15.04.1936
Neðri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég finn ástæðu til þess að þakka það, að flm. þessara till. hafa tekið til greina tvær bendingar frá mér, en þó hafa till. frá mér í sömu átt verið látnar falla áður í d. Það er sem sé komin fram brtt. um það, að kjósa ekki saman varamenn og aðalmenn. Það er ábyggilegt, að sú kosningaraðferð er algerlega óframkvæmanleg, að kjósa þá saman á sama lista, eins og áður var gert ráð fyrir. Um brtt. á þskj. 282 og 326 er það að segja, að ég felli mig að öllu leyti betur við þá síðarnefndu. Mér finnst einmitt þurfa að bæta við 25. gr., þar sem rætt er um að skrifa nöfn þeirra manna á kjörseðlana, sem á að kjósa, að skrifa skuli nafn, föðurnafn og heimilisfang þeirra, sem á að kjósa. Mér er að vísu ljóst, að með því að láta skrifa nöfn í staðinn fyrir númer er dálítið horfið frá þeirri leynd, sem ætlazt er til, að sé yfir kosningum, því að frekar má þekkja rithönd manna af þremur orðum heldur en af tveimur tölustöfum. Hitt er líka vitanlegt, að menn hafa oft flaskað á númerum á mönnum, og hafa fallið atkv. á menn, sem almenningur hefir vitað, að engum datt í hug að kjósa. Menn grípa töluna næstu fyrir ofan eða neðan, og mætti færa mörg dæmi til að sanna það. Þess vegna held ég, að þó að kosningin að einhverju leyti hverfi frá þessari leynd, sem ætlazt er til í kosningum, þá verði það að vera svo frekar en að fá töluverðan hl. af atkvæðum öðruvísi greidd heldur en menn hafa ætlazt til.

Ég hefi áður bent á það, að vafasamt gæti verið að láta þessar kosningar fara fram á síðasta sunnudegi í júní, ef svo stæði á, að þá ættu jafnframt að fara fram alþingiskosningar. En brtt. allshn. á þskj. 325 bætir úr þessu. Ég tel því málið vera komið í sæmilegt horf, ef brtt. á þskj. 326 og 327 verða samþ. Þó mun ég leggja fram skrifl. brtt. þess efnis, að tekið skuli fram á kjörseðli föðurnafn og heimilisfang, svo að ekki verði um villzt, við hvern er átt.