24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Hannes Jónsson:

Ég hlýddi á umr. um þetta mál í gær með talsverðri eftirtekt, en ég verð að segja, að ég varð fyrir vonbrigðum um þær umr. — Eins og mál þetta er til komið, þá dylst engum, að það, sem aðallega, er deilt um, er það hvort eigi að koma á hlutfallskosningum við hreppsnefndarkosningar eða ekki. Það er nú að vísu svo, að í grg. þál. frá 1933 um endurskoðun þessarar löggjafar er þess getið, að það sé ekki stefnt að því að koma á hlutfallskosningum við kosningar í sveitum, heldur eigi að gera þetta eins frjálst og hægt sé, og þá sérstaklega, að kjósendur geti valið á milli, hvor kosningaraðferðin skuli viðhöfð. Og nú sé ég ekki betur en að þetta ákvæði sé fullkomlega tryggt í gildandi lögum, þar sem í 29. gr. 1. frá 1929 er skýrt tekið fram, að oddvitar sýslunefnda skuli fyrirskipa hlutfallskosningur, ef þess sé krafizt. Undir meðferð þessa máls í n. hefir þessi tvíþætti skilningur komið fram og rekizt á, hvort beinlínis ætti að fyrirskipa hlutfallskosningar í sveitum eða láta kosningaraðferðirnar vera eftir frjálsu vali. En til þess að komast hjá því að velja um þetta, þá grautar hv. n. saman þessum tveimur stefnum, og það svo mjög, að ekki verður hægt að komast klakklaust hjá agnúunum. Þetta kom líka þegar fram í gær undir umr., þar sem einum fannst þetta ákvæði ómögulegt, en hinum hitt. Það mun því sannast, að lögin yrðu með öllu óframkvæmanleg eftir till. hv. n., nema með sífelldum árekstrum.

Þeir, sem héldu því fram að hafa kosningarnar eins og nú er, hreppsnefndarkosningarnar á vorhreppaskilum og sýslunefndarkosningarnar á manntalsþingum, athuga ekki, að þetta er gert ómögulegt í frv., þar sem gert er ráð fyrir, að skipta megi hreppum í kjördeildir. Eins og kunnugt en, þá er það fyrirskipað í lögum, að menn mæti á manntalsþingum, og varðar meira að segja sektum, ef út af er brugðið. Nú mun það ekki tilætlun löggjafans að knýja menn til þess að brjóta á móti þeim lögum, sem hann setur, en það er beinlínis gert í þessu tilfelli. Menn geta t. d. alls ekki sótt manntalsþing, sem sæti eiga í annari kjördeild en þar, sem manntalsþingið er háð, a. m. k. alls ekki þeir, sem sæti eiga í kjörstjórninni, því að þeir verða að stjórna kosningunum til hins síðasta. Mér virðist, að ekki geti annað komið til greina en breyta þessu ákvæði. Eins og bent hefir verið á, verður mjög erfitt að láta sveitarstjórnarkosningar fara fram sama dag og kosið er til Alþingis. Til þess að það geti gengið með góðu móti þyrfti fyrst og fremst að hafa tvær kjörstofur, en víða hagar svo til til sveita, að það er varla hægt, og jafnframt þyrftu að vera tvær kjörstjórnir. En þá gæti komið fyrir, að einn og sami maður ætti sæti í báðum kjörstjórnunum. Þessir örðugleikar virðast mér með öllu útiloka, að þessar tvennar kosningar sé hægt að láta fara fram sama daginn.

Hvað snertir hreppsnefndarkosningarnar, þá hefir og verið bent á það, að illmögulegt myndi verða að láta kosningu aðalmanna og varamanna fara fram samtímis. Til þess að bæta úr þeim ágalla, sem er að þessu leyti á frv. og brtt. á þskj. 192, hefir hv. 2. þm. N.-M. komið fram með brtt., sem ganga í þá átt, að þessu atriði skuli skipa á þann veg, að kosning aðalmanna og varamanna skuli vera sameiginleg, en að þeir sem flest fá atkv. við kosninguna, skuli vera aðalmenn, en þeir, sem næstir verða með atkvæðatölu, varamenn. En við þessa till. er það að athuga, að „teoretiskt“ séð gæti það komið fyrir, að hreppsnefnd yrði skipuð mönnum, sem engum hefði dottið í hug að hafa fyrir aðalmenn. Setjum svo, að kjósa ætti 3 aðalmenn og 5 varamenn í einhverjum hreppi, og að kjósendurnir skiptust í tvo flokka, þannig að annar flokkurinn hefði 60% af greiddum atkv., en hinn 40%. Segjum svo, að fyrri flokkurinn kysi mennina A, B, C, D, E, sem fengju samkv. þessu 60% af atkv. Aftur á móti kysi hinn flokkurinn mennina F, G, H, I, J, sem fengju því 40% af atkv. En nú gæti það komið fyrir, að báðir partar hefðu komið sér saman um varamennina K, L, M, N, O, og kysu þá. Fengju þeir því öll atkv. og yrðu aðalmenn í staðinn fyrir varamenn. Menn kunna nú að segja, að þetta sé bara „teoria“, en ég vil þá segja, að „teoria“ getur orðið að „praksis“, og því getur það komið fyrir, sem ég hefi bent hér á.

Einasta leiðin til þess að komast út úr þessu öngþveiti er sú, að fylgja þeirri venju, sem alltaf hefir verið viðhöfð í þessu efni, að kjósa fyrst aðalmennina, og varamennina svo á eftir. Þessari reglu hefir verið fylgt við kosningar í sýslunefndir, og er viðhöfð við kosningar aðalmanna og varamanna í stjórnir ýmsra félaga og fyrirtækja, þar sem hlutfallskosning er ekki viðhöfð.

Þá eru og ýms fleiri atriði í þessu frv., sem sýnast í fljótu bragði munu verða torveld í framkvæmd, og má þar til nefna t. d. utankjörstaðakosningar, sem frv. gerir ráð fyrir, að geti átt sér stað við kosningar í sveitarstjórnir eins og nú við kosningar til Alþingis. Það er gert ráð fyrir að nota sömu eyðublöðin í báðum tilfellunum.

Það er margt fleira í frv., sem ég held, að reynast muni torvelt að framkvæma. Nú er svo fyrirmælt í frv. um kosningar í hreppsnefnd, að kjósandinn á að skrifa á miða númer þess manns á kjörskránni, sem hann ætlar að kjósa. Í ákvæðum um kosningar, sem fara fram utan kjördæmis, er gert ráð fyrir, að notuð verði samskonar eyðublöð og við síðustu alþingiskosningar. Og hvernig eru svo fyrirmælin um þetta í frv.? Það á að skrifa á miða númer þess manns á kjörskránni, sem kjósa skal. Nú er ég t. d. staddur hér í Rvík, þegar hreppsnefndarkosning fer fram í minni sveit. Hvað veit ég þá um númer þeirra manna á kjörskránni, sem ég hugsa mér að kjósa í hreppsnefndina? Nú má ef til vill segja, að heimild sé að skrifa nöfn þeirra á seðilinn. En ef kjósa á 7 aðalmenn og auk þeirra í varamenn í hreppsnefndina, hvernig á þá að koma öllum nöfnunum fyrir á þessum litla miða? Þessi kosningaraðferð yrði áreiðanlega örðug í framkvæmdinni.

Þá eru ákvæðin um samningu kjörskránna við sveitar- og bæjarstjórnarkosningar í meira lagi álappaleg, og skil ég ekki, hvernig hv. meiri hl. allshn. hefir getað dottið í hug að láta slíkan óskapnað frá sér fara. Eftir þessum reglum á kjörskrá til sveitarstjórnarkosningar, sem samin er t. d. 24. jan. 1937 að ganga í gildi 23. jan. 1938. Þessi fáránlega breyt. á gildandi lagaákvæðum um samningu og gildi kjörskráa ber vott um þann hundavaðshátt, sem þessu frv. er samfara. Því ekki að fara ennþá lengra aftur á bak og fyrirskipa sveitar- og bæjarstjórnum að semja kjörskrár, sem koma í gildi eftir 10 ár?! — En hvað var annars á móti því að láta það ákvæði haldast óbreytt, sem nú gildir, að hafa kjörskrár í kaupstöðum tilbúnar í desembermánuði, sem svo ganga í gildi eftir áramótin, seinni partinn í janúar? Ég get ekki betur séð en að það verði að breyta þessu ákvæði, ef það er meiningin að reyna einhverntíma að nota þessi nýju lög.

Þá er í meira lagi fljótfærnislega gengið frá niðurlagsákvæðum frv. Þar er svo fyrir mælt, að kosningar samkv. þessum lögum skuli í fyrstu sinn fara fram 1938, en þangað til skuli kosningar fara fram samkv. lögum um sveitar- og bæjarstjórnarkosningar frá 1929. Það á því aðeins að láta kosningarnar fara fram eftir þessum einu lögum. Nú hefir þeim lögum verið breytt með öðrum lögum frá 1933 og 1934. En það á ekkert að fara eftir þeim né taka þau til greina! Með fyrri málsgr. 36. gr. frv. eru þessi lög hvortveggja úr gildi felld, eins og tekið er fram í gr. sjálfri. — Ég geri ráð fyrir, að meiningin hafi nú verið sú, að þær kosningar til sveitar- og bæjarstjórna, sem fram færu á þessu tímabili til 1938, skyldu, ef til kæmi, fara eftir núgildandi lögum frá 1929 með áorðnum breytingum frá 1933 og 1934. En þá verður að sjálfsögðu að breyta þessu álappalega ákvæði í fyrri hluta 36. gr.

Ég held, að það írafár, sem gripið hefir þá menn, er að þessu frv. standa, hafi komið nokkuð að ófyrirsynju. Ég sé enga knýjandi ástæðu til þess að breyta sveitarstjórnarlögunum, nema þingheimur vilji yfirleitt koma þeirri breyt. á, að láta allar kosningar fara fram eftir hlutfallskosningarreglum; þeir, sem það vilja, eru sjálfum sér samkvæmir, og þá er ekki um neina árekstra að ræða í þessu frv. frá þeirra sjónarmiði. En hinir, sem eru mótfallnir hlutfallskosningum, eiga vitanlega að vera á móti þessu frv. og brtt. allshn. Ég held, að menn hafi ekki gert sér það ljóst, hversu örðugt er að framkvæma slíka lagasetningu sem þessu á grundvelli frv. og brtt. allshn., er fyrir liggur. Og ef þeir vilja samþ. þetta frv. til þess að koma því frá, þá er þetta ekki sæmileg afgreiðsla á því, eða eins og vera ber. Það verður fyrst að taka málið föstum tökum og gera sér ljóst, hverjir örðugleikar eru á að framfylgja því. Og ef það reynist ekki hægt nema á grundvelli hlutfallskosninga, þá verður að stíga það spor fullt út og gangast hreinlega við því nú þegar á þessu þingi, en ekki að vera að tvístíga og segjast ekki vilja hlutfallskosningar, en taka svo upp þetta millispor, sem hlýtur að leiða til þess fyrirkomulags. — Þeir, sem vilja hafa hlutfallskosningar, hafa hér séð sér leik á borði og flekað hina. Ef til vill hafa sumir látið flekast viljandi, af því að þeir hafa ekki séð sér fært að berjast opinberlega fyrir hlutfallskosningum. Þetta er kannske mannlegt, en ekki er það mikilmannlegt, eins og komizt var að orði í öðru sambandi. — Ég mun því greiða atkv. gegn öllum breyt. á núv. lögum um sveitarstjórnarkosningar, af því að það er ekki hægt að breyta þeim án þess að því fylgi svo miklir örðugleikar, sem gera ómögulegt að framkvæma þau. Ég skal t. d. benda á það, að hafi sumir látið sér detta í hug að nema burt einn agnúa á gildandi kosningalögum og hætta að kjósa sýslunefndarmenn á manntalsþingum vegna þess, að kjósendur eigi erfitt með að koma á manntalsþing, þá ætla þeir sér að greiða úr þessu með því að láta kosningarnar eftir sem áður fara fram á einum stað í hreppnum. En þá er numið burt úr þessu frv. það ákvæði, sem helzt virðist vera vit í og á að létta fyrir kjósendum að neyta atkv. síns, en það er heimildin til þess að kjósa í kjördeildum, sem nú eru víða tvær til þrjár í stórum hreppum. Þetta sýnir m. a., hve lausalopalega er fá þessum brtt. gengið. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að hv. þdm. leggi svo mikla áherzlu á að koma fram einhverjum breytingum á þessum kosningalögum, að þeir nemi burt úr frv. einu nýtilegu ákvæðin.

Ég skal svo ekki hafa þetta öllu lengra, en ég vil skora á hv. allshn. að taka það enn á ný til rækilegrar yfirvegunar, hvort nokkur nauðsyn er á því að breyt. þessum lögum, því að ég hefi ekki heyrt aðrar ástæður bornar fram fyrir því en þá, að það þurfi að koma á hlutfallskosningum sem víðast. En ef um fleiri ástæður er að ræða, væri fróðlegt að heyra þær tilgreindar. Ég hefi ekki heyrt þær nefndar, og hv. frsm. allshn. hefir varizt allra frétta í því efni. — Ég hefi bent á eitt atriði í frv., sem muni vera til bóta frá því, sem nú er í lögunum, en svo eru uppi raddir um að nema það burtu úr frv., til þess að hægt sé að framfylgja lögunum, ef frv. verður samþ. með þeim brtt., sem fyrir liggja frá meiri hl. allshn.

Það er ekki nema um tvennt að velja, ef frv. á fram að ganga, annaðhvort þessa leið eða hlutfallskosningarfyrirkomulagið. En ég er fyrir mitt leyti alveg mótfallinn því, að verið sé að þvinga fram hlutfallskosningar, og hygg, að flest eða öll sveitarfélög á landinu séu því mótfallin. — Það er einnig mjög örðugt að undirbúa þær. Og mörg sveitarfélög yrðu að fá prentaðan fjölda eyðublaða til afnota við kosningarnar, eða láta fjölrita þau. Gæti þá komið til álita, hvort öruggt væri, að ekki yrði hægt að kom, við brellum.

Ég lít svo á, að þetta frv. hafi ekki hinn minnsta tilverurétt, og mætti það sannarlega liggja í hvílu sinni nokkur ár, án frekari afgreiðslu en orðin er.