18.03.1936
Efri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

Magnús Guðmundsson:

Eins og tekið er fram í nál. og eins og hv. form. allshn. tók fram hér áðan, þá hefi ég að því leyti sérstöðu í n., að ég lít svo á, að það hafi verið hægt að setja þau ákvæði í reglugerð, sem felast í frv. En af því að ég get vel gengið inn á frv. eins og það nú liggur fyrir, þá er engin ástæða fyrir mig að gera það að kappsatriði, hvort þessar reglur eru settar með lögum eða í reglugerð. En náttúrlega virðist mér, þar sem ég tel, að þetta hefði mátt gera með reglugerð, að ekki hefði átt að gefa út bráðabirgðalög, en um það skal ég ekkert frekar fást.

Um refsiákvæðin er það ekki rétt orðað í nál., að ég hafi viljað gera aths. við sektarákvæðin. Það, sem ég átti við, voru refsiákvæðin yfirleitt, ekki eingöngu sektirnar. Þegar ég ber þau saman við refsiákvæðin fyrir landhelgisbrot, þá get ég ekki skilið, að það sé miklu saknæmara að leiðbeina eða hjálpa til við landhelgisbrot heldur en að fremja brotið sjálft. Hér finnst mér vissulega vera mikið ósamræmi. Refsingin getur jafnvel stigið upp í 2 ára betrunarhúsvinnu samkv. frv.

Út af orðum hv. þm. S.-Þ. hér við 1. umr. þessa máls, þegar ég var „dauður“, vil ég benda honum á, að hér er á ferðinni allt annað mál heldur en það, sem hér var lengst að flækjast fyrir nokkrum árum. Nú er þetta frv. þannig útbúið, að við sjálfstæðismenn getum vel sætt okkur við það eins og það verður með breyt. n. En innihald hins frv. var þannig, að það hlaut að valda miklum ágreiningi, en út í það hirði ég ekki að fara nú, nema sérstakt tilefni gefist, og er ég þá vel undir það búinn að sýna fram á. hver geysilegur munur er á þessu frv. sem hér liggur fyrir, og hinu frv., sem mest var deilt um á 3 þingum í röð fyrir nokkrum árum og nefnt ömmufrv.