28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. þm. Snæf. byrjaði ræðu sína, eins og hv. þm. G.-K. er vanur að gera, með því að segja, að allt sem andstæðingurinn hefði sagt, væri nauðaómerkilegt. En þegar þau atriði, sem hv. þm. hélt fram, eru krufin til mergjar, verður heldur lítið úr öllum gorgeirnum. Hann leyfði sér að halda því fram, að úrskurður lögreglustjórans í Rvík um það að láta hlusta á símtöl leynisalanna væri runninn undan rifjum stj. Ég vil skora á hv. þm. Snæf. að endurtaka þessi ummæli opinberlega utan þings, ef hann hefir hug til. (GSv: Þetta hefir verið sagt berum orðum í blöðunum. Hvers vegna lögsækir hæstv. dómsmrh. þau ekki?). Ég vil nú gera greinarmun á því, sem þm. segja, og hinir ómerkilegu blaðasneplar íhaldsins, eins og Vísir og Stormur. (SK: Ég hefi fullyrt þetta utan þings). — Þá hélt hv. þm. Snæf. því fram, að úrskurðir lögreglustjóra hefðu verið þvert ofan í lög. Ég skal ekki fara út í þá sálma, enda vita allir, að hv. þm. Snæf. fer hér með vísvitandi ósannindi um leið og hann vegur að fjarstöddum manni. En það værri eiginlega fróðlegt að vita það, hvaða tegund afbrotamanna það er, sem íhaldið ætlar að fara að skýla bak við símaleyndina, eins og veiðiþjófunum bak við loftskeytaleyndina áður. Það er æðri dómstóla að skera úr um úrskurði lögreglustjóra. Hitt er ósæmilegt, en að vísu hv. þm. Snæf. samboðið, að kasta fram órökstuddum svívirðingum í garð fjarstaddra manna.

Ég þarf ekki að svara því, hvers vegna núv. stj. hafi ekki notað heimildina, sem hv. þm. segir, að sé í lögunum frá 1917. Við töldum, að þessi heimild væri ekki til, svo að fullu haldi kæmi. En hvers vegna svarar hann því ekki. af hverju hv. l. þm. Skagf., sem var dómsmrh. á annað ár, og hv. þm. G.-K., sem líka var dómsmrh. um tíma, notuðu sér ekki þessa heimild sem þeir sögðu, að væri til? Þessu hefir hv. þm. Snæf. ekki svarað og hann sleppur ekki með það að vera með uppgerðarvandlætingu í garð núv. stj. fyrir vanrækslu í þessum efnum. Það er líka á allra vitorði, hvers vegna þessir tveir dómsmrh. Sjálfstfl. kærðu sig ekki um neinar upplýsingar í landhelgisnjósnamálinu.

Núv. stj. hóf undirbúning til þess að koma upp njósnunum, strax og hún hafði tekið við völdum. Nú segist hv. þm. Snæf. vilja hafa þessi lög sem keyri á mig! En ef sá dómsmrh., sem nú situr, þarf keyri á sig til að sinna þessum málum, — hvaða verkfæri hefði þá þurft að nota á þá hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. G.-K. þegar þeir voru dómsmrh.?

Ég hefi þegar upplýst allt um dulmálslykilinn, sem hv. þm. Snæf. segir, að flotið hafi upp í hendurnar á mér, og fært sönnur á það, að hann fannst ekki fyrr en löngu eftir að stj. hafði látið hefja rannsókn á því, hve mikið hefði verið sent af skeytum til togara, er varðskipin fóru út.

Hv. þm. var að tala um gorgeir í mér yfir þeirri röggsemi, er ég þættist hafa sýnt í málinu. Ég tók það einmitt fram, að ríkisstj. ætti engar þakkir skildar fyrir að hafa, gert skyldu sína í þessu máli. En víst er um það, að hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. G.-K. eiga skömm skilið fyrir sína frammistöðu. Allt öðru máli gegnir um hv. þm. S.-Þ., sem taldi ekki nóga stoð í gildandi lögum og barðist fyrir nýrri löggjöf um þetta efni gegn þrálátum fjandskap íhaldsins. En það er á allra manna vitorði, hvers vegna íhaldsráðh. tveir svikust um að gera skyldu sína.