23.03.1936
Neðri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Thor Thors):

Þeir hv. þm., sem bera fram brtt. við till. meiri hl. allshn., hafa nú gert grein fyrir þeim, og vil ég leyfa mér að svara nokkrum orðum.

Hv. 2. þm. N.-M. á hér brtt. á þskj. 208. Hann vill, að hlutfallskosning sé viðhöfð í hreppsfélögum, sem ná aðeins yfir eitt kauptún. Ég sé ekki ástæðu til, að það sé beint lögboðið, og vísa til minna fyrri orða um þetta atriði. En ef hv. d. er þeirrar skoðunar, að ekki sé nægilegt að veita almenna heimild til hlutfallskosninga, eins og meiri hl. allshn. ætlast til, þannig að hreppsnefndir skuli kosnar hlutfallskosningu, ef 1/10 hreppsbúa óskar þess, þá get ég betur fellt mig við þessa till. heldur en till. hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. landsk., að binda þetta við hreppa, þar sem 2/3 íbúanna búa í kauptúni. Við í meiri hl. allshn. höfum nú til samkomulags ákveðið, að hreppsnefndarkosningar í kauptúnum, sem eru hreppsfélög út af fyrir sig, skuli fara fram sama kjördag og bæjarstjórnarkosningar, og tel ég ekki rangt að miða hlutfallskosninguna við sama mark. En ég verð að telja algerlega nægilegt að láta 1/10 hluta kjósenda geta ráðið því í hvert sinn, hvort hlutfallskosning fer fram. Það er ekki mikil þörf á hlutfallskosningum, ef ekki er hægt að fá 1/10 kjósenda til að óska þeirra.

Um aðrar brtt. hv. 2. þm. N.-M. verð ég að segja það, að ég hygg, að þær séu óþarfar. Það getur að vísu komið fyrir, að sami maður sé kosinn sem aðalmaður og varamaður, en ekki er líklegt, að mikil brögð verði að því. Mér finnst ekki rétt að ganga út frá því í löggjöf, að kjósendur séu þeir bjánar að kunnu ekki að nota jafneinfalda kosningaraðferð eins og hér er gert ráð fyrir. Ég held, að það sé oftraust á heimsku kjósenda, ef menn halda, að þeir geti ekki kosið eftir svona einföldum reglum, þar sem það er beint tekið fram á kjörseðlinum, hverjir eru kosnir sem aðalmenn og hverjir sem varamenn. Ég hygg, að till. hv. 2. þm. N.-M. gætu orðið hér til glundroða. En nú geta menn haft jafnmörg atkv., og hvernig á þá að skera úr? Væntanlega með hlutkesti, eins og þegar atkv. eru jöfn við kosningar hér á Alþingi. Ég held, að ótti hv. þm. sé óþarfur, og þær till., sem við berum fram á þskj. 112, séu nægilega greinilegar til þess, að kjósendur þurfi ekki að villast á þeim.

Hv. 1. landsk. talaði hér nokkuð langt mál fyrir sínum brtt. Er það vitað, að sósíalistar eru þess sinnis að vilja alstaðar lögbjóða hlutfallskosningar, enda þó þeir hafi ekki nægilega bent á, af hvaða ástæðu það er, eða hvað það miðar til bóta frá því, sem nú er. Og þessum hv. þm. má svara því til, sem ég áður hefi tekið fram, að heimildin til hlutfallskosninga er svo víðtæk samkv. okkar till., að það ætti jafnan að vera hægt að koma þeim við, ef nokkur vilji er fyrir því.

Þá taldi sami hv. þm. óeðlilegt, að það væri ekki hreppsnefndin, sem kysi sýslunefndarmanninn, heldur hreppsbúar, eins og við gerum ráð fyrir. Hv. þm. Borgf. vék að því, að reynzt hefði vel og menn verið ánægðir í sveitunum með þá kosningatilhögun, sem verið hefir viðhöfð við val sýslunefndarmanns, nefnilega að hreppsbúar almennt hefðu rétt og vald til að kjósa hann. Og ég verð, þó ég sé ekki hv. þm. Borgf. að öllu leyti sammála í þessu máli, að taka undir þau ummæli hans, að hér er ekki ástæða til að breyta út frá því, sem reynt hefir verið og reynzt vel. Það er líka rétt, að sýslunefndarmaðurinn vinnur ekki með hreppsnefndinni, heldur í sýslunefndinni, og þarf því að engu leyti að vera bundinn af meiri hl. hreppsnefndarinnar.

Hv. þm. Borgf. taldi, að þessar brtt. okkar, og þetta frv. yfirleitt, væru ekki til bóta frá því, sem verið hefði, og að það væri aðeins verið að apa eftir það, sem gilt hefði í kaupstöðunum. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Hér er verið að samræma þessi ákvæði um kosningu sveitarstjórnanna þeim ákvæðum, sem nú gilda um kosningar til Alþingis. Þar er alstaðar ákveðið, að kosningarnar skuli vera leynilegar, og sú ein krata þykir geta samrýmzt því frjálsræði, sem hverjum einstaklingi er ætlað innan þjóðfélagsins til þess að setja fram sína skoðun óhultur og án áhrifa frá öðrum. Verður að telja það blett á íslenzkri löggjöf, að ennþá skuli ekki ákveðið um sveitarstjórnarkosningar, að þær skuli vera leynilegar. Hv. þm. sagði, að engar óskir hefðu komið fram um breytingar í þessu efni. Ég hefi þó orðið þess áskynja, m. a. á þingmálafundum, að óskir eru uppi í þessu efni. Ég man ekki, hvort slíkar óskir hafa komið beint til þingsins, en þær hafa bæði komið fram á fundum og í blöðum.

Þá taldi hv. þm. Borgf. það mjög til óhagræðis fyrir sveitamenn, að hreppsnefndarkosningarnar færu ekki fram á vorhreppaskilaþingi, eins og verið hefði. Það má vera, að hann hafi hér nokkur rök að mæla, en mér finnst, að sérstakur kjördagur leiði nokkuð af þeirri breyt., sem verið er að gera á kosningaraðferðinni. Það er vitanlegt, að á vorhreppaskilaþingi er um margt að hugsa og mörgu að sinna, og eftir að kosningarathöfnin sjálf er orðin formbundnari, er ekki ólíklegt, að erfitt væri að koma henni við á sjálfu hreppaskilaþinginu. Það er náttúrlega leitt fyrir löggjafann að ónáða fólkið að óþörfu, en þess er að gæta, að kjördagurinn er hér ákveðinn á sunnudegi, og má ætla, að fólk eigi þá frekar heimangengt heldur en á virkum degi. Og síðast í júní er ekki slíkur annatími í sveitunum, að fólk geti ekki nokkurnveginn komizt að heiman einn sunnudag. Það er þá lítill áhugi fyrir velferðarmálum hreppsins, ef fólk getur ekki gefið sér tíma til að skreppa að heiman til þess að kjósa í hreppsnefnd.

Um sáttanefndarmennina er það að segja, að það er rétt, sem hv. þm. gat um, að í frv. til l. um meðferð einkamála í héraði, sem verið var að greiða atkv. um hér áðan ágreiningslaust, er svo ákveðið, að sáttanefndarmenn skuli kosnir af hreppsnefnd, og ákvæði þessa frv. er því fyllilega í samræmi við það.

Ég veit, að hv. þm. Borgf. er manna kunnugastur því, sem fram fer í sveitum, og er því að sjálfsögðu fyllsta ástæða til að taka til athugunar þær aths., sem hann hefir fram að bera í þessu máli, en mér skilst ágreiningurinn ekki vera svo mikill, að hv. þm. geti ekki fyrir þær sakir fylgt við þessa umr. a. m. k. brtt., sem meiri hl. allshn. gerir. Leggi hann ríka áherzlu á, frekari breyt., er sjálfsagt að taka það til athugunar fyrir 3. umr. málsins.