07.03.1936
Efri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég hefi ekki getað hlustað á þessar umr., en mér er kunnugt um, að fram hafa komið ummæli í þá átt, að ekki væri löglegt að aðrir en stj. legðu bráðabirgðalög fyrir Alþingi. Einnig heyrði ég frá n., að tilætlunin hefði verið að flytja frv. öðruvísi en það var upphaflega. Ég hefi alls ekki á móti því, að málinu sé breytt í n., enda bað ég landssímastjóra að fylgjast vel með lögunum, því að verið gæti, að þeim yrði breytt á næsta þingi, ef þörf þætti.

Það er áreiðanlega heimilt samkv. þeim reglum, sem gilda á Norðurlöndum, að breyta bráðabirgðalögum, og eins það, að aðrir flytji þau en stj. En aðalatriðið er auðvitað, að þingvilji sé á bak við þann tilgang, sem í lögunum felst. Og jafnframt er því fullnægt, þó að 1. séu lögð fyrir í öðru formi heldur en þau voru gefin út sem bráðabirgðal. Og það er alltaf sú einfaldasta og bezta lögskýring, og sú skýring, sem okkur lögfræðingunum er kennd og heilladrýgst er, að fara yfirleitt eftir þeim tilgangi, sem liggur á bak við ákvæðin, og hvort honum er fullnægt. Það er alltaf aðalatriðið.