15.04.1936
Neðri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Gísli Guðmundsson:

Ég hefi leyft mér ásamt hv. 2. þm. Árn. og hv. þm. A.-Sk. að flytja brtt. við 23. og 25. gr. frv En þær eru mjög einfaldar og þarfnast ekki langrar skýringar. Þær eru um það, að þegar óhlutbundnar kosningar í hreppsnefnd fara fram, sé ekki skrifað á kjörmiða kjörskrárnúmer þeirra kjósenda, sem atkvæði er greitt, heldur skrifuð nöfnin í staðinn. Og brtt. okkar fara í þá átt, að kjörmiðanum verði breytt í samræmi við þetta. Það hefir komið í ljós á ýmsum þeim stöðum, þar sem hreppsnefndarkosning hefir verið skrifleg, að hún hefir verið framkvæmd á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, og einnig í þeim kosningalögum, sem nú gilda, að á þessu hafa verið ýms vandkvæði. Það er talsverðum erfiðleikum bundið, og getur a. m. k. tekið æðilangan tíma fyrir fólk, sem ekki er nú vant svona hlutum, að þurfa að leita uppi á stórri kjörskrá nöfn þeirra manna, sem þeir vilja kjósa, ef um fleiri hundruð kjósendur er að ræða í hreppnum. Og mér er kunnugt um dæmi þess, að úr þessu hefir orðið talsverður ruglingur og misskilningur og menn kosið aðra heldur en þeir hugsuðu sér, og það kemur af því, að menn villtust á númerum á kjörskránni. Það er því okkar skoðun, að réttari tilhögun sé, að kjósendur blátt áfram skrifi á kjörmiðann nöfn þeirra manna og heimili, sem þeir vilja kjósa. Og ég get ekki séð, að á því séu neinir áberandi gallar.

Ég sé það nú, að á þskj. 326 eru brtt. frá 2 öðrum þm., sem ganga nokkuð í sömu átt, og álit ég, að þar sé rétt að farið. En mér virðast þær ekki nógu greinilegar, því það getur verið í ýmsum tilfellum ónóg að skrifa nafn mannsins, því oft eru í sömu sveit fleiri menn með sama nafni og föðurnafni; þarf því að taka heimilisfangið fram líka.