15.04.1936
Neðri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Jón Pálmason:

Það eru hér tvö ágreiningsatriði, sem umr. hafa mjög mikið snúizt um, með tilliti til þeirra brtt., sem fyrir liggja á þskj. 326. Hv. frsm. n. taldi það miklu einfaldara að skrifa númer á kjörseðilinn heldur en nöfn, meðfram af því að það mundi orsaka fleiri ógilda seðla. Ég skal náttúrlega ekki neita því, að vel geti farið svo, að nokkuð fleira verði af ógildum seðlum, ef skrifuð eru nöfn heldur en ella, en ég tel það þó betra heldur en að hitt eigi sér stað, að menn kjósi eftir númerareglunni allt aðra menn heldur en þeir ætluðu. Ég hefi reynslu fyrir því sem kjörstjóri, að menn hafa flaskað ákaflega mikið á þeirri aðferð, og ýmsir kosið allt aðra menn heldur en þeir sjálfir ætluðu. Þess vegna held ég, að það sé sjálfsögð brtt., að það séu skrifuð nöfn, en ekki farið eftir númerum.

Að því er hitt atriðið snertir, sem sé niðurlagningu kjördeilda, er það að segja, að það er að vísu rétt — enda alkunnugt — að það er til nokkurra þæginda að skipta hreppunum í kjördeildir, en ég hygg, að það sé víða svo um land allt að ekki sé mikið kapp um hreppsnefndar- og sýslunefndarkosningar, og undir þeim kringumstæðum, að ekki sé eins mikið kapp um þær eins og alþingiskosningar, þá er ekki nauðsyn á að skipta hreppum í kjördeildir, en sé hinsvegar um að ræða kapp til muna um þær kosningar, þá er nokkurnveginn víst að það muni verða krafizt hlutfallskosningar, þar sem ekki þarf nema 1/10 hluta atkvæðisbærra manna til þess að fá slíkri kröfu framgengt, og þá er um leið hitt fengið, að hreppunum er skipt í kjördeildir skv. þeim reglum, sem gilda um alþingiskosningar.

Að því er það snertir, sem hv. þm. V.-Húnv. var að tala um, að þessar brtt. okkar tækju ekki yfir sýslunefndarkosningar, þá er það að nokkru leyti rétt, þar sem okkur hefir láðst að fella úr 33. gr. 2–3 orð, því náttúrlega er það meiningin, að sýslunefndarkosningar og hreppsnefndarkosningar fari eftir sömu reglum, þ. e. a. s. að ef hreppsnefndarkosningar eru hlutbundnar, þá séu sýslunefndarkosningar það einnig, og ef hreppsnefndarkosningar eru óhlutbundnar, þá séu sýslunefndarkosningar það einnig. Ég vil þess vegna mega vænta þess, að það verði tekin til greina skrifl. brtt. um þetta efni, því þess vegna þarf ekki að fresta þessu máli.

Hvað það snertir, sem þessi sami hv. þm. var að tala um, að síðasta brtt. á þskj. 326 væri ekki réttmæt, þá hefir það nokkuð til síns máls, og það hefir að sjálfsögðu ekki mikla þýðingu, hvort sú málsgr. er felld niður eða ekki, og get ég því, ef það þykir máli skipta, tekið þá till. aftur.

Annað hygg ég svo, að það sé ekki, sem ég þarf að taka til athugunar í þessu efni, en ég skal leyfa mér að leggja hér fram skrifl. brtt. um þetta atriði, og vænti ég, að hæstv. forseti taki hana til greina.