15.04.1936
Neðri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Thor Thors):

Það, sem brtt. á þskj. 282 og 326 miða að, er aðeins fyrirkomulagsatriði, hvort réttara sé að láta menn skrifa nöfn þeirra, sem þeir vilja kjósa, í stað þess að hafa tölu, eins og er í núgildandi lögum. Mér finnst ekki veigamikið atriði, hvor aðferðin er höfð. En ég hefði haldið, að einfaldara væri að skrifa 10 tölur heldur en að þurfa að skrifa nöfn og heimilisfang 101 manna. Ég held, að það myndi margur kjósandi villast í þeim efnum, ef hann þyrfti að skrifa svo mörg nöfn, og yrði til þess að gera marga seðla ógilda. Maður sér, hve margir ógildir seðlar verða við alþingiskosningar, ekki sízt utankjörstaðarseðlar, og þó er miklu einfaldari kosningaraðferð þar en gert er ráð fyrir hér.

En hvað viðvíkur brtt. hv. þm. N.-Þ. á þingskjali 282, þá er þar ekki stigið sporið til fulls, því að flm. hefir láðst að athuga 2. málsgr. 26. gr., þar sem segir um kosningaúrslit og þess háttar. Ef um óhlutbundnar kosningar er að ræða, fer talning atkv. fram með þeim hætti, að formaður kjörstjórnar les upp töluna, sem á kjörseðlinum er. Ef brtt. á þskj. 282 ætti að ná fram að ganga. Þá er óhjákvæmilegt að leiðrétta einnig þessa gr. — Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um brtt. hv. þm. A.-Húnv.; aðalefni í þeim er sama og brtt. hv. þm. N.-Þ., en þó er vert, að þm. geri sér ljóst, að ef þeir vilja samþykkja það, að kosning aðalmanna fari fram sérstaklega og varamanna síðan, þá er einnig nauðsynlegt að samþykkja 1. brtt. á þskj. 326. Því að það yrði ekki hægt þá, að minnsta kosti mjög óþægilegt, að skipta hreppi í fleiri kjördeildir. Kosningin yrði þá að fara fram algerlega í tvennu lagi. Að því leyti er þessi 5. brtt. á þskj. 326 réttmæt. En út af því, sem háttv. þm. A.-Húnv. sagði, að ónauðsynlegt væri að skipta hreppnum í fleiri kjördeildir en eina og að engin krafa hafi komið fram um það, þá veit þm. ofur vel, að samkvæmt kosningalögum til Alþingis er hreppum skipt í margar kjördeildir, og slíkt byggist eingöngu á því, að það er hagræði fyrir almenning að geta kosið á fleiri en einum stað. Hv. þm. A.- Húnv. hefir hinsvegar gætt þess að samræma 26. gr. við hinar aðrar brtt. sínar. En ég hygg, að síðasta brtt. hans, b-liður undir tölunni 5, eigi ekki við rök að styðjast, því að 3. málsgr. 26. gr., sem hann vili láta fella niður, hljóðar svo:

„Um það, ef kosningu í kjördeild þarf að fresta eða fellur niður, eða ef atkvæðasending kemur ekki til skila til yfirkjörstjórnar í tæka tíð eða ferst með öllu, fer í samræmi við gildandi ákvæði um kosningar til Alþingis.“

Um þetta verður vitanlega að hafa ákvæði í frv., því að það kemur alltaf fyrir, að einhversstaðar er skipt í kjördeildir, þar sem um hlutfallskosningar er að ræða.

Ég hefi nú vikið nokkuð að þessum brtt., og allshn. gerir sem sagt ekki að neinu kappsmáli, hvaða aðferð menn hafa við kosningar á aðalmönnum og varamönnum. En ég vildi aðeins biðja hv. þm., sem bera fram þessar brtt., að gæta þess að samræma þær að öllu leyti frv. eins og það er, svo að hægt sé að samþykkja þær í heild.