24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Hannes Jónsson:

Það er nánast til að bera af mér sakir. Hv. þm. Snæf. vildi leggja orð mín þannig út, að ég hefði borið það á núv. form. Sjálfstfl., að hann hefði haft önnur afskipti af kosningu minni en fyrrv. form. Þetta er alger misskilningur, að ég vilji leggja þennan skilning í, að hann eða aðrir hv. þm. Sjálfstfl. hafi haft slík afskipti af kosningunni norður í Húnavatnssýslu. Enda hefir þm. étið þetta herfilega ofan í sig. Þarf ég ekki annað en benda á ummæli hans, að hann sé þakklátur fyrrv. form. flokksins fyrir afskipti haus af kosningunni, og dettur mér ekki í hug að efast um, að það sé rétt, því ég veit, að hann verður þakklátur hverjum manni, er tekur þessa afstöðu gagnvart Bændafl. En það skal ég segja honum, að hvorki hv. þm. Snæf. né nokkur annar hv. þm. Sjálfstfl. get, með afstöðu sinni ráðið því, hvort ég ber sigur úr býtum eða ekki, þó að þessi hv. þm. hafi flotið á þing á vafasömu spreki og með því að svíkjast aftan að og sparka í fyrrv. þm. kjördæmisins, samflokksmann sinn, og af því að hann jafnframt hafði nokkur fjárráð, þótt ekki væri það eigið fé, heldur tekið af þeim sjóði, sem þjóðin þarf að borga aftur, eftir því sem sagt er. Mætti þessi þm. gjarnan líta í sinn eiginn barm og flokksbræðra sinna og hreinsa þar eitthvað til, eða a. m. k. athuga, hverskonar meðul það eru, sem velta upp á yfirborðið mönnum eins og hv. þm. Snæf. og fela þeim að fara með hagsmunamál bændanna á þingi, manni, sem ekkert skilur og ekkert veit, hvað hentar bændunum, eins og berlega hefir komið fram.

Hann segir, að það sé auðséð, að ég viti ekki, hvað ég sé að tala um, en ég get óhræddur lagt mig til samanburðar við þennan hv. þm. um vitsmuni á málefnum sveitanna, þó ég standi honum ekki jafnfætis, þar sem fjársvik og prettir ráða úrslitum mála.