24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Thor Thors):

Ég nenni nú ekki að eltast við þennan hv. þm.; hjá honum hefir ekkert nýtt komið fram, sem ég ekki er áður búinn að svara í minni fyrri ræðu. En þessi ræða hv. þm. ber þess vitni, sem hin fyrri, að hann veit ekki, hvað hann er að tala um.

En það var eitt atriði, sem gaf mér tilefni til að andmæla. Hv. þm. leyfði sér á algerlega óviðeigandi hátt að draga nafn fyrrv. form. Sjálfstfl. inn í þessar umr. Þetta m. a. sýnir, hve þessi þm. er ruglaður í umr., því ég minntist ekki einu orði á fyrrv. form. sjálfstæðismanna. Ég sagði aðeins, að ýmsir sjálfstæðismenn í héraði kenndu í brjóst um þennan þm. og kusu hann við síðustu kosningar.

Hann varð sjálfur til að upplýsa það — og kann ég honum þakkir fyrir —, að fyrrv. form. Sjálfstfl. varaði menn við að kjósa hann á þing; hann hefir séð, að til þingsetu var þessi þm. ónýtur. Er þetta þessum látna merkismanni til sóma, eins og annað, sem hann hefir gert.

Hv. þm. var að segja, að núverandi form. Sjálfstfl. hefði sagt annað; ég ætla ekki að svara fyrir hann, það getur hann sjálfur, og vænti ég, að hann gefi réttar upplýsingar í þessu máli.