07.03.1936
Efri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Magnús Jónsson:

Það skulu verða aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að láta hv. þm. S.-Þ. hafa mig út í að fara að endurtaka gömlu umr., sem hafa farið fram þing eftir þing um ömmufrv. Ég get afsakað það við hv. þm., að hann heyrði ekki það, sem ég sagði, því hann var náttúrlega ekki í d. frekar en vant er, þegar ég flutti mína ræðu. Ég sé hálfgert eftir þessum fáu orðum mínum, þó að þau hafi verið þörf leiðrétting. Þær eru nú ekki orðnar svo margar ánægjustundirnar hjá þessum gamla manni, að það sé gustuk að vera að skyggja á þær. Hv. þm. sagði, að svo framarlega sem hægt væri samkv. l. að rannsaka skeyti eins og þau, er hér ræðir um, þá væri alveg eins hægt að fara inn á símstöð og taka hvaða skeyti sem send væru, hvort sem tilefni væri fyrir hendi eða ekki. Ég er nú enginn lögfræðingur, en mér skilst, að hér sé mikill munur á. Mér skilst það vera svipaður munur á því og að úrskurða má mann í gæzluvarðhald, en það er hinsvegar ekki hægt að taka hvaða mann sem er og setja í gæzluvarðhald, þó að dómari geti úrskurðuð mann í gæzluvarðhald, sem grunaður er um eitthvað. Það þýðir það, að það má ekki senda lögregluna á eftir hvaða manni sem er úti á götu og setja hann í gæzluvarðhald. Hv. þm. var að tala um, að forstjóri loftskeytastöðvarinnar hafi sagt, að hann vildi heldur láta setja sig af heldur en að hleypa nokkrum manni í skeytin. Það hefir þá komizt svona langt, þegar hv. þm. var ráðh. Þetta er svo sem vel hugsanlegt, ef hv. þm. hefir haldið, að hann gæti náð sér niðri á einhverjum andstæðingi, þá hefir ekki vantað viljann til að beita öllum vopnum til að ná í einhver skilríki, sem gátu komið sér illa. Ég sagði ekkert um það áðan, hvaða afstöðu ég tæki til þessa frv. Það fer allt eftir því, hvað frv. verður mikið bætt. Svo miklar breyt. má gera, að það verði hægt að vera með því. En frv. eins og það var borið fram á sínum tíma var illa úr garði gert, eins og æfinlega er um frv. frá hv. þm. S.-Þ. Það er venja þessa hv. þm. að nota jafnvel virðulegustu staði, eins og grg. með frv., til þess að birta skammir og fúkyrði í garð andstæðinganna. Slíkt er nægileg ástæða oft og tíðum til þess, að þingið sýni frv. frá þessum hv. þm. lítilsvirðingu. Það getur vel verið, að ef þetta frv. kemur fram í sómasamlegu formi, þá verði hægt að vera með því.