07.03.1936
Efri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

Forseti (EÁrna):

Út af ummælum, sem hafa hér fallið frá hv. 1. þm. Skagf., sem ef til vill má skilja svo sem hann álíti brot á stjskr. að taka slíkt mál til meðferðar sem þetta, vil ég taka það fram, að þegar frv. var útbýtt, athugaði ég það strax, hvort nokkuð væri til fyrirstöðu, að frv. mætti koma fyrir með tilliti til ákvæða stjskr. um slík mál, það segir svo í 23. gr.: „Þegar brýna nauðsyn ber til, getur konungur gefið út bráðabirgðalög milli þinga. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir næsta Alþingi á eftir. Nú samþykkir Alþingi ekki bráðabirgðalög, og falla þau þá úr gildi.“

Um þetta atriði, sem mönnum verður nú tíðrætt, er ekkert í stjórnarskránni annað en það, að frv. skuli ætíð lagt fyrir næsta Alþingi. Það er rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., að það hefir verið venja hingað til, að hlutaðeigandi ríkisstj. hefir lagt slík frv. fyrir sjálf. En það virðist ekki geta gengið neitt í bága við stjskr., þó að n. eða einstakur maður jafnvel flytji frv. f. h. stj., þegar því er yfir lýst, eins og um þetta frv. Ég hefi því ekki getað séð, að neitt væri því til fyrirstöðu, að frv. yrði tekið fyrir.