07.03.1936
Efri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

Magnús Guðmundsson:

Ég hélt, að ég hefði ekki gefið tilefni til að vekja deilur um málið sjálft eða forsögu þess, þótt ég víki að því formsatriði, sem hér er um að ræða. En það hefi ég þó áunnið, að í stað þess, að meiri hl. n. ætlaði upphaflega að leggja frv. fyrir þingið með þeim breyt., sem stj. telur nú nauðsynlegar, lagði hann það fram óbreytt, eins og skylt og sjálfsagt var, og ætlar að koma með breyt. síðar.

Auðvitað kemur það þessu máli ekki hið minnsta við, hvort konungur hefir hér búsetu eða ekkí, enda hefir hæstv. forsrh. verið á konungsfundi síðan lögin voru gefin út. En með flutningi frv. er breytt út af fastri venju frá 1904. Hvað sem einhver lögfræðingur kann að hafa sagt hv. 2. þm. S.-M, er það föst hefð og fastur skilningur á 23. gr. stjskr., að stj. sjálf leggi bráðabirgðalög sín fyrir þingið.

Hv. þm. S.-Þ. var eitthvað að tala um, að ég hefði verið gæfulítill í þessu máli undanfarið. En ég hefi þó borið gæfu til þess að hafa meiri hl. þingsins með mér í því. Annars minnir mig, að hv. þm. S.-Þ. skipaði í ráðherratíð sinni mann til að hafa eftirlit með skeytasendingum, eða a. m. k. báru landsreikningarnir vott um það. Hv. þm. virðist hafa verið frekar gæfulítill í þeirri stjórnarathöfn, eins og fleirum, eftir því sem hann lýsir nú árangrinum.