06.05.1936
Sameinað þing: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

1. mál, fjárlög 1937

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla að minnast á nokkrar brtt., sem ég er 1. flm. að. Sú fyrsta er 34. brtt. á þskj. 519, um það að greiða 6000 kr. upp í ofviðristjón á húsum og vörum í Haganesvík haustið 1934, en til vara 4000 kr. Ástæða til þess, að við þm. Skagf. flytjum þessa till. er sú, að á síðasta þingi voru veittar 60000 kr. til þess að greiða upp í ofviðristjón á Norðurlandi haustið 1934. Þessari upphæð hefir verið úthlutað, en á þann óskiljanlega hátt, að kaupfélagið í Haganesvík, sem varð fyrir stórkostlegu tjóni, hefir ekkert fengið af þessu té. Þetta kaupfélag er fátækt, og hefir þetta tjón því orðið mjög tilfinnanlegt fyrir það. Það missti t. d. bryggju, sem það átti, og sjórinn gekk í gegnum vörugeymsluhúsið, svo að vörurnar skemmdust stórkostlega; tók sjórinn t. d. 60–70 kjöttunnur og fleygði þeim í vatn þar nærri, og eyðilögðust sumar alveg, en aðrar skemmdust mjög. Þetta tjón mun vera metið á 20–30 þús. kr. Ég býst ekki við, að ég þurfi að mæla frekar fyrir þessari till., því að það virðist stafa af óskiljanlegri vangá, að þetta félag hefir ekki komið til greina í þessu efni.

Þá vil ég drepa á 50. brtt. á sama þskj., um ábyrgð fyrir Sauðárkrókshrepp til hafnargerðar á Sauðárkróki. Það er lagt til, að upphæðin verði hækkuð úr 270 þús. kr. upp í 500 þús. kr. Þetta er þó ekki raunveruleg hækkun, því að í þessum 500 þús. kr. er falinn sá hluti, sem ríkissjóður á að leggja fram, þar sem nú er ákveðið, að þetta verði gert á 8 árum hér frá, 10 árum í allt, en 2 ár af þeim eru búin. Ástæðan til þess, að nauðsynlegt er að fá þessa hækkun er sú, að í fyrra var gengið út frá því, að það yrði ákveðið útlent firma, sem léti framkvæma verkið, og þá ætlaði það að taka þessa 10 ára greiðslu ríkissjóðs gilda sem borgun, en nú lítur út fyrir, að ekki sé um annað að ræða en að vitamálastjóri sjálfur framkvæmi þetta verk, og ef nokkuð á af því að verða, þá er ekki hægt að komast hjá því að taka lán líka fyrir þeim hluta, sem ríkissjóður á að leggja fram á þessum 8 árum.

Eg skil þess vegna ekki í, að hæstv. ríkisstj. eða nokkur yfirleitt geti haft á móti þessari tillögu út af fyrir sig. En það er annað atriði í þessari brtt., og það er, að hér er stungið upp á, að það sé ekki gert að skilyrði, að lánið sé lekið hér innanlands, af því að það eru engin líkindi til að unnt sé að fá hér innanlands svo hátt lán. Það eru heldur engin líkindi til þess, þó að hægt væri að fá lán hér innanlands, að unnt væri að fá yfirfært af því til erlendra efniskaupa. Þetta er sama „argumentið“, sem ég var með hér á þinginu í fyrra, og þá fór það þannig, að till. um svipað efni var felld með jöfnum atkvæðum, en ég vona, að betur takist til nú, því að það ætti hver maður að geta séð, að það er betra, þegar mikil yfirfærsluvandræði eru að fá lán, sem má greiðast á l0–20 árum, heldur en þurfa að yfirfæra upp undir 300 þús. kr. á einu ári fyrir erlent efni, ef innanlandslán fengist, sem ég tel nokkurnveginn útilokað. — Þá held ég, að ég eigi ekki eftir að skýra annað en það, hvers vegna er horfið frá því að leita til erlendra firmna um að vinna þetta verk. þannig að það eða þau firmu, sem kynnu að taka verkið að sér, tækju gildar sem greiðslu þær 200000 kr., sem ríkissjóður ætlar að greiða á 8 árum.

Um þetta er þess að geta, að síðan í fyrra hefir efni, sem til mannvirkisins þarf, stigið mikið í verði, svo að ekki eru sem stendur líkur til að hægt sé að koma mannvirkinu upp fyrir þær 820 þús. kr., sem hafnarlögin seta sem hámark. Sú till., sem lá hér fyrir í fyrra. byggðist nákvæmlega á þeirri upphæð. Bara verðmunurinn á járninu einu, er þarf til þessa hafnargarðs, er um 50 þús. kr., og þar af leiðir, að ef á að semja við einhver erlend firmu, þá er auðsætt, að það er ómögulegt með þeim hagnaði, sem þau hljóta að reikna sér, að vera innan við þessa fjárhæð. — Ég vona, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég álít, að hér sé um svo mikið nauðsynjamál að ræða fyrir Sauðárkrók, að það sé allt að því lífs- og dauðaatriði að fá þetta gert á næstunni. — Þá held ég, að það séu ekki fleiri brtt., sem ég er 1. flm. að.

Hv. 11. landsk. nefndi það, að ég flytti hér með honum eina till. Ég sé enga ástæðu til að mæla frekar fyrir henni en hann hefir gert. Það er óþarfi, og mér finnst eðlilegt, að þeir sem urðu til að endurvekja Geysi, fái dálitla viðurkenningu fyrir það þarfa verk, og mér sýnist það vera svo lítið, sem hér er á ferðinni, að ekki muni meira um það en einn blóðmörskepp í sláturtíðinni.