07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

1. mál, fjárlög 1937

*Sigurður Kristjánsson:

Það ætti að vera auðvelt að hafa áhrif á þessa fáu menn, sem eru viðstaddir. Því að það vill svo til, að ég hefi flutt hér það eitt, sem er ákaflega vinsælt, svo að ég þarf ekki margt að segja. Ég mun þá minnast á brtt. mínar í réttri röð eftir greinum.

Í fyrsta lagi er brtt. á þskj. 519IV, um styrk að upphæð 1200 kr. til Kristjáns læknis Grímssonar, sem stundar framhaldsnám í læknisfræði erlendis. Þessi maður hefir fyrir fimm árum lokið kandídatsprófi héðan frá háskólanum, og hefir bráðum stundað sitt framhaldsnám í fjögur ár. Hann hefir ekki enn fengið neinn styrk héðan að heiman. Eins og kunnugt er, deilast þær styrkeitingar, sem um er að ræða frá stofnunum, á svo marga; og það vill þá oft verða svo, að duglegustu mennirnir eru látnir sitja á hakanum, þeir sem líklegastir eru til að bargast á eigin spýtur með einhverjum ráðum. Þessi maður hefir sýnt mikinn dugnað við nám sitt. En það er kunnugt, að þeir menn, sem eru búnir að berjast við nám sitt í mörg ár, eru búnir að ganga nærri lánstrausti sínu og oft einnig kröftum. Nú er þetta lokaár hans í sérfræðináminu. Þess vegna tel ég mjög vel fallið, að þingið meti þennan dugnað hans og þrautseigju að einhverju, en veiti þennan styrk ekki aðeins í viðurkenningarskyni við hann einan fyrir það að hafa trúlega barizt áfram allan þennan tíma, heldur líka til þess að undirstrika það, að það skuli verða einskonar regla, að menn, sem eru langt komnir við nám, séu frekar látnir njóta styrks til þess að ljúka námi heldur en að fleygja styrkupphæðum til manna á byrjunarstigi, sem svo engin trygging er fyrir, að geti haldið áfram né hafi til þess stöðuglyndi.

Ég hefi sett í till. til vara eitt þúsund. Það má kannske kalla þessa lækkun smámunalega. En ég geri þetta vegna þess, að þm. hafa oft sýnt, þegar um styrkveitingar er að ræða, að nokkru ræður um afstöðu þeirra, að hóflega sé farið í sakir um styrkbeiðni. — Mér er óhætt að segja, að þó að fjvn. hafi ekki tekið upp þessa till., þá eru ýmsir nm. henni vinveittir.

Aðra brtt. á ég við sömu gr. Það stendur svo á, að í þremur hreppum í Norður-Ísafjarðarsýslu er veittur styrkur til læknisvitjana. Það eru Inndjúpsmenn, sem eiga mjög erfiða læknissókn. Nú hefir farið svo, að sá hreppur, sem hæstan styrkinn átti að fá, hefir minnstu þurft að kosta til læknisvitjana. Ég hefi farið fram á þá breyt., að styrkurinn verði sameiginlegur til þessara hreppa allra og skiptist í hlutfalli við kostnað þeirra af læknisvitjunum. Fjvn. álítur rétt að breyta þessu á þann hátt, að styrkur verði afmarkaður sérstaklega til hvers hrepps. En ég legg til, að styrkurinn verði veittur sem sameiginleg upphæð og skipt eftir á. Kostnaður þessi getur verið mjög breytilegur eftir árferði. Það geta komið fyrir ár, þegar sumir þessara hreppa komast tiltölulega vel út af læknisvitjunum af þeim ástæðum t. d., að ferðir Djúpbátsins og læknisvitjanir geta farið saman að miklu leyti, en næsta ár getur þetta stórkostlega breytzt. Misjafnlega mikið kveður líka eðlilega að farsóttum og sjúkdómum í einstökum hreppnum frá ári til árs. Ég hefi talað um þetta við fjvn., sem er meðmælt breyt. í þessu efni, ég held allir nm. vænti ég því, að hv. þdm. hafi ekki neitt út á þetta að setja.

Þá á ég brtt. við 16. gr. og skal um hana ekki vera margorður. Þó verð ég að rifja upp, að snemma á þessu þingi barst iðnaðarnefnd erindi frá Landssambandi iðnaðarmanna, þar sem farið er fram á, að n. komi á framfæri umsókn til þingsins, og tilmæli um að mæla með henni við fjvn. Umsóknin er um 20 þús. kr. til sambandsins til þess að hafa opinbera skrifstofu í þarfir iðnaðarmálanna. Nú er kunnugt, að iðnaður fer vaxandi hér á landi, bæði í Rvík og öðrum bæjum. Virðist ekki vanþörf að fjölga þeim atvinnugreinum, sem standa undir þörfum fólksins. Með bráðvaxandi notkun rafmagnsins, sem nú á sér stað og verður þó meiri innan skamms, er sjálfsagt að gefa þessum atvinnugreinum mikinn gaum. Í erindi sínu segir landssambandið á þá leið, að það hafi sama hlutverk að vinna fyrir iðnaðinn sem Búnaðarfélag Íslands fyrir landbúnaðinn og Fiskifélag Íslands fyrir fiskiveiðarnar, þ. e. að efla iðnaðinn á hvern hátt, sem verða má og þjóðinni er til hagsbóta. Þetta er hverju orði sannara. Við vitum það, að Búnaðarfélag Íslands nýtur mikils styrks til þess að efla þekkingu á landbúnaðinum með upplýsingastarfsemi og mörgu fleira. Á sama hátt nýtur Fiskifélag Íslands styrks til að vinna þetta hlutverk fyrir fiskiveiðarnar. Það er enginn vafi, að fyrir Iðnsambandinu liggur að vinna hliðstætt hlutverk fyrir iðnaðinn. Þessar 20 þús. eru náttúrlega ákaflega lítil upphæð í samanburði við þann styrk, sem fiskifél. og búnaðarfélagið fá. En þess er að gæta, að þetta er aðeins byrjun. En félagið getur ekki gert ráðstafanir til starfrækslu fyrr en það veit nokkurn veginn, hve mikið fé það fær milli handa. Ég þykist mega treysta því, að ef hv. þdm. athuga þetta mál frá sjónarmiði alþjóðar manna hér á landi, þá muni þeir komast að þeirri niðurstöðu, að það sé alveg nauðsynlegt, að þetta samband hafi úr einhverju fé að spila til að leiðbeina og efla þekkingu viðvíkjandi iðnrekstrinum, og að hér sé ekki farið fram á neitt stórkostlegt að tiltölu við það verkefni, sem liggur fyrir.

Það er náttúrlega þýðingarlaust að vera að mæla með þessu fyrir tómu húsi. En ég verð að treysta því, að hv. þm. kynni sér þetta mál, hver á eigin hönd, áður en þeir fella um það úrskurð með atkv. sínu.

Þá er ég meðflm. að till. á þskj. 519, um ábyrgð á seldum fiski í þeim löndum, þar sem greiðslutregða er. Aðalflm. er hv. þm. N.-Ísf., og mun hann færa rök fyrir till. aðallega. Skal ég láta mér nægja að geta hennar aðeins, og að ég tel hina mestu nauðsyn á því, að þeirri málaleitan verði sinnt.

Og loks er ég meðflm. að tillögu á sama þskj., sem er um skuldaskil fyrir vélbátaeigendur, og flytjum við hv. þm. Vestm. hana. Er farið fram á, að í 22. gr. fjárl. verði tekin upp heimild fyrir stj. að efla skuldaskilasjóð vélbátaeigenda með nýju framlagi úr ríkissjóði, allt að 200 þús. kr., og fái þá eigendur línuveiðagufuskipa aðgang að lánum úr sjóðnum á sama hátt og vélbátaeigendur.

Þessu máli víkur þannig við, að þegar stofnaður var skuldaskilasjóður fyrir vélbátaeigendur, þótti meiri hl. þings ekki við eiga að opna slíka hjálp fyrir stærri skip heldur en þessa venjulegu vélbáta, sem ekki munu vera stærri en upp í 60 rúmlestir. Nú hefir það farið svo, að um lán úr þessum sjóði hafa ekki sótt mjög margir. Og ef farið væri eftir þeim reglum, sem í l. eru fyrirskipaðar um lánin, þ. e. að lána í hæsta lagi 20% á móti brúttóeign lánþega, þá mundi verða afgangs af sjóðnum talsvert mikil upphæð, miðað við þá bátaeigendur, sem í upphafi á hinum auglýsta tíma sóttu um lán. En nú hefir farið svo, að fjöldi útgerðarmanna, sem ekki sótti um lán á tilsettum tíma, hefir orðið fyrir geysimiklum töpum, sérstaklega á síðustu vertíð. Og ef opnað verður fyrir umsóknir í sjóðinn nú fyrir einhver skip, þá virðist alveg sjálfsagt að hann verði fyrst og fremst opnaður á ný fyrir þeim skipaeigendum, sem það er hægt að l. Og það er áreiðanlega víst, að svo mjög hefir gengið niður á við fyrir vélbátaeigendum, að það mundu sjálfsagt koma fram nýjar umsóknir og miklu meiri en sjóðurinn gæti annað með því fé, sem bann nú hefir yfir að ráða.

Því hefir verið hreyft, að þessi afgangur sem talið var, að yrði, gæti gengið til þess að hjálpa línuskipaeigendum. En það er í alla staði óeðlilegt, að það sé hleypt öðrum skipum að þessum lánum heldur en þeim, sem í upphafi áttu að njóta lánanna, en hin séu útilokuð. Við flm. teljum þetta ófært, og ef veita á línuveiðaskipum einhverja svipaða hjálp og vélbátaeigendum, þá verði að koma til nýtt fé. Og því höfum við borið fram þessa till.

Um þörf eigenda línuveiðaskipa fyrir þessi lán þarf ekki að fjölyrða. En að við berum fram þessa till. stafar af því, að þeir hafa snúið sér til þm. og ríkisstj. og beðið um hjálp í tilefni af því, að þeir þykjast sjá fram á, að þeir muni ekki komast til síldveiða í sumar, nema því aðeins, að þeim verði hjálpað á þennan hátt. Nú er það kunnugt, að skip af þessari tegund eru til einskis eins vel fallin eins og síldveiða. Reynslan af þeim á síðari árum við þorskveiðar er hin hörmulegasta. Það á náttúrlega ekki eingöngu við um línuveiðara, en þó mun hvergi hafa verr gengið. Og þó er óhætt að segja, að á þessum skipum séu sérstaklega valdir dugnaðar- og aflamenn. En reynslan af þessum skipum við síldveiðar er þar á móti sérlega góð; til þeirra veiða virðast skipin hentug. Þau eiga hægt með að fara með þessi fyrirferðarmiklu og þunglamalegu veiðarfæri, og báta geta þau haft í gálgum. Þau rúma mikið af síld, og geta þess vegna mjög vel veitt síld jöfnum höndum í bræðslu og söltun.

Þegar nú búið er að halda þessum skipum á hinar óhagstæðari víðar í vetur og vor, þá er það ákaflega hörmulegt, ef þau útilokast að meira eða minna leyti frá að stunda þær veiðar, sem þau eru miklu betur fallin til. Það eru a. m. k. sterkar líkur til, að hægt sé að reka þau án rekstrarhalla, eða jafnvel með sæmilega góðum árangri. Og ef þessi hjálp gæti orðið til þess, að þessi skip gætu komizt flest á veiðar, — þá er það náttúrlega ákaflega mikið hagsmunamál fyrir landið í heild. Það mundi skap, mjög mikla atvinnu og einnig auka verulega útflutningsvörur, sem talið er, að séu vissar á markaði. Ég vænti þess vegna, að hv. þm. taki þessari till. vinsamlega og veiti stj. þá heimild, sem fram á er farið.