14.04.1936
Neðri deild: 48. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

Thor Thors:

Eins og hv. frsm. allshn. sagði, höfum við hv. 8. landsk. og ég óskað að láta þess getið í nál., að við teljum, að hægt hefði verið að setja samskonar ákvæði með reglugerð, byggðri á lögum nr. 82 frá 1917. Í 2. gr. þeirra laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þráðlausar firðviðskiptastöðvar á erlendum skipum og í íslenzkri landhelgi má aðeins nota samkv. þeim ákvæðum, sem ráðuneyti Íslands setur í reglugerð. Ráðuneytið getur bannað öll þráðlaus firðviðskipti innan íslenzkrar landhelgi og gert þær ráðstafanir, er nauðsynlegar þykja, til þess, að banninu verði hlýtt.“

Ennfremur segir svo í þessum lögum: „Þráðlausar firðviðskiptastöðvar á íslenzkum skipum, hvort heldur eru innan eða utan íslenzkrar landhelgi, sem ekki eru eign landssjóðs, má aðeins setja á stofn og starfrækja að áður fengnu leyfi ráðuneytisins. Sé skilmálum leyfisins um útbúnað og rekstur stöðvanna ekki fullnægt, getur ráðuneytið afturkallað leyfið.“

Með þessum ákvæðum hefði ráðh. getað sett þau skilyrði, sem hann óskaði, fyrir því, að loftskeytastöðvar væru starfræktar í íslenzkum skipum, og í reglugerð nr. 32 frá 1918 segir svo í 2. gr.:

„Enginn má setja upp eða reka loftskeytastöð á Íslandi eða innan íslenzkrar landhelgi eða á skipum, sem skrásett eru á Íslandi, nema að þar til fengnu leyfi ráðuneytisins, er gefur út leyfisbréf fyrir stöðina.“ Og svo í 11. gr. þessarar reglugerðar, þar sem talað er um skipastöðvar. segir svo:

„Þessum stöðvum ber í öllu að haga sér samkv. fyrirmælum landssímastjóra að því, er snertir útbúnað og rekstur stöðvanna og meðferð skeyta.“

Þarna er landssímastjóra veitt fullkomin heimild til að setja hverjar þær reglur, sem hann óskar, um meðferð skeyta.

Og í 19. gr. sömu reglugerðar segir svo: „Einnig getur ráðuneytið látið hafa eftirlit með öllum loftskeytum, látið stöðva þau skeyti, sem að þess áliti geta verið skaðleg velferð landsins.“

Ef dómsmrh. álítur, að einhver hætta geti verið á ferðum um misnotknn loftskeyta, getur hann samkv. þessu skýlausa ákvæði bannað skeytasendingar eða sett reglur til þess að hindra misnoktun skeytasendinganna. Vegna þessara á kvæða, sem ég nú hefi getið, teljum við hv. 8. landsk. og ég, að nú um langt skeið hafi verið til skýlaus heimild fyrir ríkisstj. til þess að hafa fullkomið eftirlit með loftskeytasendingum skipa.

Eins og kunnugt er, hefir því verið haldið fram hér á Alþingi, m. a. í umr. um hið fræga „ömmu“ frv. og í grg. þess, að loftskeyti væru notuð til þess að leiðbeina togurum við veiðar í landhelgi. Að ekkert skuli því hafa verið gert til þess að fyrirbyggja slíkt, þrátt fyrir skýlausa heimild, sýnir bezt, að áhuginn hefir ekki verið mikill hjá þeim, sem hæst hafa talað um þessi mál, eins og t. d. hv. þm. S.-Þ., sem um langt skeið var dómsmrh. og vitað er, að talaði manna mest um misnotkun loftskeytasendinganna á sínum tíma.