07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

1. mál, fjárlög 1937

*Jón Pálmason:

Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi veitt því athygli, að ég á nokkrar brtt. við fjárlfrv. á þskj. 519, og jafnvel þó að frekar fátt sé hér við af hv. þm., þá vil ég fara um þær nokkrum orðum.

Er þar fyrst að nefna IX. till., þar sem farið er fram á, að veitt sé til Skagastrandarvegar í mínu kjördæmi 5000 kr., en til vara 3500. Þessi vegur er mikið gallaður eða ólagður á löngum köflum, og er mjög brýn þörf að fá gert við hann þar, sem mest hætta er á, að hann sé ekki bílfær. Ég hefi veitt því eftirtekt í sambandi við þetta frv., eins og það var eftir 2. umr., að þá var ætlað til nýrra þjóðvegalagninga á landinu samtals um 500 þús. kr., og samkvæmt till. fjvn. við þessa umr. er nú bætt við 31000 kr. rúmlega svo að það er komið nokkuð á 6. hundrað þús. kr., sem er ætlað til þjóðvega á landinu. En það eru aðeins 6000 kr., sem ætlað er af þessu mikla fé í mitt kjördæmi, og ég verð að segja, að eins og sakir standa, þá sé það engan veginn eðlileg skipting á þessu fé, enda er sannleikurinn sá, að ef litið er á þetta frá því sjónarmiði, sem mjög er athugað, og þeir þykjast athuga, sem mest hafa yfir þessum málum að segja, sem sé eftir þeirri þörf, sem fólkið hefir á hverjum stað, þá er þannig ástatt í þessu efni, að alltaf eru að berast til mín fleiri og fleiri kröfur frá mönnum, sem vantar atvinnu og reyna að komast í einhverja opinbera vinnu, annaðhvort í næstu héruðum eða öðrum landsfjórðungum, en nú er ekki hægt að sinna þessum till. Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þessa brtt.

Næsta brtt. mín er sú XIV. á sama þskj. og fjallar um það að veita 7000 kr. til þess að fullgera bátabryggju á Blönduósi. Þessi bryggju bilaði mikið í fyrra. eins og hv. þm. mun vera kunnugt. og fékk talsverða aðgerð sl. sumar, en nú vantar um 20 þús. kr. til að ljúka þeirri viðgerð, en eins og kunnugt er, þá hefir það verið regla, að ríkið hefir lagt fram ? kostnaðar við bryggjugerðir og lendingarbætur. Hér er um brýna þörf að ræða, þó að hv. fjvn. af einhverjum ástæðum hafi ekki séð sér fært að mæla með, að þessi upphæð yrði tekin á fjárl.

Þá er 3. brtt., sem ég hefi leyft mér að flytja á sama þskj. XIX. Þar er farið fram á að veittur sé úr ríkissjóði styrkur til að gera við Þingeyrakirkju og er farið fram á 6000 kr., en til vara 4000 kr. Þetta mál er í raun og veru sérstakt í sinni röð að því leyti, að hér er um hús að ræða, sem er með elztu og merkustu húsum á landinu. Húsameistari ríkisins hefir látið þau orð falla við mig, að hann teldi í raun og veru skömm, að ekki skuli vera búið að framkvæma aðgerð á þessu merkilega húsi, því að hann lýsir því yfir, að af eldri húsum landsins sé það eitt þeirra fegurstu. Nú er hér um fámennan og fátækan söfnuð að ræða, og er honum því algerlega ofvaxið að framkvæma þessa dýru viðgerð án þess að fá opinbera hjálp.

Ég skal taka það fram, að allar þessar till. mínar um aukin fjárframlög hvíla í raun og veru á sama grundvelli, þeim grundvelli, að meðan farið er fram á að veita jafnmiklu og gert er með núverandi fjárl. til hinna og þessara nauðsynlegra framkvæmda á okkur landi á öllum sviðum verður að gera kröfu til þess, að þeim upphæðum sé jafnað niður á þann veg, að ekki gæti hlutdrægni í þeirri úthlutun. Hefði verið gengin sú leið að skera fjárveitingar stórkostlega niður frá því sem verið hefir, og láta það ganga jafnt yfir öll héruð, hefði ég ekki látið mér til hugar koma að bera fram þessar till., þrátt fyrir þá brýnn þörf, sem þarna er. En meðan fjárgreiðslum er háttað á þann hátt, sem nú er samkvæmt gildandi fjárl. og samkvæmt þessu fjárlfrv. og till. fjvn., þá finnst mér sanngjarnt, að það sé látið ganga jafnt yfir alla, hvar á landinu sem er.

Þá skal ég að endingu víkja nokkrum orðum að þeirri till. sem er mín síðasta till. og ég flyt ásamt hv. þm. Ak., XL. Hún stefnir mjög í aðra átt en aðrar till. mínar, því að hún er lækkunartill. Fer hún fram á að fella niður skáldalaun til Halldórs Laxness. Till. er byggð á því, að ég staðhæfi, að ekki sé annar liður á fjárl., sem a. m. k. í sveitum okkar lands er litinn verri augum en einmitt sá liður, sem hér er um að ræða. Og því fremur tel ég mér skylt að flytja þessa till., sem í mínu kjördæmi var haldinn þingmálafundur nokkru áður en ég fór hér til þings, þar sem samþ. var af öllum flokkum, sem þarna voru staddir, að skora á Alþingi að fella niður af fjárl. þessa upphæð. Ég skal nú fara um þessa till. nokkrum orðum, þó að ekki sé ástæða til að gera það mjög ýtarlega.

Þegar Alþingi verðlaunar einhverja menn, hvort sem það er fyrir skáldskap eða aðrar listir eða eitthvað annað, sem talið er sérstaklegu til umbóta í okkar þjóðfélagi eða til heiðurs fyrir okkar land, verður að gera kröfu til þess, að þessi störf, sem verið er að verðlauna, milli virkilega til menningar og fullkomnunar í okkar þjóðlífi, og að því er skáldin snertir, þá er þetta sú krafa, sem að eðlilegum hætti á til þeirra að gera. Út í það skal ég ekki mjög nákvæmlega fara, en vil þó benda á tvennt, sem gera verður kröfu til, þegar um skáldskap er að ræða. Annað er formið, hversu fullkomið vald höfundurinn hefir á málinn, en hitt er efnið, sem annaðhvort þarf að vera til uppbyggingar ella þá að fela í sér hugsjónir, sem séu til fyrirmyndar fyrir almenning eða þá, sem á eftir koma.

Ég skal taka það fram, að að því er snertir þann höfund, sem hér er um að ræða, þá tel ég, að hann fullnægi þeirri kröfu, sem ég nefndi fyrr, þ. e. a. s. að hann hafi vald yfir málinu og því, að lýsa þeim hlutum, sem hann tekur til meðferðar, og mig grunar, að það sé einmitt það, sem hefir villt mönnum sýn, svo að þeir hafa talið sanngjarnt og eðlilegt og réttlátt að verðlauna þennan mann svo stórkostlega sem gert hefir verið. En hér kemur annað út, þegar maður fer út í efni þeirra rita, sem eftir þennan mann liggja. Ég get sagt það fyrir hönd íslenzkra bænda, að þeim finnst dálítið óeðlilegt og furðulegt, að Alþingi skuli sérstaklega verðlauna það, að þessi maður hefir undanfarin ár lýst íslenzkum bændum og íslenzkum sveitamönnum sem heimskum, menntunarsnauðum, skítugum og lúsugum o. s. frv., og það er ekki mjög miklu betri lýsing, sem kaupstaðarbúar fá hjá þessum höfundi.

Þegar nú þessar lýsingar og þessi skáldverk flytjast til annara landa, þá er það næsta furðulegt, að Alþingi skuli láta sér sæma að verðlauna þá höfunda, sem bera þjóðinni þann orðstír, sem þessi höfundur gerir. Ég get hugsað mér, að ef þau rit, sem hér er um að ræða, hefðu verið skrifuð af einhverjum dönskum kaupmanni eða einhverjum framandi manni, sem ferðazt hefði um okkar land, þá hefði það vakið almenna andúð og almennan viðbjóð hjá þeim, sem unna heiðri íslenzku þjóðarinnar. En því undarlegra er það, að þegar slíkar lýsingar koma frá innlendum manni, þá skuli þing þjóðarinnar verða til þess að verðlauna það með hæsta skáldastyrk, sem veittur hefir verið hér á landi, og setja þan aðilja sem hér á hlut að máli, jafnframarlega sem stórskáld okkar, svo sem Einar Benediktsson og Einar H. Kvaran. Þetta er atriði, sem ég tel mér skylt að láta ekki lengur viðgangast en vitanlega býst ég við, að það fari svo við atkvgr., eins og oft hefir farið áður, að meiri hl. sjái sér ekki fært að víkja í þessu efni af þeim vegi, sem hann hefir áður gengið. Ég tek þetta ekki sérstaklega til af því, að þetta sé einstakt dæmi að því er snertir fjárveitingar til einstakra manna, heldur af því að ég tel þetta versta dæmið, sem til er í okkar fjárh. og við hv. þm. Ak. höfum borið þessa till. fram sem nokkurskonar prufu á það, hvort hv. þm. þyki vert að gera nokkra breyt. þarna á. Sannleikurinn er sá, að mér fyrir mitt leyti ofbýður að sjá þing eftir þing alltaf hrúgað inn á fjárl. meira og meira af hinum og þessum persónulegum styrkjum til manna, sem virðast ekki hafa unnið til þeirra hluta, eins og líkur mættu til benda eftir þeim fjárhæðum, sem til þeirra er veitt.

Ég skal ekki að sinni fara um þetta fleiri orðum. Því miður eru hér ekki nema tiltölulega fáir hv. alþm. viðstaddir, en ef svo kynni að fara sem ég geri ráð fyrir, að einhverjir verði til að taka upp vörn fyrir þennan styrk, sem hér er um að ræða, þá fæ ég sjálfsagt tækifæri til að taka þær varnir til athugunar síðar við þessa umr.

Ég ætla ekki nú að fara út í almennar umr. um þetta fjárlfrv., sem hér liggur fyrir, jafnvel þó að til þess væri rík ástæða, eins og nú er ástatt í landinu, þegar hæstv. stj. er nú að fara fram á heimild til að taka nýtt ríkislán ofan á allt, sem fyrir er, svo að hægt sé að fleyta því áfram og fjármálaspilaborgin geti staðið nokkrum mánuðum lengur. En úr því ekki er neitt gert til þess að stefna í aðra átt en gert hefir verið, þá geri ég kröfu til þess, að mitt kjördæmi njóti jafnréttis við aðra landshluta.