24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Thor Thors):

Þetta mál hefir nú sætt andmælum úr ýmsum áttum, og skal ég játa það, að sum af þeim eru á nokkrum rökum byggð, en önnur ekki. Það hefir verið talað um, að reglur þær, sem settar eru í brtt. meiri hl. allshn. um kosningar á aðalmönnum og varamönnum í sveitarstjórnir, gætu valdið ruglingi. En ég sé ekki, að svo þurfi að vera. Ég held, að það hafi verið hv. þm. A.-Húnv., sem sagði, að það væri ókleift að kjósa varamenn í hreppsnefnd, nema fyrst væri vitað um það, hverjir hefðu náð kosningu sem aðalmenn. En þessari reglu hefir víða verið framfylgt. Og ég hygg, að raunin hafi orðið sú, að þeir menn, sem mest traust höfðu meðal kjósenda, hafi hlotið kosningu sem aðalmenn, og hinir sem varamenn, er höfðu næstmest traust. Ef aðalmenn og varamenn þeirra eru kosnir í einu lagi, þá er það líklegt, að aðalmenn og varamenn komi fram með svipaðri atkvæðatölu frá þeim kjósendaflokki, er á bak við þá stendur. Kjósendur munu fyrirfram safnast í hópa um ákveðna fulltrúa eftir hagsmunum og sameiginlegum áformum, og þá munu aðalfulltrúar og varafulltrúar þeirra fá mjög svipað atkvæðamagn. Aðalmenn og varamenn hljóta að ná kosningu eftir sömu hlutföllum, eða því sem næst.

Hv. 6. landsk. var að bera fram rök fyrir réttmæti hlutfallskosninga og benda á, hvers vegna þær væru æskilegri en óhlutbundnar kosningar. Ýmislegt af því, sem hann sagði, var rétt. En það getur alls ekki staðizt sem föst regla, er hv. þm. hélt fram, að þátttaka kjósenda sé ætíð meiri í hlutfallskosningum en óhlutbundnum kosningum. Hv. þm. sagði, að Alþfl. vildi alstaðar innleiða hlutfallskosningareglu. En ég verð að benda honum á, að það hefir ekki borið mikið á þeim áhuga hjá flokknum við skipun Alþingis, síðan hann komst þar í meirihlutaaðstöðu. Reynslan hefir sýnt, að jafnaðarmenn hafa þvert á móti ruglað skipun þingsins. Ég veit, að hin slæma samvizka hv. 6. landsk. muni minna hann á, hvað það er, sem ég á við. Ef þeim er það nokkur alvara að haga skipun Alþingis skv. reglu hlutfallskosninga, þá er það nú á þeirra valdi.

Hv. þm. V.-Húnv. talaði hér í þessu máli með almikilli drýldni og merkissvip. Sagðist hann hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum um meðferð þessa máls hér í d. Ég hygg, að það sé nú ekkert óvenjulegt fyrir þennan hv. þm., þó að hann verði fyrir vonbrigðum. Það mun vart vera um annað að ræða en að farið sé gagnstætt hans vilja í flestum málum hér á Alþingi. En hinsvegar get ég lýst því yfir, að ég varð ekki fyrir neinum vonbrigðum að því er snerti ræðu þessa hv. þm.; hún var, eins og venjulegt er um ræður hans, full af drýldni og hroka. Hv. þm. sló því fram, að það væri engin þörf á þessari lagabreytingu, Og staðhæfði, að það væri ekki hægt að láta sveitarstjórnarkosningar fara fram samtímis alþingiskosningum. Hann hefir sýnilega ekkert íhugað málið, og þess vegna má segja, að það sé ekki ástæða til að þrefa við hann um það. En ef hv. þm. hefði skilið það og reynt að kryfja það til mergjar, þá hefði hann vitanlega fundið, að það er einungis til að gera þessar kosningar auðveldari og léttari í framkvæmd, að kosningareglurnar eru samræmdar við gildandi reglur um alþingiskosningar. Þess vegna er meðal annars sett inn í frv. ákvæði um það, að kjörskrár til bæjar- og sveitarstjórnarkosninga skuli samdar um leið og kjörskrár til alþingiskosninga. En það fannst hv. þm. óskiljanleg ráðstöfun. Frv. er beinlínis miðað við það, að fylgt verði samskonar kjörreglum við sveitarstjórnarkosningar og alþingiskosningar. Og af þeirri ástæðu er kleift að láta þessar kosningar fara fram samtímis. Það er vitanlega nægilegt að hafa eina kjörstjórn í hverjum hreppi eða kjördeild, sem stjórnar hvorumtveggja kosningunum. Auðvitað verða hafðir tvennir kjörseðlar og tvennir atkvæðakassar, annar fyrir þingmannakjör og hinn fyrir sveitarstjórnarkosningar. Hver kjósandi skilar þingkjörsatkvæðaseðlinum í annan kassann og sveitarstjórnarkjörseðlinum í hinn, og þá þarf þetta ekkert að ruglast, en getur hinsvegar sparað kjósendum mikil ómök, sérstaklega í strjálbyggðum sveitum, að ljúka þessum kosningum á einum og sama degi, í stað þess að nú þarf fólkið að eyða til þess tveimur dögum.

Hv. þm. V.-Húnv. leyfði sér að fara með getsakir og dylgjur til meiri hl. allshn., þar sem hann dróttaði því að okkur, að við vildum í raun og veru taka upp hlutfallskosningar, og gengjum af ásettu ráði og með lævísi svo ruglingslega frá þessu kosningalagafrv., að ekki væri annars kostur, ef það yrði að lögum, en að taka almennt upp hlutfallskosningar við sveitarstjórnarkjör. Taldi hann, að meiri hl. allshn. hefði ekki þorað að gera sig beran að þessu, af því að það mundi vera óvinsælt í sveitunum að ógilda núverandi kosningafyrirkomulag. Þessar ósæmilegu getsakir hv. þm. eru alveg út í hött.

Það vakti eingöngu fyrir meiri hl. allshn. að gera kosningafyrirkomulagið sem frjálsast og auðveldast fyrir sveitirnar. Og gæti ég sýnt hv. þm. betur fram á það, að þessar kosningareglur þurfa ekki að leiða til ruglings á nokkurn hátt, ef hann hefði nokkurn vilja til þess að skilja þær, og ef það svaraði fyrirhöfninni; því að það skiptir litlu máli, hvoru megin hryggjar hann liggur.

Þá vildi hv. þm. hengja sig í það, að í niðurlagsákvæðum frv. hefir n. gleymzt að vitna til breytinga, sem gerðar höfðu verið á núv. lögum um sveitarstjórnarkosningar frá 1929, á þingunum 1933 og 1934. — Þetta er að vísu rétt athugað hjá hv. þm., en það var tilætlun allshn. að taka þetta til athugunar og flytja brtt. um það við 3. umr.

Hv. þm. vildi af sinni góðfúslegu mildi afsaka meiri hl. allshn. með því, að hann hefði að vísu hagað sér mannlega í þessu máli, en ekki stórmannlega. Ég verð nú að segja það í þessu sambandi, að mér finnst það hljóma dálítið einkennilega í munni þessa hv. þm. að álasa öðrum fyrir það, að þeir komi ekki stórmannlega fram; það sæmir honum sízt. Og gæti ég gefið nánari skýringar á því, ef hv. þm. óskar þess.

Það hefir komið fram í umr. um þetta mál, að sumir þdm. vilja engar breyt. gera á núv. lögum um sveitarstjórnarkosningar, en aðrir vilja miklar breyt. á þeim. En ég hygg, að almennt muni það þykja heppilegast, að farinn verði meðalvegur í þessu máli, vona ég, að sá gullni meðalvegur, sem meiri hl. allshn. hefir valið, muni reynast happadrýgstur, og vænti, að meiri hl. hv. dm. vilji fara þann veg.