06.05.1936
Sameinað þing: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

1. mál, fjárlög 1937

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég er nokkuð undrandi á afgreiðslu hv. fjvn. á því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir. Hv. frsm. töldu báðir, að það hefði verið eitt mestu viðfangsefni fjvn. að koma fyrir þeim greiðslum, sem eru á 18. gr. Ég hélt satt að segja að það hefði verið eitthvert minnsta vandaverkið að gera till. um það, hvaða greiðslur skyldu vera á 18. gr. En það verð ég að segja, að ekki virðist líkt því, að þröngt sé í búi, þegar litið er á afgreiðslu n. á þessari aðalbitlingagrein. Þar er hrúgað saman mönnum, sem ýmist hafa ekki áður komið á fjárlög eða þá verið á 15. gr. Ég á hér ekki við þá öldruðu menn, sem þjóðinni er á einn eða annan hátt skylt að sjá um að einhverju leyti, heldur við þau fjárframlög til annara einstaklinga, sem þarna er skellt inn undir einhverju yfirskini til þess að tryggja þeim lífeyri og ekki er hægt að kalla neitt annað en bitlinga.

Hv. fjvn. hefir ekki lagt eins mikla alúð við ýms önnur mál. Skal ég í því sambandi benda á, að hér kemur fram till. um skiptingu á læknisvitjunarstyrk í Ögurhéraði, og er þar algerlega farið framhjá till. sem ég gerði hér í fyrra og fékk samþ. Er hér farið framhjá þeim, sem versta aðstöðu hafa til læknisvitjana, sem er Nauteyrarhreppur og lagt til, að af honum séu dregnar l00 kr., en færðar á Reykjarfjarðarhr., sem hefir miklu betri aðstöðu. Í þessu felst svo mikil ósanngirni að ef hv. n. vill ekki taka þessa till. aftur, þá skora ég á hv. þm. að fella hana. Mér finnst það furðulegt vinnulag, að ekki skuli vera leitað til þm. hlutaðeigandi kjördæmis, þegar þannig er farið að hrófla við þeim styrk, sem verið hefir.

Ég á hér nokkrar brtt., og er þá fyrst að telja brtt. á þskj. 547,I, að veittar séu 25000 kr. til símalínu frá Sandeyri til Hesteyrar, og til vara allt að 7000 kr. til línu frá Sandeyri að Stað í Grunnavík, og vil ég fara um þessa till. nokkrum orðum. — Ég verð að lýsa undrun minni yfir þeirri meðferð, sem till. um símalagninguna frá Sandeyri til Hesteyrar hefir sætt hjá meiri hl. fjvn. Í haust gerði landssímastjóri eindregna till. um það, að fjárveiting til þessarar símalínu væri þá tekin inn á fjárl. yfirstandandi árs, og setti hana sem þá þriðju í röðinni í till. sínum. Meiri hl. n. lýsti því þá yfir, að þeir gætu ekki gengið inn á að veita næga fjárhæð til nýrra símalagninga, nema til hinna tveggja fyrstu. eða fjölsímans milli Rvíkur og Borgarnes. Hinsvegar lét n. það ótvírætt í ljós, að þessi lína mundi verða tekin upp á fjárl. ársins 1937. og voru það ágreiningslaus ummæli n., að það yrði gert, og landssímastjóri hélt, að þetta yrði gert.

Nú leggur landssímastjóri til, að þessi lína verði sú fyrsta á fjárlögum ársins 1937, og segir, eins og ég þegar fyrir löngu hefi skýrt þinginu frá, að þörf héraðsbúa í þessu afskekkta héraði fyrir símasamband sé meiri en nokkurra annara, sem ekki hafa nú þegar komizt í símasamband, og að það er vitanlegt, að ef þessi símalína verður ekki lögð, þá verður landssíminn líklega að kosta mörgum þús. til endurbóta á loftskeytastöðinni á Hesteyri. Á síðasta ári var lítið við hana gert, aðeins látnir tveir nýir hlutir í mótorinn, því hann var hættur að ganga, en að öðru leyti var viðgerð látin bíða. Landssímastjóri sagði, að símalínan yrði tekin á fjárlög á þessu ári, og þá hugðu menn, að þessu mætti hlíta. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þau rök sem landssímastjóri færir fyrir nauðsyn þess fyrir landssímann, að þessi lína sé lögð, en ætla að lesa hér svarbréf, sem ég fékk frá landssímastjóra við bréfi, sem ég skrifaði honum, þegar ég frétti, að ekki ætti að taka þessa símalinu upp á fjárlög ársins 1937. Bréf landssímastjóra hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Sem svar við bréfi yðar, herra alþm., dags. í dag (þ. e. 5. maí 1936), viðvíkjandi nauðsyn þess, að símalínan Sandeyri-Hesteyri verði lögð þegar á næsta ári, skal ég endurtaka ástæðurnar frá sjónarmiði landssímans, en þær eru þessar:

1. Loftskeytastöðin á Hesteyri er svo úr sér gengin, að ekki verður komizt hjá að kosta allmiklu fé til aðgerðar á henni, ef starfrækja þarf hana lengur en til næsta árs.

2. Strax og þessi lína er lögð lækkar starfrækslukostnaður landssímans á þessum stað (Hesteyri) sennilega um ca. kr. 2500–3000 á ári.

3. Á næsta ári þarf landssíminn að nota starfskrafta loftskeytastöðvarstjórans á Hesteyri í sína þjónustu á öðrum stað en verði ekki hægt að leggja loftskeytastöðina niður, þá má búast við, að landssíminn verði að taka nýjan mann til þess starfa, en stöðvarstjórinn á Hesteyri er símritari á launalögum, og landssíminn getur ekki kastað gömlum starfsmanni út á klakann, og yrði því að greiða honum kaup, þó hann hefði ekki starf fyrir landssímann.“ (Ég skal taka það fram, að þessi maður er búinn að vera þarna starfsmaður í 15 ár).

4. „Ég hefi gert ráð fyrir, að þessi lina yrði sú fyrsta af nýjum símalínum, ekki sízt þar sem ég skildi ummæli fjvn. á liðnu hausti á þá leið, að svo yrði, enda er það nauðsynlegt vegna hagsmuna landssimans.

5. Út frá Hesteyri gengur símalína til Látra í Aðalvík, og kæmist hún í beint talsamband við símakerfi landssimans, þegar talsímalína hefir verið lögð að Hesteyri.“

Þetta eru þær ástæður, sem landssímastjóri færir fyrir nauðsyn þessarar símalínu, og má bæta því hér við, að fullvíst er að þessi lina gefur miklu meira en vexi og viðhald í hreinar tekjur. Ég er sannfærður um, að beinn hagnaður landssímans af þessari línu, þar með talin þau gjöld, sem hann nú verður að gjalda vegna starfrækslu loftskeytastöðvarinnar, verður ekki minni en 5000 kr. á ári.

Þá er þörf héraðsbúa. Það er öllum kunnugt, sem nokkuð þekkja til hér á landi, að þarna er einna verst með samgöngur, strjálbýli mikið og vegir engir, nema reiðgötur, annars vegleysur og hin verst, aðstaða.

Þrátt fyrir þessa aðstöðu héraðsbúa og þrátt fyrir eindregna till. landssímastjóra um, að þessi lína sé lögð, og þrátt fyrir það, þótt fullljós rök liggi fyrir um það, að landssíminn hefir mikinn fjárhagslegan hagnað af þessari línu, þá hefir meiri hl. fjvn. neitað að taka á fjárlög 1937 fjárveitingu til þessarar línu. — þrátt fyrir það, þótt allt þetta væri fyrir hendi. Loks þegar sýnt er, að ekki fæst tillag til allrar línunnar Sandeyri-Hesteyri, þá bera sjálfstæðismenn í n. fram varatill. um, að tillaginu verði skipt á tvö ár og línan Sandeyri-Staður í Grunnavík verði sett á fjárlög þau, sem hér liggja fyrir. Sósíalistar og framsóknarmenn fella einnig þessa till. Reyndar höfðu sjálfstæðismenn fengið skakkar upplýsingar um, hvað þessi hluti línunnar mundi kosta, og töldu, að hún mundi kosta um helming allrar hinnar fyrirhuguðu línu, en ég hefi nú fengið þær upplýsingar hjá landssímastjóra í gær, að þessi hluti símalínunnar muni kosta um 7000 krónur. Ég get ekki litið á þessa framkomu meiri hl. n. bæði gagnvart hagsmunum landssímans og brínni þörf héraðsbúa öðruvísi en sem þá óvönduðustu, ósanngjörnustu og ósæmilegustu hlutdrægni í meðferð opinberra mála, og ég á bágt með að trúa því, að aðaltill. mín verði ekki samþ., en þó hefi ég sett fram varatill. á þskj. 547, um 7000 kr. fjárveitingu til línunnar Sandeyri-Staður í Grunnavík. Þetta mundi vera nokkur bót, því við það kemst annar hreppurinn í simasamband.

Auk þeirra óþæginda og þess taps, sem af því leiðir bæði fyrir héraðsbúa og landssímann, að þessi símalína er ekki lögð, þá er enn eitt atriði, sem gerir það óumflýjanlegt að leggja hana, og það eru læknisvitjanir héraðsbúa. Það hefir oft komið fyrir, að menn hafa farið heila dagleið til að vitja læknis til Hesteyrar, en þegar þangað var komið, fengu þeir að vita, að læknirinn hafði verið sóttur á næsta bæ við heimili þeirra, og hafa þeir þá ekki átt annars kost en að biðu, þangað til læknirinn kæmi heim aftur. Þarna hefði ekki þurft meira en klukkutímu til að ná í lækni, ef sími hefði verið, en í þess stað hefir farið til þess heill sólarhringur eða jafnvel meira. — Ég get ekki skilið afstöðu meiri hl. n. til þessa máls á annan hátt en þann, að hér sé um að ræða þá óvönduðustu og leiðinlegustu meðferð fjármála, sem beitt hefir verið hér á þingi.

Þá á ég tvær brtt. á þskj. 519; eru það till. XV. 1–1. Sú fyrri er um styrk til Hnífsdalsbryggju. Ætla ég ekki að fara um það mörgum orðum, hve nauðsynlegt það er héraðsbúum að fá þá bryggju, sem geti nægt fyrir útveg þeirra. Fjvn. hefir lagt til, að í þessu skyni væru veittar 5000 kr., en það er algerlega ónóg. Viðunandi viðgerð kostar ekki minna en um 30 þús. kr. Þess vegna er þetta fé ekki nothæft, en ef samþ. væri, að þetta skyldi vera fyrri greiðsla af 10 þús. kr., þá er hugsanlegt, að fé mætti fá til að framkvæma verkið, þótt fjárveitingin væri ekki fullkomnuð fyrr en 1938. — Sama er að segja um bryggjuna í Súðavík. Það er ekki til neins að veita til hennar 1000 kr., nema vissa sé um áframhald. Fyrir nokkrum árum voru gerðar áætlanir um bryggjukostnað á þessum stað, og í þeim áætlunum var gert ráð fyrir, að bryggjan mundi kosta 19–22 þús. kr. En með því að kaupa nú bryggju með mjög vægu verði, má komast af með 14–15 þús. kr., en 1000 kr. eru ekki til neins, nema vissa sé um áframhaldandi styrk til þessa mannvirkis. Ég hefi þess vegna gert þá brtt., að þetta sé fyrsta greiðsla af 5000 kr.

Þá á ég brtt. á sama þskj. XXII, um hækkun styrk til barnaskólahúsa utan kaupstaða. Þannig stendur á þessu, að í Snæfjallahreppi er ekkert skólahús, en ungmennafélagið þar ætlar nú á næsta ári að byggja samkomuhús, og hreppurinn hefir komizt að samkomulagi við félagið að hafa þarna sambyggingu, og kemst hreppurinn þannig léttar út af skólabyggingunni. Er hlutur hreppsins áætlaður 4000. kr., en skólahús sem sjálfstæð bygging mundi vart kosta undir 7–8 þús. kr. Nú er það svo, eins og fræðslumálastjóri hefir upplýst, að umsóknir um styrki til skólahúsbygginga eru miklu fleiri heldur en það, sem veitt hefir verið á fjárlögum undanfarin ár, og ýms skólahús eiga ógreidda styrki, þar sem skólahús hafa verið byggð. En vegna þess að svona sérstaklega stendur á, þá hefi ég borið fram þessa till. sem ég vænti, að verði samþ.

Í sambandi við það, sem ég gat um bryggjuna í Hnífsdal, þá vil ég geta þess, að ég hefi einnig leyft mér að flytja brtt. við 22. gr. frv., um það, að ríkissjóður taki ábyrgð á 20 þús. kr. til þessa mannvirkis. Það er búið að byggja fyrir 82 þús. kr., og hreppurinn hefir borgað af því 55 þús. kr., eða 23 kostnaðar, en þess er ekki að vænta, að hreppurinn geti fengið lán til þess að standa undir ? af 30 þús. kr., nema því aðeins að ríkissjóðsábyrgð fylgi. Og ég tel eftir atvikum, að það sé ekki ósanngjarnt að fara fram á það, að ríkið ábyrgist 20 þús. kr., þegar hreppurinn jafnframt hefir lagt 75 þús. kr. í mannvirkið. Það verður talsvert minna heldur en ? af þeim kostnaði, sem hreppurinn sjálfur hefir lagt fram.

Eins og hv. þm. er vitanlegt, þá hefir brimbrjóturinn í Bolungavík skemmzt svo vegna ófyrirsjáanlegra atvika, að viðgerðin hefir kostað 140 þús. kr. Af þessari upphæð hefir alþingi lofað að veita sem styrk 70 þús. kr., eða helming kostnaður. Hreppurinn er þegar búinn að leggja fram af sínum hluta 50 þús. kr. til þessarar viðgerðar, en á eftir að leggja fram 20 þús. kr. En það er lítil von til þess, að hreppurinn geti fengið lán til þess nema því aðeins, að hann fái ábyrgð ríkissjóðs fyrir þessum 20 þús. kr., sem eftir eru, en það er, eins og ég gat um í hinn tilfellinu, minna heldur en ? kostnaðar hreppsins sjálfs við þetta mannvirki. Og ef þetta er borið saman við till. fjvn. um ábyrgð fyrir Hrófbergshrepp, þá er ólíku saman að jafna, því ábyrgðin til Hrófbergshrepps er ? af öllum kostnaði við mannvirkið, en hér er aðeins farið fram á ? kostnaðar, sem viðkomandi hérað á að bera.

Þá flyt ég ásamt hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. till. á þskj. 519, XLVII., um það, að ríkissjóður taki ábyrgð gagnvart S. Í. F. eða þeim banka, sem veitir því lán til þess að geta greitt út fisk til fiskeigenda, sjómanna og útgerðarmanna um leið og honum er afskipað, þegar svo stendur á, að selja verður fiskinn gegn „clearing“ eða vöruskiptum og bíða þarf mánuðum saman eða kannske heilt ár eftir greiðslu.

Ástæður fyrir því, að við berum fram þessa till. um að ríkissjóður taki ábyrgð á greiðslutálmunum og gengissveiflum í þeim löndum, sem fiskur er seldur til og ekki er hægt að fá greitt andvirði fiskjarins hjá, nema gegn „clearing“ eða vöruskiptum eru þessar:

Eins og nú er komið er það nokkurnveginn fullvíst, að Spánverjar og Ítalir takmarka innflutning okkar á saltfiski frá því, sem þessi innflutningur var 1933, Spánverjar um ca. 25 þúsund smálestir og Ítalir um ca. 10 þúsund smálestir. Við verðum því að leita nýrra markaða fyrir saltfisk, sem í meðalaflaári nemur um 35 þús. smálestum, en það er fyrir meira en helming þess saltfiskjar, sem framleiddur er í landinu. Útflutningur á freðfiski og hertum fiski getur ekki nú í bili bætt verulega úr þessum vandræðum, en að því verður að stefna að fara inn á þessar brautir í verkun fiskjarins eftir því, sem markaðir fyrir þá vöru vinnast. það er því aðkallandi nauðsyn að nota alla þá saltfiskmarkaði nú fyrst um sinn, sem á nokkurn hátt standa okkur opnir, jafnvel þó sumum þeirra fylgi miklir annmarkar eða jafnvel áhætta, svo sem greiðslutálmanir eða langir gjaldfrestir, „clearing“-fyrirkomulag og vöruskipti. Þeir markaðir fyrir saltfisk sem við nú teljum nokkurnveginn víst um, að við höfum; og sem ennþá ekki setja neinskonar tálmanir á greiðslu fiskjarins, taka vart meira af saltfiski en sem svarar 20 þús. smálestum. Það er því fyrirsjáanlegt, að við verðum að nota einnig markaði þeirra landa, þar sem ýmiskonar tálmanir eru á greiðslum og jafnvel getur verið hætta á gengissveiflum frá söludegi til greiðsludags.

Í þessu sambandi má benda á, að útflytjendur fiskjar hafa ekki fengið greiðslu fyrir fisk, sem seldur var og afskipaður fyrir og um síðustu áramót, og þá auðvitað ekki heldur á fiski, sem síðan hefir verið afskipað til sömu landa. Bankarnir telja sér ekki fært að veita fiskeigendum eða S. Í. F. lán út á þessar sölur þar til greiðsla kemur þeim í hendur frá viðskiptalandinu, án þess ríkisábyrgð sé fyrir hendi, og því engin leið fyrir fiskeigendur annað en bíða eftir greiðslunni, því eins og markaðstakmörkunum er nú komið, er ekkert vit í að hafna sölum, þó þeim fylgi þessi illu kjör.

Af þessu leiðir, að þess er engin von, að þeir menn sem hafa eigið fé leggi það í fiskkaup. Afleiðingin verður því sú, að útgerðarmenn og sjómenn geta ekki selt aflann óverkaðan, en verða að biða þess að selja hann á erlendum markaði, en afleiðing þess er þá fyrirsjáanlega sú, að þeir fá ekki greiðslu á sínum hluta aflans fyrr en eftir marga mánuði, og í mörgum tilfellum ekki fyrr en ári eða lengur frá því, að þeir öfluðu fiskjarins. Undanfarin ár hafa fiskeigendur til jafnaðar orðið að bíða 5–6 mánuði eftir greiðslu frá þeim tíma, að þeir höfðu fiskinn verkaðan í húsi, en með þeim nýju greiðslutálmunum, sem áður er getið, er það sýnilegt, að eftirleiðis verða þeir að bíða greiðslunnar miklum mun lengur. Þar sem nú vitað er, að útgerðarmenn og sjómenn (hlutamenn) geta ekki selt aflann óverkaðan, en verða að selja hann á erlenda markaði við nálega hvaða greiðslukjörum, sem í boði eru, þá er það fyrirsjáanlegt, að útgerðarmenn og sjómenn geta með engu móti haldið uppi saltfiskframleiðslunni, nema ríkisvaldið taki á sig óþægindi greiðslutálmananna og þá áhættu af gengissveiflum, sem orsakast kunna af því, að fiskurinn fæst ekki greiddur við móttöku í kauplandinn, eða af því að hinir erlendu kaupendur geta ekki vegna ráðstafana, sem stjórnarvöld kauplandsins gera, tryggt fiskseljendum andvirði fiskjarins innan ákveðins tíma, og ekki heldur tryggt þá gegn gengissveiflum þar í landi.

Það er öllum vitanlegt, að þorskveiðarnar gefa útgerðarmönnum tap, í flestum tilfellum stórtap, á þessu ári, ennfremur að sjómenn (hlutamenn) hafa í langflestum tilfellum svo lélega atvinnu, að nálega ekkert er afgangs fæði og fatasliti sjálfra þeirra, og þeir, sem vinna fyrir kaupi, eru litlu betur staddir, því útgerðarmenn, sem tapa á útgerðinni og geta ekki selt aflann nema gegn greiðslum ári eftir, að hans er aflað, munu ekki geta greitt kaupið, þó um sé samið. Það liggur því í augum uppi, að þorskveiðaútgerðin stöðvast að svo miklu leyti, að það veldur ófyrirsjáanlegu atvinnutjóni, ekki einasta hjá útgerðarmönnum og sjómönnum, heldur og hjá þeim fjölmenna hóp vinnandi stétta, sem hafa atvinnu við verkun fiskjarins í landi.

Það er álit okkar flm. og einnig margra annara þm., að ekki verði hjá því komizt, að Alþingi geri ráðstafanir til hjálpar, og það, sem hér er farið fram á, er sú allra minnsta hjálp, sem við flm. teljum, að veita megi, svo von sé um, að þessi einna stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar bíði ekki þann hnekki nú þegar, sem ófyrirséð er, hvaða afleiðingar hefir fyrir atvinnulíf þjóðarinnar.

Má vera, að einhver sem lítt hefir athugað þetta mál, vilji efast um, að rétt sé, að ríkissjóður taki á sig ábyrgð á gengisfalli, sem verða kynni í einhverju af kauplöndum fiskjarins. Fyrst er því til að svara, að sem stendur eru ekki horfur á gengisfalli, og má með sama rétti segja, að til þess muni ekki koma eins og að til þess geti komið. Í öðru lagi þá er það öllum vitanlegt, að útflytjendur íslenzkra afurða hafa á undanförnum árum langt frá því fengið það verð fyrir þann gjaldeyri, sem vörur þeirra hafa fært inn í landið, sem þeir mundu hafa fengið, af ríkisvaldið hefði ekki tekið gjaldeyrinn af þeim og skammtað þeim verð á honum.

Loks skal á það bent, að ríkisvaldið hefir ýms ráð til þess að forða ríkissjóði frá tapi af gjaldeyrisábyrgð þeirri, sem hér er farið fram á, þó svo færi, að gjaldeyrir einhvers þess lands, sem kaupir fisk gegn „clearing“-greiðslum, félli í verði á þeim tíma, sem liður frá söludegi til greiðsludags. Ég hefi áður bent á eina slíka leið, en ég veit, að hv. þm. er þetta ljóst, og því þarf ég ekki að fjölyrða um það að þessu sinni. Þó hér sé aðeins um ábyrgðarheimild fyrir ríkisstj. að ræða, þá er það eindreginn vilji flm., og að ég vona, allra þeirra, sem till. greiða atkv., að þessi ábyrgðarheimild verði þegar notuð, og ef till. verður samþ. hér í sameinuðu þingi, sem ég ekki efast um, þá treysti ég því, að ríkisstj. geri hana ekki að dauðum bókstaf. Þess vegna er það, að flm. hafa farið þessa einfaldari leið að sama marki, en ekki flutt till. til þál. Landsbankinn hefir látið í ljós, að hann muni lána S. Í. F. fé til þess, að hægt verði að greiða fiskeigendum þann fisk, sem seldur verður með „clearing“-fyrirkomulagi við afskipun, eins og fisk, sem seldur er gegn staðgreiðslu, ef þessi ábyrgð ríkissjóðs fæst, en að ella treysti hann sér ekki til að lána S. Í. F. fé út á þessar fisksölur.

Það eru alveg sérstaklega Vestfirðingar, Norðlendingar og Austfirðingar sem framleiða fisk til þeirra landa, sem sett hafa greiðslutálmanir og ekki er hægt að selja til nema gegn „clearing“.

Ég held, að það hafi svo ekki verið fleiri till., sem ég þurfti að mæla fyrir. Ég vona, að ég þurfi ekki að vera fjarverandi vegna lasleika, þegar hv. frsm. fjvn. gerir grein fyrir ástæðum n. til þess að fella niður símalínuna frá Sandeyri til Hesteyrar. Ég fæ ekki betur séð en að allt mæli með því, að þessi símalína sé látin sitja fyrir, bæði vegna stórfelldra hagsmuna landssímans og hinnar brýnu nauðsynjar héraðsbúa fram yfir alla aðra, sem koma til greina í till. n.