28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Jóhann Jósefsson:

Hæstv. forsrh. var í ræðu sinni að vitna í dagskrá okkar hv. þm. G.-K. 1928 í þessu máli, ömmumálinu svokallaða. Af því að ég stóð að þessari dagskrá, vil ég skýra nokkuð, hvers vegna við vildum vísa málinu frá og töldum næga heimild í gildandi lögum. Það frv., sem þá var flutt, var eftir orðalagi þess og anda eingöngu flutt til höfuðs íslenzkum útgerðarmönnum. Í grg. er aðeins veitzt að íslenzkum togurum og útgerðarmönnum þeirra. Hv. þm. S.-Þ., sem þá var dómsmrh., virðist ekki sjá neina hættu annarsstaðar. Grg. byrjar á þessa leið:

„Frá því að íslenzk botnvörpuskip tóku að stunda veiðar við land, hefir það verið alkunnugt að sum þeirra hafa veitt mikið í landhelgi. Og eftir að loftskeytastöðvar voru reistar og botnvörpungarnir fengu loftskeytatæki, hefir sterkur grunur á því leikið að einstök útgerðarfyrirtæki stjórnuðu landhelgisbrotum úr landi.“

Í þessum tóm var talað fyrir málinu á þingi, og þó einkum af þáverandi dómsmrh. Frv. var meingallað að öllum frágangi, eins og þingið fann og viðurkenndi með því að vilja ekki samþ. það. Þannig var í því gert ráð fyrir, að hegna mætti mönnum án sannana, ef grunur lá á þeim.

Svo að ég fari fljótt yfir sögu, vil ég benda á nál. minni hl., sem endaði á hinni rökst. dagskrá. Í nál. segir svo m. a.:

„Minni hl. vill leiða athygli að því, sem höfundum frv. sýnist hafa verið óljóst, að ríkisstj. hefir næga stoð í gildandi lögum til þess að hafa það eftirlit með sendingu loftskeyta, sem nægilegt er til að hindra misnotkun þeirra í þágu landhelgisveiða, sbr. meðal annars lög nr. 82 14. nóv. 1917, og reglugerð nr. 32 frá 17. maí 1918 samkvæmt þeim lögum.“

Dagskráin er svo rökstudd með þessu og öðru, sem kemur fram í nál., og hún samþ., og hæstv. forsrh. hefir samþ. það og lýst yfir því hér á þingi, að við höfum lagt sér í hendur þau meðul, sem þurfti til að framkvæma þá rannsókn á njósnum þessum, sem nú er fræg orðin. Ég tel ekki, að við, sem að þessu stóðum fyrir átta árum og þá bentum á þessu leið, séum nokkurn hátt ámælisverðir. Hitt mætti heldur segja, að þeir sem mesta trú höfðu á því, að loftskeytin væru misnotuð af íslenzkum skipum — því eins og áður er fram tekið, var þessu frv. eingöngu stefnt á móti íslenzkum skipum — hefðu átt að nota sér þessa heimild þá strax, og þá sérstaklega sá ráðh., sem mest barðist fyrir þessu máli, og skal ég ekki lasta það, að svo miklu leyti sem heill hugur fylgdi. En flutningi málsins fylgdi svo mikið ofstækisæði gegn íslenzkum togaraeigendum, að það var viðbjóðslegt fyrir þm. að fylgja því. Það hefir líka sýnt sig, að frv. var óþarft, og hæstv. forsrh. hefir nú undirstrikað það bæði með ræðu hér í þingi og með útvarpstilkynningu, að þessi heimilt er til og að hann notaði þá heimild til þess að komast fyrir þessar njósnir. Ég myndi hafa verið þakklátur hverri stj., sem hefði viljað nota þessa heimild, því að hún var til og hefir verið til öll þessi ár. Það hefði líklegu verið hægt að koma í veg fyrir þessi hneykslismál — ég hefi ekki tekið eftir því, á hvaða tíma þessi brot voru fyrst framin — ef notuð hefði verið þessi heimild og þannig farið að þeim ráðum sjálfstæðismanna, sem fram komu á þingi 1928.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um gremju yfir því að þessar njósnir hefðu komizt upp. Ég tel það mjög undarlegt að tala um gremju í þessu sambandi. Ég hefi hvergi orðið var við þessa gremju, sem hann telur, að komið hafi fram hjá sjálfstæðismönnum. Ég minnist þess ekki, að í blöðum sjálfstæðismanna hafi verið öðruvísi talað um þessi njósnarmál heldur en algerlega hlutlaust. Ég man ekki eftir, að ég hafi nokkursstaðar utan þings heyrt þessum njósnum mælta bót, og ég veit ekki heldur til þess, að hér á þingi hafi nokkur mælt þeim bót.

Eins og tekið hefir verið fram, var frv. 1928 einvörðungu stefnt gegn íslenzkum togurum, en mér finnst, að reynslan hafi sýnt það, að hættan var meiri gagnvart útlendum skipum, sem þá átti alveg að sleppa, en með lögunum frá 1917 og reglugerðinni frá 1918 féllu útlendu skipin eins undir þessi ákvæði eins og íslenzku skipin, enda eðlilegt, að ákvæðin væru látin gilda eins um loftskeyti til útlendra skipa og íslenzkra. Ég held, að það sé ekki ofmælt, að rannsóknin hafi leitt það í ljós, að meiri þörf hafi verið á að rannsaka loftskeyti, sem send voru til útlendra skipa, heldur en þau, sem fóru til þeirra íslenzku. En á þessu tímabili, 1928–1930, og frameftir skelltu ráðh. skolleyrum við því að nota þess, heimild — ég segi þetta ekki ráðh. til ámælis — þangað til nú í haust, að hafizt var handa um þessar rannsóknir með þeim árangri, sem nú hefir sýnt sig. — Það er sannarlega engin gremja í Sjálfstfl. yfir því, að þessum njósnum hefir verið lostið upp. Síður en svo.

Ég ætla ekki að fara að ræða um símamálið, eða þá hlustun, sem framkvæmd hefir verið í bæjarsíma Rvíkur, en ég skil ekki ummæli hæstv. forsrh., að símahleranirnar og loftskeytaskoðunin í sambandi við njósnaramálið standi í órjúfanlegu sambandi. Ég vil líka nota tækifærið til þess að mótmæla fyrir mína hönd og annara þeirri skoðun, að með rökstuddu dagskránni 1928 höfum við á nokkurn hátt gefið undir fótinn með það, að hlusta mætti í síma eða skoða önnur skeyti en loftskeyti. Það er skýrt tekið fram í þeirri löggjöf, sem þar er nefnt, að eftirlitið á einvörðungu við loftskeyti. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa 19. gr. reglugerðarinnar. Hún hljóðar svo:

„Ráðuneytið getur bannað öll loftskeytaviðskipti innan íslenzkrar landhelgi, bæði frá íslenzkum og erlendum skipum, og gert þær ráð stafanir, er nauðsynlegar þykja, til þess að banninu verði hlýtt.

Einnig getur ráðuneytið látið hafa eftirlit með öllum loftskeytum, látið stöðva þau skeyti, sem að þess áliti geta verið skaðleg velferð lundsins.“

Hæstv. forsrh. segir, að við höfum viljað láta gera þessar rannsóknir eftir á, þegar skaðinn var skeður, en þetta er á engan hátt rétt. Í þessari gr. felast möguleikar til alls þess, sem hæstv. forsrh. hefir látið framkvæma, og jafnvel til meira, því að hér er svo víðtækt vald til fyrir ráðh., að hann getur gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru.

Mér finnst óviðkunnanleg aðdróttun hjá hæstv. forsrh., sem hann kom með hér og hefir komið með annarsstaðar, að það sé öllum ljóst, hvers vegna hv. l. þm. Skagf. og hv. þm. G.-K., þegar þeir voru ráðh., hafi ekki notað eða látið nota ákvæði reglugerðarinnar frá 1918. Mér skilst, að með þessum fullyrðingum sé hæstv. forsrh. á alveg ósæmilegan hátt að gefa undir fótinn með það, að þessir tveir hv. þm. hafi í ráðherrastóli viljað hlynna að misnotkun loftskeyta í þessu efni. Ef ég skil þetta skakkt, þá er hægur hjá fyrir hæstv. forsrh. að leiðrétta, en þar sem hann hefir tvítekið þetta, þá er nauðsynlegt, að það sanna komi fram. (Forsrh.: Hvers vegna heldur hv. þm., að þeir hafi ekki notað heimildina? — PO: Hvers vegna notaði hv. þm. S.-Þ. ekki heimildina, þegar hann var ráðh.? — Forsrh.: Hann áleit heimildina vafasama). Mér finnst ég alveg eins vel geta fundið aðrar ástæður.

Eins og þetta mál var uppvakið og framborið á þingi 1928, þá var því einvörðungu stefnt að íslenzkri útgerð. Ég held ekki, að allir hafi verið jafnsannfærðir um það eins og hv. þm. S.-Þ., að íslenzkir togarar misnotuðu loftskeytin, og ég held, að rannsókn hafi leitt það í ljós um íslenzku toarana, að þar voru ekki eins mikil brögð að þessari misnotkun eins og af var látið. E svo á að áfella þessa tvo ráðh. sem annar sat á annað ár, en hinn í nokkra mánuði, — því á þá að undanskilja þann ráðh., sem sat í 4 ár í stjórnarsessi og virtist trúa því, að íslenzkir togarar misnotuðu loftskeytin? Mér finnst, að þessar ásakanir eigi hér ekki heima. Við stöndum gagnvart þeirri staðreynd, og það er beinlínis viðurkennt og undirstrikað af hæstv. forsrh., að við bentum á það á þinginu 1928, að stjórnarvöldin hefðu næga stoð í lögum til þess að framkvæma þessar rannsóknir, og við höfðum rétt fyrir okkur. Þetta er beinlínis undirstrikað af hæstv. forsrh., og að því leyti getum við ver- ið ákaflega ánægðir.

Þetta nýja frv., sem hér liggur fyrir, er náttúrlega ákaflega ólíkt ömmufrv. gamla, en ég held að það hafi mjög litla praktiska þýðingu að samþ. það og ég stend enn á þeim sama grundvelli eins og á þinginu 1928. Ég álít að þau lagaákvæði sem snerta loftskeytaeftirlit, megi vel nota og að ný löggjöf í þessu efni sé óþörf. Ég held að þetta frv. hafi orðið til af því, að fát hafi komið á stj. við það að uppgötva þessar njósnir og hún hafi hugsað sem svo, að eitthvað yrði nú að gera og svo hafi þetta frv. fæðzt. En ég vænti einskis árangurs af þessari löggjöf fram yfir það, ef beitt væri ákvæðum laganna frá 1917 og reglugerðarinnar frá 1918. Ég hefi ekki mikla trú á því.

Ég hygg, að þær rannsóknir, sem hafa verið framkvæmdar, og þær njósnir, sem upp hafa komizt, muni verða til þess, að þeir, sem hafa stundað þessa njósnarstarfsemi, fái þar nægilega áminningu til þess að þá fýsi ekki að halda þeirri starfsemi áfram, og ef það ekki dugir framvegis, þá er næg heimild til í lögum og hægt að breyta reglugerðarákvæðum, svo að ekkert skorti á, að nægilegt eftirlit sé hægt að hafa um loftskeytin. Á hinn bóginn verður ekki hjá því komizt, þegar þetta frv. er orðið að lögum, að það verði til allmikils trafala þeim, sem nota loftskeytin í algerlega löglegum tilgangi. Þar geldur, eins og svo oft vill verða, sá saklausi hins seka. Þessu fylgir t. d. töluverð skriffinnsk., sem hin nýju ákvæði koma til með að leiða af sér, jafnframt því sem þau ef til vill auka nokkuð ótta manna vil að misnota loftskeytin, en ég veit ekki, hvort þess er þörf, sérstaklega nú eftir að ríkisstj. hefir mannað sig upp og notað þá heimild, sem til var í lögunum frá 1917.

Ég hefi þá lýst afstöðu okkar, sem stóðum að rökstuddu dagskránni 1928. Ég þóttist til þess neyddur, af því að sífellt hefir verið á þessu klifað. Ég tel þessa afstöðu fyllilega réttmæta, enda er það nú undirstrikað af hæstv. forsrh. með því fyrst og fremst að nota heimildina, og síðan með því beinlínis að lýsa yfir því fyrir öllum landslýð, að ríkisstj. hafi notað þessa heimild til þess að komast fyrir þessar njósnir.

Ég vil mótmæla því, að nokkur ástæða sé til að væna þessa tvo ráðh. úr Sjálfstfl., sem hafa átt sæti í stjórn frá 1928, um nokkra yfirhylmingarstarfsemi, eins og mér skildist, að hæstv. ráðh. vildi gefa í skyn með orðum sínum. Ég vil líka mótmæla því, að hjá okkur sjálfstæðismönnum hafi orðið vart við nokkra gremju út af uppljóstun á misnotkun loftskeytanna. Ekkert af þeim ásökunum hefir við rök að styðjast, og því fer fjarri, að svo hafi verið. — Um frv. það, sem hér liggur fyrir, læt ég mér í léttu rúmi liggja, hvort það verður að lögum eða ekki.