05.05.1936
Sameinað þing: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

1. mál, fjárlög 1937

Thor Thors:

Ég á nokkrar brtt. á þskj. 519, sem ég vil leyfa mér að gera hér að umræðuefni.

1. brtt. er nr. VI á þessu þskj. Það er 4500 kr. framlag til Hellissandsvegar, enda leggi hreppsbúur fram 450 dagsverk ókeypis. Eins og kunnugt er, er Hellissandur fjölmennt kauptún; þar eru um 600 íbúar, en kauptúnið er gersamlega sambandslaust við umheiminn, þar sem það hefir ekkert vegasamband við nágrennið. Þetta er vitanlera mjög bagalegt fyrir alla íbúa kauptúnsins og háir mjög afvinnumöguleikum þeirra. Þeim er því mesta áhugamál að fá bætt úr þessu, og það sýna þeir með því að bjóðast til þess að spara hér um 4500 kr. af því fé, sem fyrr eða síðar yrði að leggja til þessa vegar, sem nú fyrir nokkru er kominn í þjóðvegatölu. Mér finnst það því ekki geta verið ágreiningsmál, að Alþ. beri skylda til að taka í þess, útréttu hönd þorpsbúa og á þennan hátt verðlauna þann áhuga, sem þeir sýna fyrir þessu nauðsynjamáli sínu. Það yrði þá jafnframt til þess að greiða úr þeim samgönguörðugleikum, sem þeir nú eiga við að búa og létta undir afkomu þeirra, sem nú er sérlega erfið vegna þess, að afli hefir brugðizt mjög tilfinnanlega tvö undanfarin ár frá þessu kauptúni, en eins og kunnugt er, er útgerð aðalatvinnvegur hreppsbúa. Af þessum ástæðum verð ég líka að telja skyldu Alþingis að verða við þessum tilmælum, fyrst og fremst vegna þess, að þorpsbúar sjálfir vilja leggja nokkuð af mörkum, og í öðru lagi vegna þeirra erfiðleika, sem þeir eiga nú við að stríða, því að vitanlega er það ríkisvaldinu miklu meiri fengur að geta lagt fram þetta fé, þegar það getur fengið jafnmikið tillag á móti, heldur en að neyðast til þess síðar vegna yfirvofandi skorts í þorpinu að leggja fram fé í aðrar atvinnubætur, sem ábyggilega yrðu miklu vafasamari til hagnaðar fyrir þjóðfélagið en það nauðsynjaverk, sem hér er lagt til, að framkvæmt verði.

Þá er 2. brtt. mín á sama þskj. undir XXXIX, til Kjartans Þorkelssonar fyrrum póstafgreiðslu- og matsmanns, 300 kr. styrkur. Þessi maður sem nú er um 76 ára, hefir verið blindur um nokkurra ára skeið. Hann hefir lagt mjög mikilvægt starf fram í þágu þjóðfélagsins á fjöldamörgum sviðum. Hann hefir verið póstafgreiðslumaður í um 22 ár. Hann hefir í áratugi verið í skattanefnd. Hann hefir gegnt störfum sem ullarmatsmaður og kjötmatssmaður um langt skeið. Hann hefir um nokkurra ára skeið verið hreppstjóri, og auk þess hefir hann verið umboðsmaður þjóðjarða. Þegar þess er gætt, hvernig hag þessa manns er nú komið í hárri elli, hann er nú blindur, og þegar þess er gætt, hvernig hann hefir slitið kröftum sínum í þágu þjóðfélagsins á fjöldamörgum sviðum, þá virðist vissulega ekki vera um neina ofrausn að ræða, þó að Alþingi veiti honum þennan lítilfjörlega lífeyri, en ég hefi ekki séð mér fært að hafa þessa till. hærri, af því að það er svipuð upphæð, sem yfirleitt er veitt í þessu skyni á 18. gr. fjárl.

Þá er 3. brtt. mín undir XLII, um að veita 300 kr. til Kristínar Pálsdóttur, ekkju Jóns Níelssonar vitavarðar. Vitamálastjóri hafði sent umsókn um þetta til fjvn., en af einhverri orsök hefir þetta fallið niður úr till. n. Hv. form. fjvn. hefir tjáð mér, að hér hafi verið um vangá að ræða og fjvn. geti fallizt á að reita þessari ekkju jafnháa upphæð og ekkjur annara vitavarða fá á fjárl., en það er 300 kr. Maður þessarar konu, sem lengi var vitavörður í Elliðaey, fórst í ofviðrinu mikla 14. des. 1935. Vitamálastjóri lagði eindregið með, að þessi styrkur væri veittur, og bendir á það, að þessi ekkja sé með öllu eignalaus. Vegna ummæla hv. form. fjvn. um þessa umsókn dreg ég ekki í efa, að þessi málaleitun fái góðar undirtektir hjá hv. þm.

Þá er I. brtt., XLIX. við 22. gr., nýr liður, um ábyrgð fyrir Neshrepp utan Ennis, allt að 50000 kr., til vatnsveitu. Þessi málaleitun á rætur sínar að rekja til fundar, sem haldinn var á Hellissandi 29. marz sl. Þar var samskonar till. samþ. einum rómi og hún síðan send til Alþingis. Ég hygg að þetta mál verði bezt skýrt með því að lesa umsögn héraðslæknisins í Ólafsvíkurhéraði um nauðsyn þessa máls. Vil ég vænta þess, að hæstv. forseti leyfi það. Læknirinn segir svo í umsögn sinni, sem er dags. 1. apríl 1936:

„Að gefnu tilefni skal það tekið fram, að Hellissandur er mjög illa settur að því, er neyzluvatn snertir. Þorpsbúar taka neyzluvatn sitt úr á, sem rennur gegnum kauptúnið. Er því vitanlegt að í hana rennur afrennsli af túnum og frá húsum, auk þess, sem ekki verður fyrir það girt, að vatnið sé notað til atnara þarfa en neyzlu. Vegna vegalengdar má það teljast ógerningur að sækja vatn í ána fyrir ofan allt kauptúnið. og verður því að álíta ána óhæfilegt vatnsból fyrir þorpið. Þorpsbúar hafa augastað á uppsprettulind fyrir vatnsból handa sér, og er hún á góðum stað og laus við galla þá, sem að ofan getur.“

Þetta er umsögn héraðslæknisins, dr. Árna Árnasonar í Ólafsvík. Hann segir beinum orðum, að hann áliti þessa á, sem þorpsbúar nú verða að nota, óhæfilegt vatnsból. Stundum hafa gosið upp skæðir sjúkdómar þarna í þorpinu, og er ekki úr vegi að ætla, að þetta óheilnæma neyzluvatn eigi þrátt í þeim skæðu sóttum, sem hafa komið þarna fram öðruhverju. Vegna þeirrar óhollustu sem af þessu stafar, er auðvitað hin brýnasta nauðsyn að breyta um vatnsból.

Þorpsbúar hafa látið gera áætlun um fullkomna vatnsveitu fyrir kauptúnið. Sú rannsókn var framkvæmd af núverandi vitamálastjóra, og það má ætla að framkvæmd þessa verks kosti allt að 40–50 þús. kr. Það má telja1íklegt, að komizt verði af með 40 þús. kr., en að sjálfsögðu verður mjög erfitt að útvega lánsfé til þessa mannvirkis eins og nú er komið fjárhagsafkonu þjóðarinnar. En ég tel, að Alþingi beri skylda til þess, ef unnt er, að útvega lán og styðja að því, að hægt yrði að koma þessu í framkvæmd, vegna þess að hér er um yfirvofandi hættu að ræða fyrir heilsu og velferð fjölda margra manna. Og að sjálfsögðu yrði slíkt lán tekið í fullu samtráði við hæstv. stj., sem á að ábyrgjast það, og ekkert gert í framkvæmd málsins, nema með fullu samþ. hennar.

Ég á ekki fleiri brtt. á þessu þskj., en það er ein brtt., sem nú er í prentun, sem ég flyt ásamt hæstv. forseta. Hún hefir ekki í för með sér nein aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Hún ákveður aðeins, hvernig ráðstafa skuli nokkrum hluta af því fárframlagi, sem er á 12. gr. fjárl., 18. r. en það er styrkur, sem ætlaður er til sjúkra eftir úthlutun landlæknis. Þar eru veittar 5000 kr. í allt, en við leggjum til, að 500 kr. af því fé fari til Hallgríms bóna. Sveinssonar á Hálsi í Eyrarsveit til þess að leita sér lækninga. Þessi maður, sem er fátækur bóndi, varð fyrir því mikla óhappi að hrapa úr fjalli þar vestra á síðasta hausti. Ef hér hefði verið um verkamann að ræða, hefði hann að sjálfsögðu verið slysatryggður og ríkið hlaupið undir bagga með honum. En þessi maður átti ekki því láni að fagna og stendur hann nú uppi eignalaus og örkumla og á þess engan kost að leita sér lækninga. Hann fótbrotnaði, og lækningin hefir ekki tekizt vel, þannig að það er ekki hægt að búast við að hann fái heilsu aftur, nema frekari læknisaðgerð komi til.

Af þessum ástæðum, sem ég hefi getið um. leyfi ég mér að vænta að þessi till. sem engin aukin útgjöld hefir í för með sér. fái góðar undirtektir hv. þm.