15.04.1936
Neðri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Jón Pálmason:

Ég hefi leyft mér ásamt hv. 7. landsk. að flytja hér nokkrar brtt., sem eru á þskj. 326. Eru þær fluttar í samræmi við þær skoðanir, sem ég hélt fram við 2. umr. málsins, og ganga fyrst og fremst út á það að gera greinilega upp á milli kosningar á aðalmönnum og varamönnum í þær nefndir, sem hér er um að ræða, þegar óhlutbundnar kosningar fara fram. Því að ég lít svo á, að það lendi alla tíð í ruglingi um þessar kosningar, ef kosning á aðalmanni og varamanni á að fara fram samtímis.

Ég ætla ekki að fara langt út í þessa till. En ég skal geta þess um þá fyrstu, sem fer fram á, að ekki sé heimilt að skipta hreppi í kjördeildir til óhlutbundinna kosninga, að hún er sprottin af því, að það er annmörkum bundið, að hafa sama hrepp í mörgum kjördeildum, þegar á að kjósa í tvennu lagi aðalmenn og varamenn. Enda lítum við flm. svo á, að engin nauðsyn sé fyrir hendi að skipta hreppi í kjördeildir við sýslunefndar- eða hreppsnefndarkosningar, enda hafa ekki kröfur komið fram um það. Það hefir gengið nokkuð vel að kjósa á þingstað hreppsins fram að þessum tíma. Ef mönnum á annað borð er það áhugamál, að kjördeildarskipting fari fram í stórum hreppi, þá er ákaflega einföld leið til, sem sé sú, að fá fram hlutfallskosningu. Þá skal ég aðeins víkja að því atriði, sem síðasti ræðumaður minntist á, að skrifa nöfn, en ekki númer. Ég tel það að öllu leyti heppilegra fyrirkomulag, og get undirstrikað allt, sem hann tók fram um það. En það er aðeins að athuga við hans till., að þar er gert ráð fyrir, að kosnir séu saman aðalmenn og varamenn, og þess vegna hlýtur seðillinn að verða á annan veg heldur en eftir þeim till., sem við leggjum fram. Hitt má vel vera, að nauðsynlegt sé að kveða skýrar á um það, að heimilisfangið þurfi að skrifa líka. Get ég mjög vel fallizt á það að bæta því inn í till., því að ég finn, að skoðanir okkar falla saman um þetta atriði, en aðalatriðið, sem liggur til grundvallar fyrir þessari till., er það, að eigi að kjósa sitt í hvoru lagi aðalmenn og varamenn.