06.03.1936
Neðri deild: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Thor Thors):

Þetta frv. um sveitarstjórnarkosningar, sem nú er flutt af allshn., lá fyrir síðasta þingi sem stjfrv., en varð eigi útrætt þá. Það hafði gengið gegnum 2. umr. í Nd., og er flutt nú í þeirri mynd, sem það var í að þeirri umr. lokinni.

Eins og hv. þm. er kunnugt, á þetta mál rót sína að rekja til þáltill., sem samþ. var á haustþinginu 1933, þar sem skorað var á ríkisstj. að endurskoða l. um sveitarstjórnarkosningar og leggja frv. um það efni fyrir næsta þing. Þetta frv. kom þó eigi fram fyrr en á þinginu 1935, og þær breyt. á gildandi l., sem þar var farið fram á, voru aðallega þær, að allar hreppsnefndarkosningar skyldu fara fram á fjögra ára fresti, í stað sex ára áður. Er það í samræmi við gildandi ákvæði um bæjarstjórnarkosningar. Ennfremur var eitt af aðalákvæðum frv. það, að allar hreppsnefndir skyldu kosnar hlutbundnum kosningum, en eins og kunnugt er, er það eigi svo í gildandi l.

Enda þótt allshn. beri frv. sameiginlega fram að þessu sinni, er ágreiningur innan n. um ýms ákvæði þess, sérstaklega um það, hvenær og hvernig skuli kosið í hreppsnefndir. Á síðasta þingi voru fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. sammála um, að ekki væri rétt að lögbjóða hlutfallskosningu hreppsnefnda í sveitum og báru fram brtt. þess efnis til 3. umr., en málið komst aldrei svo langt. Ég býst við, að frv. fái samskonar afgreiðslu hjá meiri hl. allshn. nú eins og á síðasta þingi, enda er ábyggilega meiri hl. hv. dm. á þeirri skoðun, að það sé ekki æskilegt að binda hreppsnefndarkosningar svo pólitískt eins og gert væri með því að ákveða hlutfallskosningar. Sömuleiðis var meiri hl. allshn. á því, að ekki væri rétt að breyta til um kosningu sýslunefndarmanna frá því, sem nú er.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en vil mælast til, að málinu verði vísað til 2. umr. Það er ekki nauðsynlegt að vísa því til n., en ég geri ráð fyrir, að meiri hl. allshn. beri fram brtt. við 2. umr.