23.03.1936
Neðri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Við hv. 2. þm. Reykv., sem sæti eigum í allshn., hefðum helzt kosið, að frv. hefði verið afgr. eins og það liggur fyrir óbreytt, en hinsvegar hefir meiri hl. n. viljað breyta nokkrum ákvæðum, sérstaklega þeim, er snertu kosningu í hreppsnefnd og á sýslunefndarmönnum.

Eins og hv. þm. Snæf. hefir lýst, þá hafa þeir lagt til, að það verði ekki skylt að beita hlutfallskosningu utan kaupstaða, en hinsvegar á að viðhafa hlutfallskosningu við hreppsnefndarkosningar, ef ákveðinn hluti kjósenda ber fram skrifl. óskir um það efni. Til þess að reyna að brúa þetta bil, sem er milli meiri hl. og minni hl. n. um þetta atriði, þá höfum við hv. 2. þm. Reykv. leyft okkur að bera fram brtt. við brtt. meiri hl., sem hv. þm. Snæf. hefir gert grein fyrir, og er sú brtt. á þskj. 203, og fer hún í þá átt, að það skuli beita hlutfallskosningu í kauptúnum. auk þess, sem það er gert í bæjum, ef fullir 2/3 hl. kjósenda eru búsettir í kauptúninu. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að snertandi sveitir og kaupstaði er það undantekningarlítið eða undantekningarlaust, þegur kosið er í hreppsnefnd, að þá sé kosið eftir einhverjum pólitískum línum, og ég álít, að það sé svo í rauninni alltaf við hreppsnefndarkosningar. Það hefir verið þannig, að þó að það hafi ekki verið hreinar flokkslínur, sem farið hefir verið eftir, þá hefir þó afstaða manna til fulltrúavalsins í hreppsnefndirnar að mestu leyti miðazt við afstöðu þeirra til hinna opinberu mála, sem á aftur oft rót sína að rekja til þess, hvar þeir standa í þjóðmálunum yfirleitt. Við hefðum því kosið, að þetta væri eins og í bæjum, og að þessar kosningar væru hlutbundnar alstaðar, og teljum við, að bezt færi á því fyrir allra hluta sakir, og að það sé sjálfsagt, að þó að einhversstaðar sé ekki kosið eftir hreinum pólitískum línum, þá séu hafðar hlutfallskosningar eftir sem áður. Ef það er ákveðinn hópur manna, sem óskar eftir tilteknum mönnum til þess að starfa í hreppsnefnd, þá hefðu þeir getað komið sér saman um það áður, þó að bak við það væri ekki hrein pólitísk afstaða þeirra manna, sem beittu sér fyrir slíku. Hlutfallskosningar ættu því að vera, þrátt fyrir það, þó að ekki væri kosið eftir hreinum pólitískum línum. En þar sem meiri hl. n. hefir hallazt að því ráði að binda hlutfallskosningar eingöngu við bæina, þá höfum við í minni hl. reynt að fá því framgengt, að þetta nái einnig til kauptúna, ef 2/3 hl. hreppsbúa eru búsettir í kauptúni. Brtt. hv. 2. þm. N.-M. sem er á þskj. 208, gengur í líka átt, en þó ekki eins langt. Við hana er það athugavert, eins og þeir tveir hv. þm., hv. þm. Snæf. og hv. 2. þm. N.-M., sem um hana hafa talað, hafa skýrt, að hún gerir ráð fyrir hlutfallskosningum því aðeins, að allir íbúar hreppsins séu búsettir í kauptúni. Nú mun svo vera um nokkur kauptún, að auk þeirra manna, sem búa í kauptúninu, eru ef til vili 2–5 jarðir í námunda við kauptúnið, sem tilheyra sama hreppi. Þá yrði sama látið ganga yfir þann hrepp eins og aðra sveitahreppi, og þeir einir hreppar hefðu rétt til þess að hafa hlutfallskosningu, þar sem allir hreppsbúar væru búsettir í kauptúninu sjálfu. Það er nú svo með bæjarfélögin víða, að til þeirra heyra nokkrar jarðir. Það er t. d. svo um Siglufjörð, að undir hann heyra nokkrar jarðir, sem eru í nokkurri fjarlægð frá bænum, og það er ekkert samræmi í því, að þeir geti skilyrðislaust heimtað hlutbundnar kosningar, en kauptún, sem hefir nokkrar jarðir í námunda við sig, þar sem örfáir hreppsbúar eiga heima megi ekki hafa hlutfallskosningu vegna þessara fáu manna, sem búa utan kauptúnsins, en í hreppnum. Okkur finnst því eðlilegt, að ef mikill meiri hl. manna er búsettur í kauptúninu, þá skuli kosning til hreppsnefndar fylgja sömu reglu og kosning til bæjarstjórnar í bæjum almennt.

Ég vil vænta þess að hv. þd. sjái, að þessi miðlunartill. er eftir atvikum á fullum rökum reist og sanngjörn, og að það sé eðlilegt að hníga að því ráði að samþ. hana, ef menn vilja ekki lögbjóða hlutfallskosningar í hreppum almennt, sem hv. meiri hl. allshn. virðist ekki vilja. Mér hefir líku skilizt á hv. þd., að það muni vart vera meiri hl. til þess í d. að fyrirskipa hlutfallskosningar almennt í hreppum, en það ætti því að vera gerlegt að samþ. þessa miðlunartill., sem ég hefi nú rætt um.

Að öðru leyti þarf ég ekki að fjölyrða um framkomnar till. Ég gat þess í upphafi, að við í minni hl. n. hefðum helzt kosið, að frv. hefði verið samþ. óbreytt, og það hefði a. m. k. verið ákveðið, að hreppsnefnd kysi sýslunefndarmann, því hreppsnefndin á hverjum tíma á að spegla þær stefnur og línur í réttum hlutföllum, sem eftir er kosið í hreppsnefndina, og því eðlilegt, að sýslunefndarmaður tilheyri þeim hópi, sem ræður í hreppsnefndinni á hverjum tíma. En það hefir oft orðið sú niðurstaða, að sýslunefndarmenn hafa staðið á öndverðum meiði við meiri hl. hreppsnefndar í hreppnum, og það kannske leitt til ýmislegs ósamræmis í málefnum hreppsins, sem er óeðlilegt. Því það er eins og Guðmundur Finnbogason segir í fyrirlestri, sem menn kannast við, að lýðræðið byggist á því að kjósa menn, sem kjósa menn, sem kjósa menn. Það er eðlilegt og sjálfsagt, að hreppsbúar kjósi hreppsnefnd eftir því, sem til hagar í hreppnum, og það ætti líka að vera eðlilegt og sjálfsagt, að hreppsnefnd kysi fulltrúa hreppsins í sýslunefnd. Af þessum ástæðum mun minni hl. greiða atkv. gegn þeim brtt. meiri hl. allshn., sem miða að því að breyta þeim ákvæðum frv., sem lúta að kosningu sýslunefndarmanna. En hinsvegar mundum við til samkomulags greiða atkv. með öðrum brtt. meiri hl., ef sú brtt., sem við flytjum við þær um kosningar í sjávarþorpum, yrði samþ., og við gætum þannig mætzt á miðri leið í allshn.