06.05.1936
Sameinað þing: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, fjárlög 1937

*Hannes Jónsson:

Ég á þrjár brtt. við þessa umr. fjárl. Sú fyrsta er á þskj. 519 undir VIII, um það, að til vesturhópsvegar verði veittar 3000 kr. Það þarf ekki langa ræðu um þetta, því að ég lýsti því við 2. umr., hversu mikil þörf er á þessu. Þó vil ég rifja upp aðstæðurnar þarna með nokkrum orðum. Vegurinn frá Vatnshorni að Vesturhópsvatni er 12 km.; frá vegamótum hjá Vatnshorni og út að Hörgshól eru 8 km.; mikið af þessari leið er lagður vegur. Svo er 1½ km. langur melur, að meðtöldum mel, sem er að mestu leyti bílfær, en sem eru aftur frá þessum mel fyrir neðan Böðvarshóla 2½ km, sem verður að leggja veg vestan Reyðarlækjar og út að Hvolsbrún, sem byrjar við suðurenda Vesturhópsvatns. Nú er svo ástatt þarna, að ef vegurinn kemst út á þessa mela fyrir neðan Böðvarshóla, þá er hægt að fara á bíl með því að fara austur fyrir Reyðarlæk og út melana, sem eru þar að austanverðu, og yfir Reyðarlæk aftur. Með þessari litlu fjárveitingu er því hægt að koma þjóðveginum í samband við sýsluveginn, sem liggur frá suðurenda Vesturhópsvatns norður um Vesturhópið, og á svo að liggja alla leið norður á Vatnsnestá. Við þessa brtt. mína er brtt. á þskj. 347, V. um það, að við þetta bætist: lokagreiðsla. Ég get ekki skilið, hvað hv. 2. þm. Reykv. meinar með þessari till., því að eins og ég hefi tekið fram, þá er eftir að leggja af veginum 2½ km., þó að hann sé kominn út á þessa mela fyrir neðan Böðvarshóla. Sá spölur verður lagður, þegar fé er fyrir hendi, og ekki verður þessi vegarspotti tekinn út af þjóðvegatölu með þessari aths. við fjárveitinguna að þessu sinni, enda mundi það vera einsdæmi um nokkurn þjóðveg, ef samþykkja ætti annað eins og þetta. Vitanlega kemur slík samþykkt ekki til greina fyrr en búið er að leggja veginn alveg, og í raun og veru er aldrei um lokagreiðslur að ræða, því að á eftir kemur svo árlegt viðhald á vegunum. Mér er sem sagt ómögulegt að skilja, hver tilgangurinn er með flutningi þessarar brtt. Ef þetta á að vera fyndni út af þeim umræðum, sem orðið hafa vegna samskonar fjárveitingar til Vesturhópsvegar á síðasta þingi, þá er það léleg fyndni og þynnri en nokkur útblásinn líknarbelgur. Hún er eins og sápubóla, sem hv. þm. geta skemmt sér við, meðan litbrigði hégómlegrar málfærslu Tímaliðsins leika um hana. Annað og meira verkefni getur hún ekki haft, og því er þegar fullnægt með því að láta prenta till., og ætti hv. þm. að taka hana aftur, áður en til atkvgr. kemur.

Önnur brtt. mín er á þskj. 547 undir III, og er hún um 2000 kr. styrk til Skarphéðins Bjarnasonar vegna framfæris fávita. Ég hefi orðið var við, að fluttar hafa verið framsöguræður fyrir svipuðum brtt., og ég verð að segja, að mér finnst þetta mjög í anda þeirrar stefnu, sem nú er upp tekin, að Alþ. leggi fram nokkuð aukið fé til þess að framfæra þessa vesalinga, og ég hygg, að þessi leið, að veita lítilsháttar fjárstyrk til aðstandenda þessara aumingja, muni verða hagkvæm fyrir hið opinbera og valda minni útgjöldum. Í þessu tilfelli er um barn að ræða 12–l4 ára gamalt, og aðstandendur þess eru bláfátæk móðir, sem er kominn á efri aldur, og verkamaður, sem hefir engar tekjur aðrar en þær, sem hann getur aflað sér með vinnu við slátrun á haustin og afgreiðslu skipa á sumrin. Þetta fólk hefir undanfarin ár auk þess reynt að hafa ofan af fyrir sér með því að fara til Siglufjarðar til síldarvinnu, en upp úr því hefir verið lítið að hafa síðustu ár, svo að þau eiga mjög í vök að verjast um það að komast af, ekki sízt núna, þegar barn þetta hefir þroskazt og verður örðugra viðureignar.

Ég vænti þess, að þingið taki þessari brtt. minni vel, því að hún er réttmæt, og hún er líka í fyllsta samræmi við þá stefnu, sem þingið virðist vera að taka upp gagnvart þessum málum.

Þá kem ég að þriðju brtt. minni. Hún er á sama þskj., undir VI, um að auka framlag til brúargerða úr 90000 kr., sem n. leggur til, upp í 96000 kr. Ég ætlast til þess, að þessar 6000 kr. verði látnar ganga til þess að byggja brú á Hörgshólsá og Grímsá, sem eru á Vesturhópsveginum, því að það liggur í augum uppi, að þegar vegurinn er lagður, þá er nauðsynlegt, að þessar brýr komi jafnóðum, og það er vitanlega heppilegast að byggja þær báðar í einu, þó að komast mætti af með aðra í þetta skipti. Hér er um svo litla fjárhæð að ræða, að ég hygg, að það ætti ekki að verða neitt örðugt fyrir hv. þm.samþ. þetta. Skal ég svo að lokum benda á það, sem ég hefi gert áður, að Vestur-Húnavatnssýsla fær af 9000 kr., sem eru á fjárl. yfirstandandi árs, ekki nema 300 kr. á þessum fjárl., sem hér liggja fyrir. Framlagið hefir verið lækkað um 2/3, eða 6000 kr., og þar að auki er framlagið til sýsluvega lækkað um 6000 kr. fyrir aðgerðir Alþingis viðkomandi sýsluvegasjóðsmálinu. Það er því ekki nema fyllsta sanngirni gagnvart þessu héraði, að Alþingi verði við kröfu minni.