23.03.1936
Neðri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Jón Sigurðsson:

Það eru aðeins örfá atriði, sem ég vildi minnast á, enda er málið orðið talsvert rætt. — Ég er einn af þeim, sem líta svo á, að ekki hafi verið aðkallandi að gera þær breyt. á sveitarstjórnarlögunum, sem hér er verið með, og hygg ég, að það sé ekki gert eftir ósk frá sveitunum. Mér er ekki annað kunnugt en að menn hafi unað þar vel því fyrirkomulagi, sem verið hefir. En úr því að gengið hefir verið inn á að breyta 1., er sjálfsagt að ræða, hvað skárst er að taka upp. Það hefir talsvert verið rætt um að taka upp hlutfallskosningu, og hafa sósíalistar einkum haldið henni fram, en ég sé ekki, að hún yrði til annars en að skapa óvild og óeðlilegan flokkadrátt í sveitunum, sem bezt væri að vera laus við. Hefir það margoft sýnt sig, að pólitískur flokkadráttur getur ekki orðið til annars en bölvunar fyrir sveitarfélögin. En slíkt vill oft blossa upp samhliða hlutfallskosningum, og því er bezt að vera laus við þær.

Hv. 6. landsk. var að tala um, að manntalsþingin væru svo fámenn, að þar kæmu ekki nema 10–20 menn. En þar sem ekki eru nema 10–15 búendur í hreppnum, er varla bægt að búast við fjölmennum hóp.

Þá hefir allmikið verið um það rætt, hvernig haga skuli kosningu sýslunefndarmanna, og því verið haldið fram af sömu aðiljum, að eðlilegast væri, að þeir væru kosnir af hreppsnefndunum. Í því sambandi lét hv. 6. landsk. svo um mælt, að það fyrirkomulag, sem nú er, væri gamalt og úrelt og ætti að hverfa. Mér kom það dálítið einkennilega fyrir eyru að heyra, að það sé úrelt fyrirkomulag að veita kjósendum beinan þátt í kosningunum. Mætti þá hafa það eins um alþm., að hreppsnefndirnar kysu þá? Nei, þetta er aðeins fjarstæða, sem ekki tekur að ræða um. Vænti ég, að hv. d. telji sjálfsagt, að hreyfa ekki við því fyrirkomulagi, sem gilt hefir um kosningu sýslunefndarmanna; þannig er bezt tryggt, að þeir verði kosnir, sem hreppsbúar bera mest traust til. Að því er það snertir, hvenær hreppsnefndir í sveitum skuli kosnar, tel ég að ýmsu leyti óheppilegt að fastbinda það við ákveðinn dag, þann sama og kosið er til Alþingis. Gegn því hafa verið færðar ástæður, sem ég skal ekki endurtaka. En ég vil benda hv. frsm. meiri hl. er sagði, að þetta væri sunnudagur, svo ekki væri mikið misst að því er vinnu snertir, á, að fyrir bændur má svo kalla, að allir dagar séu jafnir, a. m. k. um þetta leyti árs. Þá er svo mörgu að sinna, að þeir þurfa að nota sunnudagana eins og aðra daga, og er því ekki um neina frídaga að ræða í sveitinni á þessum árstíma.

Að öllu athuguðu virðist mér heppilegast að sameina hreppsnefndar- og sýslunefndarmannskosningu a. m. k. í minni hreppunum. Þetta hefir verið svo, og mér er ekki kunnugt um, að það hafi orðið til nokkurra vandræða. En ég hygg, að það hafi yfirleitt gengið ágætlega. Ég sé því enga ástæðu til þess fyrir Alþingi að þvæla mönnum saman til margra funda til þess að vinna þau störf, sem auðveldlega er hægt að ljúka á einum og sama degi.

Að öðru leyti hirði ég ekki um að fara frekar út í umr. nú, enda er málið orðið allmikið rætt. E. t. v. kem ég með brtt. við 3. umr., en læt hér við sitja að sinni.