28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

92. mál, forgangsréttur til embætta

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hv. menntmn., sem flutti þetta frv., hvort það beri að skilja svo, að þeir, sem lokið hafa kandídats- og meistaraprófi í íslenzkum fræðum við heimspekideild háskólans, skuli ganga fyrir í embætti fram yfir þá menn, sem lokið hafa prófi í sögu og norrænum fræðum við norræna háskóla.

Mér er kunnugt um það, að þannig er ástatt um sögukennslu í norrænudeild háskólans hér, að þar er aðeins kennd Íslands saga. Þeir, sem stunda sögunám, t. d. í Danmörku og Noregi — og það hafa margir gert — stunda sögu yfirleitt og eru að því leyti betur undir það búnir að hafa með höndum kennslu í veraldarsögu heldur en nemendur frá norrænudeild háskólans hér. Ég álít mjög sanngjarnt og eðlilegt, að norrænufræðingar héðan hafi forgangsrétt fram yfir aðra ólærða menn í slíkum stöðum, en mér finnst æðivarhugavert, ef þeir ættu að hafa forgangsrétt fram yfir lærða sögumenn, sem stundað hafa nám sitt erlendis, í norrænum löndum sérstaklega. — Ég vil mega vænta skýringar á þessu frá hv. menntmn.

Mér virðist, að orðalagið á frv. bendi til þess, að það sé svo einskorðað, að þeir, sem lokið hafa prófi héðan frá háskólanum, eigi að ganga fyrir þeim, sem lokið hafa prófi í samskonar fræðum við aðra norræna háskóla. En ef svo mætti skilja frv., þá teldi ég það ekki allskostar rétt, og vildi skjóta því til hv. menntmn., hvort hún sæi sér ekki fært a. m. k. að kveða skýrt á um það, að þessi forgangsréttur útskrifaðra manna úr norrænudeild háskólans hér næði ekki til þess, að þeir stæðu feti framar heldur en sögufræðingar og norrænufræðingar frá öðrum norrænum löndum.