26.03.1936
Neðri deild: 34. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég vil þakka fyrir hin vinsamlegu ummæli hv. þm. Ak. um frv., og það því fremur, sem hann hefir athugað það rækilega og komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri til mikilla bóta. Ég hefi átt kost á að sjá brtt. hv. þm. við frv., í handriti, og eru þær allar á þá lund, að ég get vel fellt mig við þær. Tvær þeirra eru aðeins málfarsbreytingar, sem ég get fallizt á að betur muni fara. En hinar tvær eru ofurlitlar efnisbreyt., sem hann hefir gert grein fyrir í ræðu sinni, og ég hefi ekkert á, móti, að verði samþ. Mér finnst önnur þeirra vera sanngjörn og eðlileg, sem fer fram á það, að dómari fái þóknun fyrir að gefa út stefnu.

Ég hefi lagt fram brtt. við frv. á þskj. 234. En þar sem ekki hefir verið leitað afbrigða fyrir því að hún megi komast að til umr., þá ræði ég ekki um hana að sinni. En ég get fyrir mitt leyti fallizt á að málið verði tekið af dagskrá, svo að hv. þm. Ak. geti haft tækifæri til að koma að sínum brtt. við þessa umr. Jafnframt mælist ég til þess við hæstv. forseta, að það verði aftur á dagskrá á morgun, því að allshn. vill, að frv. gangi fram á þessu þingi.