28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Jakob Möller:

Það liggur við, að ég geti fellt niður umr. um þetta mál, sérstaklega ef hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur.

Síðan ég kvaddi mér hljóðs, hefir það komið fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefir sent út gegnum útvarpið opinbera tilkynningu um afstöðu sína til símamálsins, eða m. ö. o. þess, að það hefir komið upp, eins og hv. þdm. er í fersku minni, að leynd talsímans hefir tvisvar verið rofin hér í bænum á 3–4 mánaða tíma, sem sennilega er einsdæmi, líklega þó nokkuð víða væri leitað.

Ég skal nú ekki gera þessa opinberu tilkynningu hæstv. ríkisstj. að umtalsefni hvað þetta snertir. En stj. hefir í sambandi við þetta talsímamál notað tækifærið til þess að gefa út tilkynningu um afstöðu sína til togaraskeytamálsins eða dulskeytamálsins, þó að það mál komi hinu málinu, um talsímahleranirnar, ekki nokkurn skapaðan hlut við. Því að ég veit ekki til þess, að hæstv. ríkisstj. sæti nokkrum ádeilum fyrir það, þó að hún að gefnu tilefni — nefnilega njósnarstarfsemi í sambandi við landhelgisveiðar og brot á löggjöf í því sambandi — ryfi leynd loftskeyta, þannig að hún léti rannsaka skeyti, sem fara eiga á milli togara og lands og á milli togara innbyrðis á hafinu. Hæstv. ríkisstj. hefir engum ámælum sætt fyrir þetta, af þeirri einföldu ástæðu, að stjórnarandstæðingar, sjálfstæðismenn, hafa haldið því fram, að ríkisstj. væri þetta fullkomlega heimilt. Hinsvegar er það að vísu satt, að því hefir verið haldið fram í blöðum stjórnarflokkanna, að stj. hafi ekki haft samkv. þessum l. heimild til slíkra ráðstafana, og því hefir líka verið haldið fram í þeim sömu blöðum, að sú rannsókn, sem stj. hefir látið fram fara um þetta, hafi verið framkvæmd eftir úrskurði lögregluvaldsins. Þetta hefir mörgum sinnum verið staðhæft í blöðum stj., og þess vegna kemur það dálítið undarlega fyrir, þegar nú í sambandi við umr. um símamálið og mér skilst líka í þessari opinberu tilkynningu því er haldið fram. að viðkomandi ráðh. hafi talið sér fullkomlega heimilt að framkvæma þessa rannsókn alveg án úrskurðar, enda hefir hún verið framkvæmd án úrskurðar. M. ö. o., ráðh. hefir með þessu lýst því yfir, að hann sé um þetta alveg á sömu skoðun og sjálfstæðismenn, að til þessarar rannsóknar hafi verið fullkomin heimild í gildandi l. Þannig er þá fengin viðurkenning fyrir því, að sú lagasetning, sem hér er á ferðinni og hæstv. stj. hefir gefið út sem bráðabirgðalög nú fyrir skömmu, sé a. m. k. að mestu óþörf, og ég vil jafnvel segja gersamlega óþörf, því að sú viðbára, sem stj. hefir haft um það, eða hefir nú um það, að nauðsynlegt hafi verið að setja ákveðnari reglur um þetta en felast í l. frá 1917 og reglugerðinni frá 1918, er einskis virði, vegna þess að það er auðsætt, að stj. gæti breytt reglugerðinni frá 1918 og sett svo nákvæmar reglur sem henni yndist um það, hvernig þetta eftirlit yrði framkvæmt.

Hæstv. forsrh. sagði í ræðu í dag, að heimildin í l. frá 1917 og reglugerðinni frá 1918 væri svo víðtæk, að manni skildist, að honum hefði óað við því að nota hana, því að menn gætu jafnvel leiðzt út í gönur, ef framkvæma ætti rannsókn samkv. þeirri heimild. En ef hann óttast það, þá hefði hann þar getað sniðið sér þrengri stakk með nýrri reglugerð. Hitt var alveg óþarft, að gefa út þessi bráðabirgðalög. Það er því sýnt, að það hefir ekki verið neitt nema marklaust skvaldur, sem stjórnarflokkarnir hafa alltaf verið að tala um, að sjálfstæðismenn hafi beitt sér á móti því á undanförnum árum, að fullnægjandi löggjöf yrði um þetta sett, því að það er viðurkennt, að fyrrverandi löggjöf var fullnægjandi. Og þar er því við að bæta, sem hv. þm. Snæf. benti á fyrr við þessa umr., að sú löggjöf, sem stjórnarflokkarnir hafa viljað koma fram hér á þingi, hefði verið gersamlega ófullnægjandi til þess að ná þeim tilgangi, sem nú hefir verið náð samkv. gömlu l. Ef þessi löggjöf, sem framsóknarmenn börðust fyrir alla tíð síðan 1928, hefði verið sett, þá hefði það orðið til þess að koma í veg fyrir, að því eftirliti hefði verið komið á. sem nú hefir verið komið á samkv. gömlu l. Hún hefði sem sé þrengt þá heimild, sem hæstv. forsrh. kvartaði undan, hvað væri víðtæk, svo að ekki væri hægt að framkvæma eftirlit með skeytum til togara.

Þó að þetta mál sé óviðkomandi símanum, þá get ég ekki annað en fagnað því, að hæstv. stj. hefir gefið út þessa tilkynningu og tekið þar einmitt upp þennan kafla um togaranjósnarmálið, því að með því er svo fullkomlega staðfest sem hægt er að óska, að við sjálfstæðismenn höfum haft fullkomlega á réttu að standa hvað þetta snertir. Það er viðurkennt af hæstv. stj., svo að þar verður engu um þokað. En þar af leiðir það, að því fer fjarri, að stj. eigi nokkrar þakkir skilið fyrir þá röggsemi, sem látið er svo mikið af, að hún hafi sýnt í þessu máli, því að það er vitað, að tilefnið til að hefja rannsókn í þessu máli gafst 10 mánuðum fyrr en rannsóknin var hafin. Það var sem sé eftir að dulskeytin fundust í enskum togara, sem strandaði fyrir meira en ári síðan. Og það er vitað, að dulmálslykill, sem fannst þar, gaf tilefni til rannsóknar. Og í stað þess að hefja hana í marz 1934, þá dregur hæstv. stj. rannsóknina alveg þangað til um eða eftir áramót, svo að öll sú þökk, sem krafizt er til handa hæstv. stj. fyrir röggsemi í þessari rannsókn, snýst að mínu viti upp í vanþökk fyrir framkvæmdaleysi.

Það er svo ekki ástæða til að ræða þetta mál frekar, af því að mér virðist, að því sé alveg slegið föstu, að þessi löggjöf hafi í rauninni verið óþörf. Hinsvegar föllumst við sjálfstæðismenn á, að það geti heldur engan skaða gert, þó að hún sé sett, eins og nú er frá henni gengið.

Ég skal ekki nú blanda símamálinu á nokkurn hátt inn í þessar umr. Það mál verður rætt nánar næstu daga og því óþarfi að fara út í það nú.