23.03.1936
Neðri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Páll Zóphóníasson:

Ég á hér brtt. við brtt. n. Þær eru 4 að tölu, en í raun og veru eru þær aðeins 2. Sú fyrri er um það, að þar sem n. gerir ráð fyrir, að hlutfallskosningar séu aðeins viðhafðar við kosningu bæjarstjórna, þá geri ég ráð fyrir, að þær fari fram í bæjum og þeim hreppsfélögum, sem eru sérstakt kauptún út af fyrir sig. En með því skil ég það sama og hv. frsm. málsins, að það sé kauptún, þar sem byggðin er innan þess umdæmis, sem er löggilt sem verzlunarstaður, en ekki heyra undir fleiri eða færri sveitabæir, sem liggja í meiri fjarlægð.

Hin brtt. er við kosningar, þegar fram fer óhlutbundin kosning. Þar gerir n. í 5. brtt. sinni ráð fyrir, að kjósandi kjósi bæði aðalmenn og varamenn með því að skrifa númer þeirra á kjörskránni á kjörseðilinn. Með þessu skilst mér, að svo geti farið, að sami maður fái nákvæmlega jafnmörg atkv. til að vera varamaður og aðalmaður, og að það geti komið fyrir, að eftir kosninguna séu allir sömu mennirnir kosnir varamenn og aðalmenn. Þessi kosningaraðferð getur því ekki staðizt eins og hún er þarna. Að vísu eru þetta tilfelli, sem myndu koma mjög sjaldan fyrir. En n. gerir þó ráð fyrir, að það muni geta komið fyrir að einhverju leyti, því hún segir, að þeir séu kosnir varamenn, sem flest fái atkv., en séu þó ekki kosnir aðalmenn. Hún hefir því gert sér það ljóst, að það gætu fallið sömu atkv. á sömu menn bæði sem aðalmenn og varamenn. Mér finnst einfaldast að hafa það þannig, að þar, sem kosið er óhlutbundnum kosningum, séu kosnir helmingi fleiri menn heldur en eiga að vera í hreppsnefnd. Og þeir 3, 5 eða 7, eftir því í hvaða hreppi það er, sem fái flest atkv., séu aðalmenn, en þeir, sem eru næstir með atkv., koma inn sem varamenn, og hnígur brtt. mín að þessu. Ég held, að ef kosnir eru á sama seðli varamenn og aðalmenn, þá verði í framkvæmdinni óttalegur glundroði úr því, hvort maður sé kosinn sem aðalmaður eða varamaður. Og ég hygg, að það geti farið svo, að maður hafi jafnmörg atkv. sem varamaður og aðalmaður, og því ekki hægt að segja um það, hvort hann sé heldur kosinn sem aðal- eða varamaður. Ég hefi þess vegna komið með þessa brtt. um, að það séu ekki kosnir sérstakir varamenn að öðru leyti en því, að það sé ákveðið í 1., að þeir séu til, og að það séu þeir, sem næstir eru að atkv.tölu til þess að komast að, en komust þó ekki að. — Ég held því, að þessi brtt. mín sé sjálfsögð, og hin líka, eins og nú er komið máli.