21.02.1936
Neðri deild: 5. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

* Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og sést í grg. þessa frv. og hv. þm. muna, var samskonar frv. lagt fyrir síðasta þing. Þegar það var lagt fram, gerði ég með nokkrum orðum grein fyrir tildrögum þessa máls og skýrði með nokkrum orðum þau nýmæli, sem eru í frv. Þykir mér því óþarfi að endurnýja þær skýringar og þá grg., sem ég lét þá fylgja frv. nú fyrir nokkrum mánuðum síðan. Leyfi ég mér því aðeins að vísa til þess, sem þá kom fram hér í d.

Frv. þetta er að áliti okkar flm. mjög mikil endurbót og réttarbót frá því, sem nú er, en varla var við því að búast, að það næði fram að ganga á síðasta þingi, þar sem það kom ekki fram fyrr en liðinn var nokkur hluti þingsins. Hinsvegar vil ég vænta þess, þar sem frv. kemur fram nú í byrjun þessa þings, að það nái fram að ganga á yfirstandandi Alþingi.

Ég vil leyfa, mér að óska, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til allshn. þessarar d., sem fékk hitt frv. í fyrra, en afgr. það ekki þá. heldur varð það að samkomulagi að gera það ekki, m. a. vegna þess, að það var leitað umsagnar lagadeildar háskólans og Málaflutningsmannafélags Íslands um frv., en nú má vænta þess, að álit þessara aðilja, sé á leiðinni, svo að það þyrfti ekki að tefja fyrir framgangi þessa máls á þessu þingi.