eftir, að málið verði tekið af dagskrá. Hæstv. forseti ræður því að sjálfsögðu, hvað hann gerir í því efni, en mér hefir líka skilizt á hv. 1. þm. N.-M., að þó að hann óski eftir einhverri breyt. á frv., til þess að fylla þetta skarð, frá væri hann ekki sjálfur viss um, að rétt væri að tefja málið með því að taka það nú af dagskrá.