24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Pétur Ottesen:

Það er dálítið eftirtektarvert í þessu sambandi, þegar hv. 6. landsk. er að tala um afturhaldssama menn. Hvað er afturhald, sem kemur hér fram og í hverju kemur það fram hjá t. d. okkur hv. þm. V-Húnv. í þessu efni? Það er bara það, að við viljum láta byggja áfram á því, sem vel hefir reynzt. Þetta er það, sem hv. 6. landsk. kallar afturhald. Ég veit ekki satt að segja, þegar maður lítur burt frá öllum þessum ungæðingshætti, hvaða grundvöll er hægt að fá betri heldur en að byggja á því, sem vel hefir reynzt. Þau þjóðfélög, sem hafa haldið fastast við þessa reglu, að byggja sína löggjöf á því, sem vel hefir reynzt, þau standa nú föstum fótum á þessum byltingar- og umbrotatímum. Afkoma þeirra sker úr um það, að þetta er bezti grundvöllurinn, sem hægt er að fá undir löggjöf. Þegar verið er að vinna á móti því, sem bezt hefir reynzt, er verið að grafa ræturnar undan sjálfstæði þjóðfélagsins. Þetta er það sem hv. 6. landsk. kallar afturhald, og megum við vel við una, sem erum talsmenn þessarar stefnu. Hv. 6. landsk. var ennfremur að tala um, að það væri sjálfsagt, að sett væri í væntanlega löggjöf ákvæði um, að ekki mættu fara fram opinberar kosingar. En hvernig er þetta? Ef nokkur vilji er fyrir því í sveitunum að sporna við því að hafa opinberar kosningar, þá er opin leið til þess að hafa leynilegar kosningar, því að það þarf ekki nema lítið brot af kjósendunum á hverjum tíma til þess að bera fram kröfu um, að kosningarnar skuli vera leynilegur eða hlutfallskosningar. En það að þetta er ekki gert, er af því, að það er vilji manna að hafa kosningarnar eins og nú tíðkast. Og hvaða ástæða er til þess að fara að ganga á móti þessum vilja? Það er ekki hægt að færa nein rök fyrir því að taka þetta vald af borgurum þjóðfélagsins, þar sem vilji er til að viðhalda þessu. Ef á að fara að misnota þetta, þarf ekki nema lítið brot kjósendanna til að krefjast þess, að kosningarnar skuli vera leynilegur. Hv. 6. landsk. benti á, að það hefði ekki komið að sök í kaupstöðunum að allar bæjarstjórnirnar eru kosnar í einu. Sjálfsagt eru margar ástæður til þess, hvernig ástatt er í kauptúnunum, en allir vita, að ástandið er alvarlegt, og má vel vera, að það stafi af þeim byltingum, sem átt hafa sér stað, og að bæjarstjórnum hefir ekki verið tryggð með löggjöf þekking og reynsla í meðferð bæjarmála, eins og gert er með því að ákveða, að ekki skuli fara fram kosning nema nokkurs hl. bæjarstjórna eða hreppsnefnda í einu.